Fossatún - sveitahótel



Fossatún - sveitahótel

Sveitahótel með fallegu útsýni á bökkum Grímsár, hjá Tröllafossum fyrir neðan mynni Lundarreykjadals í Borgarfirði, aðeins 90 km frá Reykjavík. Tilvalinn kostur fyrir þá sem hafa áhuga á þjóðsagnaheimi trölla og íslenskri og erlendri dægurtónlist fyrr og nú. Fossatún er miðsvæðis í Borgarfirði og hentar vel til skoðunarferða um héraðið. Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sér baðherbergi
  • Wi-Fi
  • Heitur pottur
  • Veitingastaður
  • Vínveitingar
  • Golfvöllur í nágrenni
  • Aðstaða fyrir fatlaða
  • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

  • Tröllagarðurinn
  • Sundlaug Hreppslaug 5 km
  • Reykholt 7 km
  • Hvanneyri 11 km
  • Deildartunguhver og Krauma 14 km
  • Borgarnes 18 km
  • Hraunfossar 37 km
  • Golfvellir á Nesi við Reykholti (7 km) og í Borgarnesi (19 km)

Gistiaðstaða

Tólf herbergi með sérbaðherbergi í tveimur sérhúsum, öll með fallegu útsýni yfir Grímsá, Tröllafossa eða í átt til Skarðsheiðar. Aðstaða fyrir fatlaða.

Í Fossatúni er einnig boðið upp á gistingu í Sólarlagsbústaðnum (42m2 hús með 2 svefnherbergum, baðherbergi og eldhúsi) og þeir sem vilja einfalda gistingu leigt sér podda (aðgengi að snyrtingu, eldunaraðstöðu og heitum pottum).

Þjónusta

Máltíðir og/eða léttar veitingar og vínveitingar í veitingahúsinu Kaffi Vínil sem stendur við Tröllafossa þar sem má sjá hina brosandi tröllkonu Drífu sem er aðalsögupersóna sögunnar Tryggðatröll. Á boðstólnum er fjölbreyttur matseðill gómsætra rétta fyrir einstaklinga og hópa.

Í anddyri veitingahússins er að finna móttöku fyrir allt svæðið auk afgreiðslu fyrir kaffihúsaveitingar, kökur, kaldar samlokur, ís, pylsur, gos ofl. Þar er nettengd tölva og þráðlaust netsamband, miðlun upplýsinga, útlán leiktækja og ýmis önnur þjónusta við gesti Fossatúns.

Góð funda- og ráðstefnuaðstaða.

Matargestum á Kaffi Vínil stendur til boða að horfa á sýninguna Hljómfagra Ísland, en í henni er íslensk tónlist og íslenskar náttúrumyndir settar saman af einstakri natni og smekkvísi og það verður skiljanlegt hvers vegna tónlist og náttúra eiga sér bústað hlið við hlið í íslenskri þjóðarsál. Í veitingahúsinu er til sýnis stórt og fjölbreytt safn af vínilplötum sem gestum er velkomið að skoða og hlusta á.

Ókeypis þráðlaust netsamband í öllum rýmum.

Afþreying

Góð afþreyingar- og leikaðstaða fyrir börn, unglinga og fullorðna og skemmtilegar gönguleiðir. 

Tröllagarðurinn

Staðahaldarinn, Steinar Berg, hefur sérhæft sig í skrifum tröllasagna, sem myndskreyttar eru af Brian Pilkington. Tröllagangan er gönguleið sem liðast upp Stekkjarás, meðfram bökkum Grímsár og til baka að veitingahúsinu. Hægt er að fara stuttan hring, 10-15 mín með viðdvöl á nokkrum stöðum, eða stærri hring í 30-60 mín. Gestum gefst kostur á að skoða sögusvið tröllasagna, myndir og styttur af tröllum, fræðast nánar um þátt þeirra í þjóðsögunum, kynnast örnefnum, læra að umgangast tröll og losna við allar áhyggjur vegna þeirra! Rúsínan í pylsuendanum er svo að fara í tröllaleiki og keppa í tröllaþrautum, t.d. tröllataki, tröllatogi, tröllasparki, tröllaorðum, tröllafeti, tröllaparís o.fl.

Hestaferðir fyrir fólk á öllum aldri á Ölvaldsstöðum skammt frá Borgarnesi (17 km). 9 holu golfvöllur í Nesi í Reykholtsdal (7 km) og 18 holu golfvöllur, Hamarsvöllur, hjá Borgarnesi. Næsta sundlaug á Kleppjárnsreykjum (5 km) og Krauma er í 14 km fjarlægð. Næsta þéttbýli er Borgarnes þar sem eru matsölu- og veitingastaðir, verslanir, söfn, sundlaug og ýmis önnur þjónusta við ferðafólk.

Gestgjafar: Steinar Berg og Ingibjörg

 

í nágrenni