Gistiaðstaða
Ensku húsin: Veiðihús breskra veiðimanna sem reist var árið 1884 og hefur verið endurbyggt í upprunalegum stíl á undanförnum árum. Á efri hæð aðalhúss, sem er nánast óbreytt frá árinu 1884, eru 3 herbergi með sameiginlegu baði. Í viðbyggingu austan megin við aðalhús er svefnálma með 6 herbergjum með baði og 2 herbergjum með sameiginlegu baði. Á neðri hæð aðalhúss eru borðstofur en setustofa er í viðbyggingu vestan megin við aðalhús.
Lambalækur: Íbúðarhús, reist árið 1894 á öðrum bæ í sveitinni, og flutt í nágrenni Ensku húsanna (1 km) og endurgert í upprunalegt horf árið 2004. Á neðri hæð er forstofa, gangur, eldhús, stofa, þvottahús og geymsla, og 2 herbergi með sameiginlegu baðherbergi. Á efri hæð eru 2 herbergi með sameiginlegu baðherbergi.
Þjónusta
Morgunverður er í boði allt árið. Vínveitingar. Góð aðstaða til veislu- og fundarhalda fyrir smærri hópa. Eldunaraðstaða er fyrir gesti sem dveljast á Lambalæk. Yfir vetrartímann er ágætt úrval veitingastaða í Borgarnesi og má þar m.a. nefna Landnámssetur Íslands sem er í 10 km fjarlægð frá Ensku húsunum.
Ókeypis þráðlaust netsamband er í öllum húsunum. Þvottaaðstaða.
Gæða- og umhverfisvottun
Ensku Húsin er þátttakandi í Vakanum sem er opinbert gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki. Nánari upplýsingar um Vakann.
Afþreying
Gönguleiðir meðfram Langá, inn til landsins eða niður til sjávar, og víða í héraðinu upp af Borgarfirði eða á Snæfellsnesi. Dagsferðir um Borgarfjarðarhérað eða vestur á Snæfellsnes. 18 holu golfvöllur, Hamarsvöllur, hjá Borgarnesi (6 km). Áhugaverð söfn í Borgarnesi. Hestaleiga á Ölvaldsstöðum (15 km) og Hestalandi á Staðarhúsum. Næsta þéttbýli með sundlaug, verslunum, veitingastöðum og ýmissi þjónustu við ferðamenn er Borgarnes.
Fossaniður, fuglalíf, einstæð strandlengja
Í Langá, einni af kunnustu laxveiðiám á Íslandi, eru nokkrir skoðunarverðir fossar. Sjávarfoss er við hlið Ensku húsanna og Skuggafoss í um 5 mín. fjarlægð. Um 15 mín. gangur er upp að Kattafossgljúfrum og um 30 mín. gangur að klettastapanum Glanna. Ósasvæði Langár er friðlýst vegna auðugs fuglalífs og sérstæðrar náttúru. Strandlengjan, með eyjar sínar og sker, frá Langárósi að Löngufjörum, er einstæð á Íslandi og sjóndeildarhringurinn hrífandi, hvort sem er að sumri eða vetri.
Náttúra og saga í Borgarfirði
Ensku húsin henta vel sem dvalarstaður fyrir fólk sem ætlar að skoða sig um í Borgarfirði. Margir kunnir staðir eru í héraðinu og má þar nefna t.d. vatnsmesta hver í Evrópu, Deildartunguhver (42 km), Hraunfossa (63 km), Húsafell (65 km), sögustaðinn og miðaldasetrið Reykholt (48 km) og gjallgíginn Grábrók (38 km). Í Landsnámsetrinu í Borgarnesi er föst sýning um landnám Íslands á 9. og 10. öld og um skáldið og víkinginn Egil Skallagrímsson sem fæddist, ólst upp og bjó lengst af á þessum slóðum við Borgarfjörð.
Hítardalur, Eldborg, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull
Frá Ensku húsunum við Langá er um 28 km akstur inn í Hítardal, ofan við flatlenda sveitina, Mýrar. Þar er yndislegt að vera í faðmi fjalla og setja á sig gönguskó og njóta kyrrðar og ósnortinnar náttúru. Að Eldborg, formfegursta gíg á Íslandi, eru 30 km; ekið að bænum Snorrastöðum þaðan sem er gönguleið að gígnum. Út með suðurströnd Snæfellsness eru 110 km frá Ensku húsunum að Arnarstapa og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.
Gestgjafar: Anna og Hjörleifur