Hestaland - StaðarhúsumHestaland - Staðarhúsum

Gistiheimili miðsvæðis í Borgarfirði, 17 km frá þéttbýlinu í Borgarnesi, um 90 km frá höfuðborginni Reykjavík. Snyrtileg herbergi með sameiginlegu eða sérbaði. Einnig sumarhús í boði, 500 m frá gistiheimilinu. Góð staðsetning til skoðunarferða um Borgarfjarðarhérað og Snæfellsnes og um margt að velja þegar kemur að útivist, náttúruskoðun og afþreyingu. Í Staðarhúsum er rekið hrossabú og daglegar hestaferðir í boði. Opið frá 1. apríl -1. okt.

Veldu dagsetningar
Frá:101 kr.
hver nótt á herbergi
Senda fyrirspurn

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Sér baðherbergi
  • Bústaður
  • Wi-Fi
  • Heitur pottur

Gistiaðstaða

Gisting í gámaeiningum þar sem allt er mjög snyrtilegt, bæði innan stokks og utan. Fjögur eins manns herbergi, sem deila sameiginlegu baði og fjögur tveggja manna herbergi með sérbaðherbergi. Hægt er að koma fyrir aukarúmi í einu af þessum 2 manna herbergjum. Sjónvarp og hraðsuðuketill í öllum herbergjum og þráðlaust netsamband. Heitur pottur til afnota fyrir gesti. Setustofa/borðstofa.

Einnig er hægt að leigja 60m2 sumarhús m/3 svefnherbergjum, m.a. kojuherbergi.  Fullbúið eldhús, sjónvarp og frítt þráðlaust netsamband er í húsinu. Gasgrill er á veröndinni. Sumarhúsið er í 500 m fjarlægð frá gistiheimilinu, þar sem lyklarnir eru afhentir.

 
Veitingar/máltíðir

Morgunverður í boði á sumrin. Kvöldverður í boði aðeins fyrir hópa, þ.e. ef pantað er með góðum fyrirvara. Næstu matsölu- og veitingastaðir í Borgarnesi (17 km).

Á veturna er morgunverður ekki í boði.  Í staðinn hafa gestir aðgang að eldhúsi.

 
Þjónusta/afþreying

Í Staðarhúsum er lögð stund á hrossarækt og íslenski hesturinn er þar í öndvegi. Í boði eru reiðkennsla og daglegar, skipulagðar hestaferðir með fylgdarmanni um næsta nágrenni við bæinn, 30 mín. til 2 klst. ferðir. Ræktunarstarf, reiðkennsla og hestaferðir frá Staðarhúsum eru í samstarfi við fyrirtækið America2Iceland. Góðar gönguleiðir um kjarri vaxna klapparása og holt í nágrenni Staðarhúsa.

Áhugaverð söfn, Landsnámssetrið og Edduveröld, og góð jarðhita-sundlaug í Borgarnesi. 18 holu golfvöllur skammt frá Borgarnesi, Hamarsvöllur (12 km). Næsta þéttbýli með verslunum, matsölustöðum og ýmissi þjónustu við ferðafólk: Borgarnes (17 km).

 
Norðurárdalur, laxaveiðiár, fossinn Glanni, Grábrók

Staðarhús eru 2 km frá þjóðvegi nr. 1 („hringveginum“) í hlýlegu landslagi þar sem skiptast á kjarri vaxnir klapparásar, holt og holtasund. Hér liggur hringvegurinn upp eftir Borgarfjarðarhéraði áleiðis til Norður-Íslands, fram eftir fögrum dal, Norðurárdal. Í dalnum er Háskólinn í Bifröst (20 km) í fögru og fjölbreytilegu umhverfi, mótuðu af eldsumbrotum fyrir margt löngu. Eftir dalnum rennur ein kunnasta laxveiðiá landsins, Norðurá. Skammt frá Bifröst er fossinn Glanni í ánni þar sem má sjá laxinn stökkva ef heppnin er með. Á þessu svæði eru margar skemmtilegar gönguleiðir, meðfram bökkum Hreðavatns eða t.d. upp á gjallgíginn Grábrók (170 m) sem stendur við þjóðveginn.

 
Hraunfossar, Húsafell, jöklaferðir, vatnsmesti hver á Íslandi

Í uppsveitum Borgarfjarðar eru margir áhugaverði staðir fyrir ferðamenn. Þar má nefna t.d. Hraunfossa (45 km) þar sem tært bergvatn fellur undan hrauni í óteljandi glitrandi fossabunum; staður sem er rómaður fyrir fegurð. Nokkru innar en Hraunfossar er Húsafell (51 km frá Staðarhúsum), vinsæll útivistar- og ferðamannastaður skammt þaðan sem óbyggðir miðhálendis Íslands taka við af dölum Borgarfjarðar. Freistandi gönguleiðir, jöklaferðir og hellaskoðunarferðir. Frá Húsafelli eru um 30 km niður héraðið að Deildartunguhver, vatnsmesta hver á Íslandi (26 km frá Staðarhúsum).

 
Saga og goðaheimar - Snæfellsnes

Í Landnámssetri í Borgarnesi (17 km) er sýning um landnám Íslands á 9. og 10. öld. Þar má einnig kynnast sögu Egils Skallagrímssonar, skálds og víkings sem ólst upp á þessum slóðum og bjó á Borg, rétt utan við þorpið. Í Edduveröld í Borgarnesi svo brugðið upp myndum úr veröld hinna heiðnu goða Ásatrúarmanna. Frá Staðarhúsum er tilvalið að bregða sér í daglanga skoðunarferð um töfraheima íslenskrar náttúru á Snæfellsnesi, allt út til þjóðgarðsins hjá Snæfellsjökli (130 km). Fyrir ferðafólk á leið til Norðurlands er tilvalið að gista tvær nætur í Staðarhúsum, nota daginn til að skoða sig um á Snæfellsnesi og halda svo áleiðis norður.

 
Gestgjafi:  Guðmar 

 

í nágrenni