Bjarteyjarsandur í HvalfirðiBjarteyjarsandur í Hvalfirði

Gisting í vel útbúnu sumarhúsi við bæinn Bjarteyjarsand á norðurströnd Hvalfjarðar, í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Reykjavík. Á Bjarteyjarsandi eru sauðfjárbúskapur og ferðaþjónusta tvinnuð saman með ýmsum hætti með hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Lögð er áhersla á heimilislegt andrúmsloft. Fjölbreyttir útvistarmöguleikar. Merktar gönguleiðir. Húsdýr til sýnis.

Opið allt árið. Lágmarksdvöl 2 nætur í sumarhúsi. 

Veldu dagsetningar
Frá:15.500 kr.
hver nótt á herbergi
Senda fyrirspurn

Þjónusta

 • Bústaður
 • Hefðbundinn búskapur
 • Wi-Fi
 • Heitur pottur
 • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
 • Eldunaraðstaða
 • Sjónvarp inni á herbergjum
 • Hleðslustöð
 • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

 • Hlaðir 5 km - sundlaug
 • Fossinn Glymur
 • Akranes 23 km

Gistiaðstaða

Gisting í einu 5 manna sumarhúsi með tveimur svefnherbergjum (hjónaherbergi og kojuherbergi). Húsið er vel búið innandyra með eldunaraðstöðu, uppþvottavél, sjónvarpi og DVD-spilara. Heitur pottur er við húsið. Sjávarútsýni. Við bæinn er einnig gott tjaldstæði. Lágmarksdvöl í sumarhúsi eru 2 nætur.

 
Þjónusta

Máltíðir, aðrar en morgunverður, í boði ef pantað er fyrirfram. Matsalur og veitingastaður fyrir allt að 60 manns í Hlöðunni þar sem lögð er áhersla á rétti úr hráefni frá bænum, m.a. þurrkað og grafið ærkjöt, lífrænt ræktað lambakjöt, sveitakæfu, fíflahunang og haugarfapestó.

Gallerý Álfhóll: Listmunir og nytjamunir, unnir af fagurkerum í sveitinni, og afurðir beint frá býli, til sýnis og sölu í byggingu sem áður var súrheysgryfja. Jólamarkaður í desember.

Á bænum er rúmlega 600 kinda fjárbú, nokkrar landnámshænur, vistvæn svínarækt og holdakanínurækt. Gestum og gangandi er boðin leiðsögn um bæinn, útihúsin og nágrenni, þar sem þeir geta átt persónulegt samskipti við bændur og kynnt sér aðbúnað og umhirðu dýranna.
Börn fá tækifæri til að kynnast dýrunum og hafa leiksvæði til afnota. Í fjörunni er heillandi heimur fyrir börn og fullorðna þar sem má m.a. tína krækling frá september til apríl.

Gestir geta einnig tekið þátt í hefðbundnum verkum á sauðfjárbúi, t.d. smalamennsku, réttum og öðrum verkum, t.d. kræklingatínslu í fjörunni.
Upplýsingar um helstu gönguleiðir.

 
Afþreying

Í boði er leiðsögn um ákveðnar slóðir í fylgd manns sem er sérfróður um svæðið, menntaður í landfræði og umhverfisfræði.
Sundlaug á Hlöðum (5 km) er opin frá 1.6. til 31.8. Á Hlöðum er einnig Hernámssetrið, safn um sögu hernámsáranna og þá sérstaklega um flotastöð bandamanna í Hvalfirði. Í næsta nágrenni eru Hótel Glymur, veitingaskálinn Ferstikla (“diner“ og kaffihús), veiðivötn (veiðileyfi seld á bænum), golfvellir, fjórhjólaleiga og hestaleiga svo að eitthvað sé nefnt. Næsta þéttbýli er Akranes (23 km). Til Reykjavíkur eru 69 km um Hvalfjarðargöng og 75 km eftir þjóðvegi 47 um Hvalfjörð.

 
Ferðamannaslóðir – Hvalfjörður og Borgarfjörður

Hvalfjörður, 30 km langur, 4-5 km breiður og alldjúpur, gengur inn úr Faxaflóa á suðvestanverðu Íslandi. Við fjörðinn og í dölunum, sem ganga upp í fjöllin frá víkum og vogum, er mikil náttúrufegurð og þar má finna ógleymanlegar útivistarperlur og heillandi gönguleiðir. Skammt frá bænum liggur vegur 520, Dragavegur, í norður yfir í Skorradal (19 km), syðsta dalinn í Borgarfirði, héraði þar sem bíða ferðamannsins fjölmargir áhugaverðir staðir, kunnir fyrir náttúrufegurð og mikla sögu.

 
Styttri eða lengri gönguleiðir frá Bjarteyjarsandi

Sem dæmi um styttri gönguleiðir frá Bjarteyjarsandi má nefna ferð um Miðsand (þar sem var bækistöð Bandaríkjamanna í 2. heimsstyrjöld) og fjörugöngu og göngu um Botnsdal. Fyrir þá, sem vilja lengri og krefjandi gönguleiðir, má nefna gönguleið til þjóðgarðsins á Þingvöllum (um Leggjarbrjót) eða Síldarmannagötur yfir í Skorradal í Borgarfirði, næsta hérað fyrir norðan Hvalfjörð. Frá Bjarteyjarsandi eru 10 km í Botnsdal og þar er allöng ganga eftir fallegri en nokkuð brattri leið upp með gljúfrinu þar sem fellur niður næsthæsti foss á Íslandi, Glymur (198 m).

 
Gestgjafar: Kolbrún og Arnheiður

 

í nágrenni