SjálfbærnistefnaSjálfbærnistefna Ferðaþjónustu bænda hf.

 
Ferðaþjónusta bænda hf. er ferðaskrifstofa sem leggur áherslu á náttúru- og menningartengda ferðaþjónustu.  Hún sérhæfir sig annars vegar innanlands í kynningu, markaðssetningu og sölu á gistingu og afþreyingu hjá íslenskum ferðaþjónustubændum um allt land og hins vegar innihaldsríkar pakkaferðir með íslenskri fararstjórn um allan heim, þar sem farþegar njóta góðs félagsskapar og kynnast menningu og náttúru merkra áfangastaða.  

Í samvinnu við Félag ferðaþjónustubænda ætlar ferðaskrifstofan að vera í fararbroddi í sjálfbærri ferðaþjónustu hér á landi.  Þessi stefna og framkvæmd hennar í daglegum rekstri fyrirtækjanna verður eitt mikilvægasta gæðatákn framtíðar í ferðamálum.
 
Með sjálfbæra ferðaþjónustu að leiðarljósi mun ferðaskrifstofan leggja sitt af mörkum til að draga úr neikvæðum áhrifum greinarinnar á umhverfið.  Jafnframt að stuðla að verndun náttúrunnar og vekja athygli á þeirri menningu sem blómstrar á hverjum stað.
 
                                    ________________________

 
Stjórn og starfsfólk Ferðaþjónustu bænda hf mun því: 

  • vinna árlega að úrbótum sem stuðla að minni mengun og verðmætasóun t.d. með endurnýtingu, endurvinnslu, orkusparnaði og notkun á umhverfisvænum efnum,
  • velja frekar vörur og þjónustu sem koma úr heimabyggð og sem lágmarka neikvæð umhverfisáhrif, þar sem því verður viðkomið,
  • hafa sjálfbærnistefnuna sýnilega almenningi og almennt hvetja til þátttöku í að vernda umhverfið með okkur m.a. með þátttöku í verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta.
  • leita eftir frekari fræðslu um umhverfismál og koma þeim upplýsingum áfram til starfsfólks og félagsmanna,
  • stuðla að dreifingu ferðamanna í tíma og rúmi við skipulagningu ferða þar sem við á,
  • stuðla að verndun menningar- og náttúruminja,
  • ráða til starfa fólk úr heimabyggð þegar tækifæri gefst til þess,
  • uppfylla ákvæði laga og reglugerða sem tengjast starfseminni,
  • endurskoða sjálfbærnistefnuna fyrirtækisins árlega með þátttöku í gæða- og umhverfiskerfi Vakans.

 
Sævar Skaptason
Framkvæmdastjóri
Síðast uppfært í nóv. 2021

Ferðaþjónusta bænda hf. hefur frá mars 2002 unnið samkvæmt stefnu um sjálfbæra ferðaþjónustu sem er í samræmi við ábyrga ferðaþjónustu.