Hey! Hvað ætlar þú að gera í sumar?Hey! Hvað ætlar þú að gera í sumar?

13.05.2020 | Bryndís Ýr Pétursdóttir

Með hækkandi sól og lengri og bjartari kvöldstundum kviknar löngunin til að komast út í náttúruna, ganga á nærliggjandi fjöll, finna ilminn af nýsprottnu grasi, brumi hvers kyns plantna og fylgjast með skoppandi lömbum úti á túni. Ferðamannastraumur til landsins á vorin hefur aukist frá ári til árs, enda íslenska vorið dásamlegt og færir landanum svo sannarlega orku eftir langa og stranga vetrarmánuði.

Við höfum tekið saman nokkra afþreyingarmöguleika sem eru skemmtileg blanda ævintýra og einstakra upplifana í náttúru Íslands! Höfum það gaman saman um land allt á þessum skemmtilega árstíma!

Komdu í hvalaskoðun!

Hefur þú farið í hvalaskoðun? Ef ekki, þá er aldeilis tími til kominn! Ísland hefur orðið einn aðal áfangastaður Evrópu til hvalaskoðunar og ekki að ástæðulausu; við strendur Íslands þrífast yfir 20 tegundir hvala! Algengastar eru hrefnur, hnísur, hnúfubakar og síðast en ekki síst leikglaðir höfrungar. Einnig sjást stundum steypireyðar, stærstu dýr jarðar! Á vorin er líka góður tími til að sjá lunda við strendur Íslands og er hvala- og lundaskoðun frábær samsetning. Þegar börn eru með í för er frábært að fylgjast með eftirvæntingu og gleði þeirra þegar hvalirnir láta sjá sig. Þetta er því skemmtileg upplifun og samvera fyrir fjölskyldur, vinahópa og allt áhugafólk um hvali og fugla. Sjóferð sem þessi lætur engan ósnortinn.

Hvalaskoðunarferðir eru alla jafna starfræktar allan ársins hring, en háannatími er þó frá apríl og fram í október. Hægt er að fara í hvalaskoðun frá ýmsum stöðum um landið og hér fyrir neðan eru nokkrir staðir nefndir:

Norðurland
Húsavík hefur stundum verið kölluð höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi en í bænum hefur Norðursigling boðið upp á hvalaskoðunarferðir í 25 ár. Boðið er upp á fjölbreyttar ferðir dag hvern þar sem bæði hvalir og lundar koma við sögu. Eins er hægt að fara í hvalaskoðunarferðir frá Akureyri, Hjalteyri, Hauganesi og Dalvík í Eyjafirði. Á ferðalagi um landið norðanvert er því óhætt að mæla með hvalaskoðunarferð.

Reykjavík
Fyrir þá sem eiga leið í höfuðborgina eða eru búsettir á Stór-Reykjavíkursvæðinu er tilvalið að fara í hvalaskoðun með brottför við höfnina í Reykjavík. Það er skemmtilegt að njóta sjóferðarinnar með fjölskyldu eða vinum, hvort heldur í hvala- eða lundaskoðun. Frábær afþreying í alla staði! Sjóferð nú á vordögum er bæði róandi og spennandi um leið.

Snæfellsnes
Hvergi í heiminum eru betri aðstæður til að sjá búrhvali og háhyrninga en við strendur Snæfellsness! Vorið er talið góður tími til að sjá karlkyns búrhvali, eða frá apríl út júní. Sama á við um háhyrninga, en líkurnar minnka eitthvað þegar líður á sumarið, þó vissulega séu líkur á að sjá þessi mikilfenglegu dýr út sumarmánuðina. Stórkostleg upplifun sem lætur engan ósnortinn!

Vestfirðir
Eftirminnileg hvalaskoðunarferð er í boði yfir sumartímann með brottför frá Hólmavík og möguleiki á að sjá hnúfubaka, hrefnur og höfrunga. Siglt er yfir afskekktan fjörð í óspilltu landslagi á meðal fjörugra hnúfubaka sem koma að ströndum Íslands eftir 7000 km ferðalag frá Mexíkóflóa. Við Íslandsstrendur eyða þeir sumrinu til að nærast.

 
Fossar

Íslensku fossarnir eru stórkostleg sköpun náttúrunnar og eru þeir mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn allan ársins hring. Það er eitthvað dáleiðandi við það að standa fyrir framan foss sem hendist fram af klettabrún af miklum krafti. Á vorin eru fossarnir einkar kraftmiklir vegna bráðnunar snjós og íss og því einstaklega gaman að sjá þá á þessum árstíma. Sama hvert farið er, undantekningalaust er foss að finna. Vittu til! Hér má nefna nokkra fossa sem þið hafið kannski ekki séð enn með berum augum eða gaman væri að heimsækja aftur:

  • Seljalandsfoss er 60 m hár foss, rétt um 20 km austur af Hvolsvelli. Hægt er að ganga í kringum Seljalandsfoss sem þykir mikið ævintýri fyrir fólk á öllum aldri.
  • Gljúfrabúi eða Gljúfurárfoss er staðsettur rétt tæpan kílómetra norðan við Seljalandsfoss, en til að komast alveg að honum þarf að ganga (vaða) inn gljúfrið eða ganga upp á klettanefið fyrir framan hann, en það er nokkuð bratt.
  • Skógafoss er einn stærsti foss Íslands og einstaklega fagur. Hann er staðsettur við suðurströndina, steinsnar frá hringveginum. Ferðamenn eru vanir að flykkjast að fossinum til að berja hann augum og smella af sér mynd með hann í bakgrunn.
  • Dettifoss, aflmesti foss Íslands og annar aflmesti í Evrópu, er 45 m hár og rúmlega 100 m breiður! Hann er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði í Jökulsárgljúfrum á Norðausturlandi og einstaklega stórfenglegur og áhrifamikill. Hægt er að komast að honum frá hringveginum, vestan megin árinnar. 

Við mælum eindregið með því að allir hlaði niður Wapp gönguferðaappinu og nýti á ferði sinni um landið. Þar er að finna upplýsingar um rúmlega 300 gönguleiðir um allt land. Þar er meðal annars hægt að finna margar spennandi og skemmtilegar fossagöngur.

 
Snorkl í Silfru

Ertu ævintýramanneskja? Að fljóta um í einu tærasta vatni í heimi er ótrúleg upplifun. Vatnið er svo tært að skyggnið er um 100 metrar á sumum svæðum. Silfra liggur á milli tveggja jarðfleka, Norður-Ameríkuflekans annars vegar og Evrasíuflekans hins vegar. Því er snorklað á milli tveggja heimsálfa en það er hvergi annars staðar í heiminum mögulegt! Hægt er að snorkla allt árið um kring en óhætt er að mæla með vorferð í Silfru þegar birtan er allsráðandi og veðrið hefur mildast nokkuð.

 
Lömbin í sveitinni

Íslenska sveitin verður krúttlegri á vorin þegar lömbin fæðast. Tímabilið hefst í lok apríl og bændur vakta sauðféð allan sólarhringinn, en stundum þurfa kindurnar á aðstoð að halda þegar þær bera. Sumir Hey ferðaþjónustubæir bjóða gestum í heimsóknir á þessum skemmtilega tíma árs og er það einstök upplifun fyrir yngri kynslóðina að fá jafnvel að taka lítið lamb í fangið! Í þessu sambandi má nefna Bjarteyjarsand í Hvalfirði sem bjóða upp á lambaknús og Stóru-Ásgeirsá í Víðidal í Húnaþingi þar sem hægt er að kynnast daglegu lífi íslenskra bænda og komast í snertingu við íslensku húsdýrin. Það er einstaklega auðvelt að fá sér bíltúr yfir í nærliggjandi sveitir, anda að sér íslenska sveitaloftinu og fylgjast með þessu nýja, litla lífi. Vorið færir okkur þessa einstöku tilfinningu sem við sem búum hér þekkjum svo vel. Gleðin sem hækkandi sól gefur okkur, færir vegir um nánast allar trissur – og litlu lömbin og sums staðar kiðlingar hoppandi um túnin.

 
Sólarlag að vori

Himininn á þessum árstíma er einstaklega fagur! Við höfum flestöll upplifað sólarlag að vori og litina sem fylgja. Lifandi litir fylla himininn og skapa sjónræna veislu svo klukkustundum skiptir. Kvöldganga með fjölskyldu og vinum, að anda að sér íslenska vorinu og fylgjast með litapallettu himinsins er gulls í gildi. Hér eru hæg heimatökin og ekki nauðsynlegt að ferðast langar leiðir til þessarar iðju.

 
Íslenski hesturinn

Lengri og styttri hestaferðir hafa staðið til boða í áraraðir um land allt, bæði fyrir vana og óvana knapa. Frábær tómstundaiðja fyrir alla aldurshópa og hentar bæði fyrir stærri og minni hópa, vini, samstarfsfólk eða fjölskyldur. Að njóta náttúrunnar á hestbaki í góðra vina hópi er einstakt.

Nokkrir Hey-félagar bjóða upp á slíkar ferðir og má þar nefna Hestaland – Staðarhúsum, SkjaldarvíkÓbyggðasetrið, Skorrahesta, Stóru-Ásgeirsá og Heydal. Ýmsar aðrar hestaferðir er að finna undir afþreyingarhlutanum á heimasíðu Hey Ísland.

Hestaferð á Íslandi - Íslenski hesturinn

 
Hellaskoðun

Á Íslandi eru mýmargir hellar af öllum stærðum og gerðum. Sumir hverjir eru eingöngu aðgengilegir yfir vetrartímann, en þónokkra er hægt að skoða á vorin og sumrin. Erlendum ferðamönnum þykir mikið til hella á Íslandi koma og skoða stundum fleiri en einn á ferðalagi um landið. Þetta er ævintýri sem óhætt er að mæla með fyrir fjölskyldur og vinahópa og því ekkert til fyrirstöðu að setja á sig hjálminn, taka sér vasaljós í hönd og halda í hellaskoðun.

  • Hinn margrómaði Raufarhólshellir er einn lengsti og þekktasti hraunhellir Íslands. Hellirinn er aðeins í um hálftíma akstursfjarlægð frá Reykjavík og auðvelt að komast að honum allan ársins hring. Gengin er sú leið sem hraunið rann fyrir um 5200 árum við Leitahraungosið sem skildi eftir sig stórfengleg 1,3 kílómetra löng göng með stórum kvikuhólfum. Boðið er upp á hefðbundna ferð í þann hluta hellisins sem er flestum fær og leiðangurinn tekur um eina klukkustund.
  • Vatnshellir á Snæfellsnesi er hraunhellir í suðurhlíðum Purkhólahrauns og er hann talinn vera um 5-8000 ára gamall. Hann er um 200 m langur og þar er hátt til lofts og vítt til veggja. Hægt er að fara í klukkustunda ferðir um hellinn með leiðsögn allt árið um kring.
  • Víðgelmir er stærstur allra hella á Íslandi og einn sá stærsti í heiminum. Hann er að finna í Hallmundarhrauni, en hann myndaðist fyrir um 1100 árum síðan í kjölfar eldgoss undir Langjökli. Víðgelmir er 1,6 km að lengd og er einstaklega litríkur og er m.a. að sjá djúprauðan og fjólubláan lit og stórfenglegar hraunmyndanir. Frábær upplifun fyrir unga sem aldna, þökk sé þægilegum göngustígum og góðri en fínlegri lýsingu. Daglegar brottfarir allt árið.

 
Kajak-ævintýri við Kirkjufell

Snæfellsnes býður upp á mikla möguleika til útivistar. Einn þeirra er kajak-róður við Kirkjufell í Grundarfirði sem er líklega mest myndaða fjall Íslands. Að róa í lygnum sjó á meðal sjófugla og forvitinna sela, njóta kyrrðarinnar og útsýnisins er ævintýri líkast! Hægt er að sameina slíka ferð sjóstangaveiði sem hefur orðið æ vinsælla. Einnig er boðið upp á miðnæturferðir og er engu líkt að horfa á miðnætursólina dansa á sjóndeildarhringnum.

 
Snjósleðaferðir

Þrátt fyrir að hafa beðið lengi eftir vorinu og glaðst sérlega yfir fyrstu grænu túnunum og ilminum af nýslegnu grasi, er enn hægt að njóta þess að keyra um á snjósleða uppi á jökli. Snjósleðaferð á Vatnajökli er frábær skemmtun og mikið ævintýri fyrir fjölskyldur, vina- og starfsmannahópa. Á leiðinni fæst notið magnað útsýni yfir djúpa dali, há fjöll og jökulinn sjálfan. Ótrúleg upplifun! Slíkar ferðir eru í boði frá mars og fram í október. Farið er með stórum jeppum frá þjóðvegi 1, um 25 km austur af Jökulsárlóni.

Hey Ísland byggir á yfir 35 ára reynslu og þekkingu á ferðaþjónustu á landsbyggðinni sem gerir okkur kleift að bjóða upp á fjölbreytt úrval af gistingu um land allt og afþreyingu við allra hæfi í návist við náttúruna og friðsælu umhverfi sveitarinnar.

í nágrenni