Gistiheimilið HvítáGistiheimilið Hvítá

Reisulegt gistiheimili í sveit, í bæjaþyrpingunni á Hvítárbakka, miðsvæðis í Borgarfjarðarhéraði á vestanverðu Íslandi, um 75 mín. akstur frá Reykjavík. Herbergi með sameiginlegu baði. Veitingaaðstaða. Húsið er skammt frá bökkum jökulárinnar Hvítár með útsýni til allra átta. Góð staðsetning til skoðunarferða um Borgarfjörð, útivistar og afþreyingar.

Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:16.500 kr.
hver dvöl
Senda fyrirspurn

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Fjölskylduherbergi 3+
  • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
  • Golfvöllur í nágrenni

Gistiaðstaða

10x2 manna herbergi með sameiginlegu baði. Á efstu hæð eru 8 herbergi, sem deila 2 snyrtingum (2 salerni, 2 vaskar og 1 sturta), og á miðhæð eru 2 herbergi og snyrting með sturtu og baðkari. Á miðhæðinni er matsalur ásamt björtum sólskála. Rúmgóð verönd fyrir utan sólskálann.

Á neðstu hæðinni er 40m2 gistieining sem hentar vel fjölskyldu og/eða allt að 5 manna hópi (íbúð í flokki C). Sérinngangur er í gistieininguna sem samanstendur af einu svefnherbergi, svefnkróki m/ þremur rúmum, eldunaraðstöðu og stofu. Baðherbergi er frammi á gangi.

 
Veitingar/máltíðir

Morgunverður er innifalinn í gistiverði á herbergjum. Kvöldverður, sem panta verður fyrirfram, er borinn fram kl. 18:30-21:00 yfir sumartímann. Vínveitingar.

 
Þjónusta/afþreying

Tröllagarðurinn í Fossatúni (7 km), skemmtilegt leiksvæði fyrir fólk á öllum aldri, tröllagolf, tröllablak, tröllaparís og ótal margt fleira. Í Fossatúni er einnig veitingastaður/kaffihús. Hestaferðir frá Ölvaldsstöðum, skammt frá Borgarnesi (22 km). Gönguleiðir. Geitasetrið á Háafelli í Hvítársíðu (28 km). 9 holu golfvöllur hjá Nesi í Reykholtsdal, skammt frá Reykholti (18 km), og 18 holu golfvöllur, Hamarsvöllur, skammt frá Borgarnesi (32 km). Næsta sundlaug á Kleppjárnsreykjum (14 km). Næsta þéttbýli með verslunum, veitinga- og matsölustöðum, sundlaug og almennri þjónustu fyrir ferðamenn: Borgarnes (25 km).

 
Borgarfjörður – töfrandi staður til útivistar og náttúruskoðunar

Borgarfjörður, nær mitt á milli höfuðborgarsvæðisins og Snæfellsness á vestanverðu Íslandi, er víðlent og söguríkt hérað. Landslag er fjölbreytt, allt frá ströndum inn til dala, heiða og jökla. Margar kunnar náttúruperlur eru í Borgarfirði og frá Hvítárbakka er ekki langt að fara til sjá margt af því sem laðar til sín innlenda og erlenda ferðamenn og náttúruunnendur. Auk þess bjóðast í héraðinu fjölmargir möguleikar til útivistar og afþreyingar, hestaferðir, gönguferðir, hjólaferðir, veiði í vötnum, ferðir upp á Langjökul og hellaskoðunarferðir. Til þjóðgarðsins undir Snæfellsjökli, yst á Snæfellsnesi, eru 138 km frá Hvítárbakka.

 
Deildartunguhver, Hraunfossar, Húsafell, Víðgelmir

Vatnsmesti hver í Evrópu, Deildartunguhver, er neðst í Reykholtsdal (16 km frá Hvítárbakka). Þar er góð aðstaða til þess að skoða þetta einstæða náttúrufyrirbæri. Frá Deildartunguhver eru 35 km að hinum nafnkunnu Hraunfossum (35 km), einstæðri listasmíð náttúrunnar. Frá Hraunfossum eru svo 8 km að Húsafelli, vinsælli útivistarperlu þar sem eru yndislegar gönguleiðir, sundlaug, golfvöllur og þjónustumið¬stöð fyrir ferðamenn. Frá bænum Fljótstungu (12 km frá Húsafelli) eru í boði á sumrin daglegar klukkustundarferðir í stærsta hraunhelli á Íslandi, Víðgelmi. Héðan sér til Langjökuls og þangað upp er hægt að bregða sér í skipulegum ferðum í boði nokkurra ferðaþjónustuaðila.

 
Í fótspor víkinga, skálda og höfðingja

Borgarfjörður var frá landnámi vettvangur ýmissa stóratburða í sögu þjóðarinnar og frægra Íslendingasagna. Á Landsnámssetri í Borgar-nesi (25 km) er sýning um sögu landnáms Íslands á 9. og 10. öld og um sögu skáldsins og víkingsins Egils Skallgrímssonar. Snorri Sturluson, sá rithöfundur Íslendinga sem náð hefur mestri heimsfrægð, bjó í Reykholti í Reykholtsdal á f.hl. 13. aldar. Í Reykholti (20 km) er Snorrastofa, menningar- og miðaldasetur til minningar um Snorra. Þar er einnig heit laug, kennd við Snorra sem var veginn í Reykholti árið 1241.

 
Gestgjafar: Ólafur og Sigrún

 

í nágrenni