Hestaland - Staðarhúsum



Hestaland - Staðarhúsum

Gistiheimili með hestaívafi miðsvæðis í Borgarfirði, 17 km frá þéttbýlinu í Borgarnesi, um 90 km frá höfuðborginni Reykjavík. Snyrtileg herbergi með sameiginlegu eða sérbaði. Einnig sumarhús í boði, 500 m frá gistiheimilinu. Góð staðsetning til skoðunarferða um Borgarfjarðarhérað og Snæfellsnes og um margt að velja þegar kemur að útivist, náttúruskoðun og afþreyingu. Á Hestalandi, Staðarhúsum er rekið hrossabú og daglegar hestaferðir í boði. Opið frá 1. apríl -1. okt.

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Sér baðherbergi
  • Bústaður
  • Wi-Fi
  • Heitur pottur
  • Golfvöllur í nágrenni

Gistiaðstaða

Gisting í gámaeiningum þar sem allt er mjög snyrtilegt, bæði innan stokks og utan. Herbergi með og án baðs; eins, tveggja og þriggja manna herbergi. Sjónvarp, sloppar og hraðsuðuketill í öllum herbergjum og þráðlaust netsamband. Heitur pottur til afnota fyrir gesti. Setustofa/borðstofa.

Einnig er hægt að leigja 60m2 sumarhús m/3 svefnherbergjum, m.a. kojuherbergi.  Fullbúið eldhús, sjónvarp og frítt þráðlaust netsamband er í húsinu. Gasgrill er á veröndinni. Sumarhúsið er í 500 m fjarlægð frá gistiheimilinu, þar sem lyklarnir eru afhentir.

 
Veitingar/máltíðir

Morgunverður er ekki í boði 1. júní - 30. september. Kvöldverður í boði aðeins fyrir hópa, þ.e. ef pantað er með góðum fyrirvara. Næstu matsölu- og veitingastaðir í Borgarnesi (17 km).

Á veturna er morgunverður ekki í boði.  Í staðinn hafa gestir aðgang að eldhúsi.

 
Þjónusta/afþreying

Á Hestalandi, Staðarhúsum er lögð stund á hrossarækt og íslenski hesturinn er þar í öndvegi. Í boði eru reiðkennsla og daglegar, skipulagðar hestaferðir með fylgdarmanni um næsta nágrenni við bæinn, 30 mín. til 2 klst. ferðir. Ræktunarstarf, reiðkennsla og hestaferðir frá Staðarhúsum eru í samstarfi við fyrirtækið America2Iceland. Góðar gönguleiðir um kjarri vaxna klapparása og holt í nágrenninu.

Áhugaverð söfn, Landsnámssetrið og Edduveröld, og góð jarðhita-sundlaug í Borgarnesi. 18 holu golfvöllur skammt frá Borgarnesi, Hamarsvöllur (12 km). Næsta þéttbýli með verslunum, matsölustöðum og ýmissi þjónustu við ferðafólk: Borgarnes (17 km).

 
Norðurárdalur, laxaveiðiár, fossinn Glanni, Grábrók

Hestaland, Staðarhúsum eru 2 km frá þjóðvegi nr. 1 („hringveginum“) í hlýlegu landslagi þar sem skiptast á kjarri vaxnir klapparásar, holt og holtasund. Hér liggur hringvegurinn upp eftir Borgarfjarðarhéraði áleiðis norður í land, fram eftir fögrum dal, Norðurárdal. Í dalnum er Háskólinn í Bifröst (20 km) í fögru og fjölbreytilegu umhverfi, mótuðu af eldsumbrotum fyrir margt löngu. Eftir dalnum rennur ein kunnasta laxveiðiá landsins, Norðurá. Skammt frá Bifröst er fossinn Glanni í ánni þar sem má sjá laxinn stökkva ef heppnin er með. Á þessu svæði eru margar skemmtilegar gönguleiðir, meðfram bökkum Hreðavatns eða t.d. upp á gjallgíginn Grábrók (170 m) sem stendur við þjóðveginn.

 
Hraunfossar, Húsafell, jöklaferðir, vatnsmesti hver á Íslandi

Í uppsveitum Borgarfjarðar eru margir áhugaverði staðir fyrir ferðamenn. Þar má nefna t.d. Hraunfossa (45 km) þar sem tært bergvatn fellur undan hrauni í óteljandi glitrandi fossabunum; staður sem er rómaður fyrir fegurð. Nokkru innar en Hraunfossar er Húsafell (51 km frá Staðarhúsum), vinsæll útivistar- og ferðamannastaður skammt þaðan sem óbyggðir miðhálendis Íslands taka við af dölum Borgarfjarðar. Freistandi gönguleiðir, jöklaferðir og hellaskoðunarferðir. Frá Húsafelli eru um 30 km niður héraðið að Deildartunguhver, vatnsmesta hver á Íslandi (26 km frá Hestalandi).

 
Saga og goðaheimar - Snæfellsnes

Í Landnámssetri í Borgarnesi (17 km) er sýning um landnám Íslands á 9. og 10. öld. Þar má einnig kynnast sögu Egils Skallagrímssonar, skálds og víkings sem ólst upp á þessum slóðum og bjó á Borg, rétt utan við þorpið. Í Edduveröld í Borgarnesi svo brugðið upp myndum úr veröld hinna heiðnu goða Ásatrúarmanna. Frá Staðarhúsum er tilvalið að bregða sér í daglanga skoðunarferð um töfraheima íslenskrar náttúru á Snæfellsnesi, allt út til þjóðgarðsins hjá Snæfellsjökli (130 km). Fyrir ferðafólk á leið til Norðurlands er tilvalið að gista tvær nætur á Hestlandi, nota daginn til að skoða sig um á Snæfellsnesi og halda svo áleiðis norður.

 
Gestgjafi:  Guðmar 

 

í nágrenni