Gistiaðstaða
Á landi hótelsins var áður fyrr bóndabær og í dag eru herbergin í byggingu sem var áður hlaða. Í boði eru 15 herbergi, öll með sérinngangi og sérbaðherbergi, sum á jarðhæð og önnur á annarri hæð. Í sérhúsi við hliðina á aðalbyggingunni eru nokkur herbergi með sameiginlegu baðherbergi og eldunaraðstöðu.
Þjónusta
Á hótelinu er ágætur veitingasalur, þar sem áður var fjós. Fjölbreyttur morgunverður. Heit súpa í hádeginu og kaffi og meðlæti á daginn. Á kvöldin er í boði þriggja rétta matseðill dagsins, fisk- eða kjötréttir og grænmetisréttir.
Ókeypis þráðlaust netsamband í móttökunni og veitingasalnum en ekki á herbergjum.
Á Húsafelli (10 km) er lítil verslun þar sem hægt er að fá helstu nauðsynjavörur á sumrin.
Afþreying
Á Húsafelli er sundlaug, veitingastaður og leiksvæði fyrir börn. Önnur sundlaug er á Kleppjárnsreykjum (22 km). Á Húsafelli (19 km) er 9 holu golfvöllur. Næsta þéttbýli er Borgarnes (56 km). Þar eru verslanir og öll almenn þjónusta í boði, sundlaug og byggðasafn. Í Landnámssetri í Borgarnesi má kynnast sögu landnáms norrænna manna fyrir 1100 árum á lifandi og skemmtilegan hátt.
Kunnar náttúruperlur og útvistarsvæði
Land er fagurt og fjölbreytilegt í grennd við Hótel Á og stutt að aka á slóðir sem heilla útvistar- og göngufólk. Skammt frá hótelinu er ein kunnasta náttúruperla á Íslandi, Hraunfossar, og rétt ofan við þá er Barnafoss í Hvítá. Nokkru innar í sveitinni (6 km) er Húsafell, fjölsóttur áningarstaður innlendra og erlendra ferðamanna, fallegt svæði með ótal gönguleiðum og margs konar afþreyingu og þjónustu fyrir ferðafólk.
Ævintýri á jökli og í hraunhellum
Langjökull, annar stærsti jökull á Íslandi, er í um hálfrar klukkustundar akstursfjarlægð frá Hótel Á. Á sumrin eru í boði ferðir á jökulinn í sérútbúnum jeppum. Lengsti hraunhellir á Íslandi, Surtshellir, 1.310 m langur, er í um 24 km akstursfjarlægð frá Hótel Á. Annar hellir í nágrenninu er Víðgelmir, stærstur allra hella á Íslandi og einn stærsti hraunhellir í heimi. Hann er friðaður og innganga einungis heimil með leiðsögn (skipulagðar hellisferðir á sumrin hjá ferðaþjónustunni í Fljótstungu).
Fjölbreyttir möguleikar til skoðunarferða
Borgarfjörður er víðlent hérað og þar er mikið um áhugaverða og fallega staði. Reykholt (15 km) er einn merkasti sögustaður á Íslandi. Þar er Snorrastofa, menningar- og miðaldasetur til minningar um einn frægasta rithöfund Íslendinga fyrr og síðar, Snorra Sturluson. Skammt frá Reykholti er Deildartunguhver, vatnsmesti hver í Evrópu. Í Norðurárdal mynda hraun, klettaásar og fell einstaka umgjörð um frægustu laxveiðiá landsins.
Gestgjafar: Ragnar og Ármann