Einstakir gististaðir á VesturlandiEinstakir gististaðir á Vesturlandi

10.05.2020 | Lella Erludóttir

Ísland hefur notið mikilla vinsælda meðal erlendra ferðamanna undan farin ár vegna einstakrar náttúrufegurðar, víðáttu og hreinleika sem fáir aðrir áfangastaðir búa yfir. Ísland er einstakt land sem hefur upp á margt að bjóða og hver landshluti hefur sína sérstöðu þegar kemur að áhugaverðum hlutum að skoða og upplifa, einstökum náttúruperlum, mannlífi eða þjónustu. Við mælum með því að þú gefir þér tíma til að dvelja nokkrar nætur í hverjum landshluta til þess að ná virkilega að njóta þess sem þar er að finna og drekka í þig sögu, menningu og náttúru hvers staðar.

Vesturland býr yfir ríkri sögu frá tímum víkinga, stórbrotinni náttúru, dásamlegum litlum þorpum og bæjum og fjölbreyttum upplifunum fyrir alla fjölskylduna. Gefðu þér tíma til að kynnast Vesturlandi, sökktu þér í söguna og leitaðu uppi leyndar náttúruperlur í bland við þær þekktustu. 

Hér höfum við tekið saman upplýsingar um okkar bestu og skemmtilegustu gististaði á Vesturlandi, staði sem geta orðið þitt annað heimili í sveitinni.

Vogur á Fellsströnd

Vogur á Fellsströnd

Vel búið sveitahótel á friðsælum stað. Útsýni til hafs, yfir eyjar og sker, þar sem Snæfellsnesjökull, formfagurt, kulnað eldfjall, trónir lengst í vestri. Vogur er kjörinn staður til gönguferða um fjörur, dali og fjöll og þaðan er tilvalið að fara í dagsferðir um nágrannasveitir og söguslóðir frægra Íslendingasagna. Frá aðalveginum til Vestfjarða, þar sem hann liggur um botn Hvammsfjarðar, eru um 35 km út með firðinum að Vogi.

Hótel Hafnarfjall

Hótel Hafnarfjall

Gististaður staðsettur við þjóðveg 1 í Borgarfirði á miðvesturlandi, um 70 km frá Reykjavík. Gististaðurinn stendur sunnan við Borgarfjarðarbrúna við rætur Hafnarfjalls. Gegnt staðnum, hinum megin við fjörðinn, er Borgarnes, snotur bær þar sem margt er í boði fyrir ferðamenn. Frá gististaðnum opnast fjölmargar leiðir til kynnisferða um sögufrægt og fallegt héraðið upp af Borgarfirði.

Ensku húsin við Langá

Ensku húsin

Aðlaðandi gistiheimili í meira en aldargömlum húsum með sögu og sál sitt hvoru megin við laxveiðiána Langá, 6 km frá Borgarnesi í Borgarfirði á Suðvestur-Íslandi. Herbergi með sameiginlegum og sérbaðherbergjum. Staður þar sem fossaniður og niður liðinna alda renna saman í eitt. Góð staðsetning fyrir skoðunarferðir um Borgarfjörð og vestur á Snæfellsnes. Skemmtilegar gönguleiðir meðfram Langá. Vottuð af Vakanum.

Hótel Á

Hótel Á

Lítið sveitahótel í Hvítársíðu, einni af innsveitum Borgarfjarðar á mið-vesturlandi, á vinsælum ferðamannaslóðum. Hótelið stendur skammt frá bökkum Hvítár, jökulár sem fellur niður héraðið. Þaðan er glæsilegt útsýni yfir fljótið og inn til jökla sem rísa upp af óbyggðum inn af sveitinni. Stutt að fara til að heimsækja kunnustu náttúruperlur í Borgarfirði og sögusvið frægra Íslendingasagna.

Bjarg í Borgarnesi

Bjarg í Borgarnesi

Lítið og notalegt fjölskyldurekið gistiheimili á fallegum útsýnisstað við sjóinn í útjaðri bæjarins Borgarness, þjónustu- og verslunarmiðstöðvar Borgarfjarðarhéraðs á suðvestur-Íslandi, 74 km frá Reykjavík. Gistiheimilið er í endurnýjuðum bæjarhúsum á gamalli bújörð, umhverfið friðsælt en stutt í alla þjónustu. Fjölmargir útivistar-, afþreyingar- og ferðamöguleikar um Borgarfjörð og nágrannasveitir.

Hestaland - Staðarhúsum

Hestaland Staðarhúsum

Gistiheimili með hestaívafi miðsvæðis í Borgarfirði, 17 km frá þéttbýlinu í Borgarnesi, um 90 km frá höfuðborginni Reykjavík. Snyrtileg herbergi með sameiginlegu eða sérbaði. Einnig sumarhús í boði, 500 m frá gistiheimilinu. Góð staðsetning til skoðunarferða um Borgarfjarðarhérað og Snæfellsnes og um margt að velja þegar kemur að útivist, náttúruskoðun og afþreyingu. Á Hestalandi, Staðarhúsum er rekið hrossabú og daglegar hestaferðir í boði.

Steindórsstaðir í Reykholtsdal

Steindórsstaðir

Aðlaðandi og snyrtileg bændagisting á sveitabæ undir aflíðandi hlíð í einu fegursta og blómlegasta héraði á Íslandi. Eftir dalbotninum liðast blátær Reykholtsdalsá í mjúkum sveigum og sveitin breiðir út grænan faðm sinn á móti gestum. Frá Steindórsstöðum opnast ýmsar leiðir til öku- og gönguferða um einstakar náttúruperlur.

Gistihúsið Langaholt á Snæfellsnesi

Langaholt

Snæfellsjökull geislar frá sér dulmagni þar sem hann blasir við frá gistihúsinu Langaholti. Stutt er niður í gula sandfjöru þar sem fuglar njóta lífsins og einstaka selur kinkar kolli upp úr bárunni. Fjölbreytilegt landslag á Snæfellsnesi, mótað af eldvirkni og ágangi sjávar, myndar stórfenglega umgjörð um bjart og hlýlegt gistihús í sveit með vinsælum sjávarréttastað.

Signýjarstaðir í Hálsasveit

Signýjarstaðir

Gisting í sumarhúsum á bænum Signýjarstöðum í Hálsasveit í Borgarfirði á suðvestur-Íslandi. Signýjarstaðir, bær þar sem rekinn er hefðbundinn búskapur, eru stutt frá ýmsum af kunnustu og vinsælustu ferðamannastöðum framarlega í Borgarfirði. Umhverfið er gróið og hlýlegt en ekki langt að aka til þess að upplifa friðsæld á hrjóstrugu hálendinu þar sem stórskorin fjöll og jöklar seiða til sín hugann.

Kast gistihús

Kast

Gisting í herbergjum með og án baðs miðsvæðis á sunnanverðu Snæfellsnesi á vestanverðu Íslandi, skammt frá mörgum af kunnustu náttúruperlunum í þessum landshluta. Veitingastaður/kaffihús þar sem má gæða sér á sumrin á nýju, heimabökuðu brauði alla daga. Stórt og gott tjaldsvæði. Náttúrufegurð, gönguleiðir, fjölbreytt afþreying og leyndardómar Snæfellsjökuls innan seilingar.

Hótel Laxárbakki

Laxárbakki

Hótel Laxárbakki stendur á bökkum Laxár, við þjóðveg 1, skammt frá ósum Laxár við Grunnafjörð í Hvalfjarðarsveit, aðeins 12 km frá Akranesi og 20 km frá Borgarnesi. Gisting í herbergjum með og án sérbaðs og í sumarhúsi. Eldunaraðstaða fyrir alla og aðgengi að þvottavél. Heitur pottur. Á staðnum er veitingastaður opinn frá morgni til kvölds. Fjölbreytt úrval afþreyingar í næsta nágrenni og ekki lengi verið að aka til allra helstu ferðamannastaða á Vestur- og Suðvesturlandi.

Suður-Bár við Grundarfjörð

Suður-Bár við Grundarfjörð

Gistiheimili á bóndabæ við Grundarfjörð miðsvæðis á norðanverðu Snæfellsnesi á Norðvestur-Íslandi, 8 km frá útgerðar- og ferðaþjónustubænum Grundarfirði. Mikil náttúrufegurð og fagurt útsýni til fjalla og til hafs. Gönguleiðir, golfvöllur við bæinn, hestaferðir, sjóstangveiði og hvalaskoðun. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Skoðunarsiglingar um Breiðafjörð. Ferja til Flateyjar og Vestfjarða.

Bjarteyjarsandur í Hvalfirði

Bjarteyjarsandur í Hvalfirði

Gisting í vel útbúnu sumarhúsi við bæinn Bjarteyjarsand á norðurströnd Hvalfjarðar, í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Reykjavík. Á Bjarteyjarsandi eru sauðfjárbúskapur og ferðaþjónusta tvinnuð saman með ýmsum hætti með hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Lögð er áhersla á heimilislegt andrúmsloft. Fjölbreyttir útvistarmöguleikar. Merktar gönguleiðir. Húsdýr til sýnis.

Brennistaðir í Flókadal

Brennistaðir

Á Brennistöðum er boðið upp á heimagistingu og íbúð/herbergi m/sérbaði en auk þess gefst gestum tækifæri til að kynnast dýrunum í sveitinni. Hlýlegt umhverfi og fögur fjallasýn inn til landsins. Ýmislegt til afþreyingar í nágrenninu, gönguleiðir í byggð og um heiðar og í öræfakyrrð fjallanna. Sund og golf. Frægar náttúruperlur og ferðamannastaðir á vestanverðu landinu innan seilingar í stuttum eða lengri dagsferðum.

Arnarstapi Center

Arnarstapi Center

Við rætur Snæfellsjökuls við jaðar þjóðgarðsins sem geymir einstakar náttúruperlur: Gisting í þrenns konar einingum, í hóteli með herbergjum með sérbaði, á gistiheimili með herberjum með sameiginlegum baðherbergjum og í smáhýsum með sérbaði. Veitingastaður. Fjölbreyttir möguleikar til útivistar, gönguferða, jöklaferða og náttúruskoðunar á slóðum sem verða flestum ógleymanleg upplifun.

Gistiheimilið Hvítá

Gistiheimilið Hvítá

Reisulegt gistiheimili í sveit, í bæjaþyrpingunni á Hvítárbakka, miðsvæðis í Borgarfjarðarhéraði á vestanverðu Íslandi, um 75 mín. akstur frá Reykjavík. Herbergi með sameiginlegu baði. Veitingaaðstaða. Húsið er skammt frá bökkum jökulárinnar Hvítár með útsýni til allra átta. Góð staðsetning til skoðunarferða um Borgarfjörð, útivistar og afþreyingar.

Hraunsnef í Norðurárdal

Hraunsnef

Fjölskyldurekið sveitahótel með heimilislegu andrúmslofti og hlýlegum veitingastað í fallegu umhverfi við veg nr. 1, ofarlega í Borgarfjarðarhéraði á suðvestur-Íslandi. Um dalinn, þar sem hótelið stendur, Norðurárdal, liggur aðalvegurinn milli höfuðborgarsvæðisins og Norðvestur- og Norðurlands. Landslag er hrífandi á þessum slóðum og fjölmargir möguleikar til útivistar, gönguferða og afþreyingar.

Snorrastaðir í Kolbeinsstaðahreppi

Snorrastaðir

Gisting í 4 x 4ra manna og 1 x 6-10 manna heilsárshúsi á bænum Snorrastöðum sem stendur á mótum Borgarfjarðarhéraðs og Snæfellsness á vestanverðu Íslandi. Bærinn er skammt frá Eldborg, friðlýstum náttúruvætti, og ekki er langt að fara niður á Löngufjörur, vinsælt svæði á meðal hestamanna. Landslag, mótað af eldi og ís, fjölbreyttar gönguleiðir og aðeins 60 mín. akstur til Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls.

Fossatún í Borgarfirði

Fossatún

Gististaður með fallegu útsýni á bökkum Grímsár, hjá Tröllafossum fyrir neðan mynni Lundarreykjadals í Borgarfirði, aðeins 90 km frá Reykjavík. Tilvalinn kostur fyrir þá sem hafa áhuga á þjóðsagnaheimi trölla og íslenskri og erlendri dægurtónlist fyrr og nú. Fossatún er miðsvæðis í Borgarfirði og hentar vel til skoðunarferða um héraðið.

Ferðaþjónustubændur Hey Ísland bjóða upp á fjölbreytta sveitagistingu um allt land. Hér getur þú skoðað gististaði á Suðurlandi, Norðurlandi, Austurlandi, í Reykjavík, á Hálendinu og Vestfjörðum.

í nágrenni