Mínar einstöku jólakúlur!



Mínar einstöku jólakúlur!

20.12.2019 | Berglind Viktorsdóttir

Þegar líða fer að jólum þá leitar hugurinn ósjálfrátt aftur í tímann og upp koma ótal minningar. Minningarbankinn minn telur 50 ár og nú er enn eitt árið að safnast í bankann. Mörg ár renna saman en sum ár standa upp úr og árið í ár verður eitt af þeim. Við fengum óboðinn gest í heimsókn og þessi gestur að nafni Covid hefur reynst ansi fyrirferðarmikill og raskað okkar daglega lífi um heim allan. Á meðan við höfum ekki náð að loka hann alveg úti þá erum við á þeim stað að við þurfum að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum. Mælst er til þess að hver fjölskylda búi sér til eina litla og sæta jólakúlu í ár, ákveða hvaða ættingja við ætlum að umgangast um hátíðirnar og bíða með að hitta aðra þar til þessi óboðni gestur er horfinn af sjónarsviðinu.

Fjölskyldan
Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri Hey Ísland ásamt eiginmanni og sonum.

Við þekkjum eflaust flest söguna um hann Trölla sem stal jólunum. Við ætlum ekki að láta Covid stela jólunum okkar. Þess í stað ætlum við að gera jólahátíðina 2020 einstaka og búa til minningar sem við munum minnast með þakklæti og hlýhug í brjósti.

Jólahefðir eiga víða stóran sess á meðal fjölskyldna, en þær eru ekki meitlaðar í stein. Þær geta líka óhjákvæmilega breyst vegna ástvinamissis, annarra breytinga á fjölskylduhögum eða vegna fyrirbæris eins og Covid. Það getur líka komið sá tími að okkur langar að breyta til og gera eitthvað öðruvísi en venjulega. Þegar ég horfi tilbaka í minningarbankann minn þá eru það ekki síður undantekningarnar frá hefðinni sem eiga sérstakan sess í huga mínum. Mig langar til að deila með ykkur nokkrum af mínum jólakúlum sem eru mér allar verðmætar þó ólíkar séu.

Hey, hvað viltu gera næst?

 
Bernskuminningarnar og jólahefðirnar

Ég er alin upp við miklar jólahefðir og á mínum uppvaxtarárum kom fjölskyldan saman til að fagna jólunum; í laufabrauðsgerð, skötuveislu á Þorláksmessu, aðfangadagskvöld með rækjukokteilnum, svínakótilettunum, súrkálinu, eftirréttinum og jólapökkunum eftir uppvaskið, heitt súkkulaði og hátíðarmessa með mömmu á jóladag, hangikjötsveisla um kvöldið og síðan jólaboð til ættingja á annan í jólum og á gamlárskvöld.

Mamma var kletturinn okkar í eldhúsinu og sé ég hana ennþá fyrir mér undirbúa svínakótiletturnar á aðfangadagskvöld fyrir allt að 14 manns í mörg ár en í fjölmennustu veislunum bættust við yfir 10 manns. Öll þessi ár var ekki nein uppþvottavél á heimilinu sem kom þó ekki að sök, því að eftir sitja minningar um góðar samverustundir við uppvaskið. Pabbi var hrókur alls fagnaðar á aðfangadagskvöld þegar hann settist í stólinn sinn með jólasveinahúfuna og las á jólapakkana sem yngsta kynslóðin færði honum fram eftir kvöldi.

Fjölskyldumyndin
Hér er fjölskyldan samankomin, myndin var tekin síðustu jólin okkar saman á æskuheimilinu árið 2000.

 
Stresslaus jól í Þýskalandi

Það hafa margir lagt leið sína á jólamarkaði í Þýskalandi undanfarin ár enda ljúft að upplifa þá stemningu. Jólamarkaðirnir þar eiga langa hefð og fór ég á minn fyrsta jólamarkað í Munster þegar ég var Au-pair í Þýskalandi sama ár og Berlínarmúrinn féll árið 1989. Það ár tók ég þá ákvörðun að fara ekki heim til Íslands um jólin og þess í stað upplifa jólahátíðina með fjölskyldunni sem ég dvaldi hjá og eru enn vinir mínir í dag. Upp koma minningar um smákökubakstur, klassíska tónlist og 3ja metra hátt jólatré með lifandi kertum. Þar var lítið fyrirfram skipulagt og engar stórar hreingerningar á heimilinu eins og maður var vanur frá æskuheimilinu. Ég ákvað reyndar að skella mér í sparikjólinn kl. 18 á aðfangadagskvöld en ég hefði alveg eins getað verið í jogginggallanum. Þetta var dýrmæt reynsla og gerði mig síðar mun afslappaðri í jólaundirbúningnum þegar við hjónin vorum sjálf komin með börn. Það var enginn skaði skeður þó að heimilið væri ekki alveg „tipp topp“ þegar kirkjuklukkurnar hringdu inn jólin á aðfangadagskvöld.

Mettmann-niðurstaðan.jpg

Ég í sparikjólnum með systkinunum við 3ja metra hátt jólatré og lifandi kerti.

 
Vinnan kallar

Ég bjó í tvö ár úti í Noregi þar sem ég var m.a. í námi en samhliða því var ég að vinna á hjúkrunarheimili ásamt góðri vinkonu minni. Við ákváðum að spara okkur ferð til Íslands ein jólin og þess í stað að bjóða okkur fram í vinnu á aðfangadagskvöld. Gulrótin var síðan ferð til Marbella á Spáni þar sem við náðum að kveðja jólin þann 6. janúar. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég hef unnið á aðfangadagskvöld og var það sérstök tilfinning. Þetta minnir mann á þær ólíku fjölskylduaðstæður sem fólk býr við. Það geta ekki allir verið saman um jólin og svo eru það einstæðingarnir sem eiga engan að. Að borða góðan mat og njóta hátíðarstundar með sínum nánustu er ekki sjálfsagður hlutur.

Marbella og púrtvínið
Við vinkonurnar kvöddum jólin á þrettándanum með púrtvíni og eðalbakkelsi á Marbella, en á Spáni er þessi hátíðis- og fjölskyldudagur tileinkaður vitringunum þremur "Reyes Magos".

 
Áramót í íslenskri náttúru

Eitt árið, laus og liðug, fór ég ásamt systur minni, vinkonu og öðru góðu fólki með Útivist í Þórsmörk yfir áramótin. Að vakna í þessu umhverfi þegar jörðin er hvít og fara í göngutúra um þetta svæði er töfrum líkast. Kyndilganga að kvöldi, vasaljós, varðeldur og kvöldvaka. Ekkert flakk á milli partýja né langar biðraðir eftir leigubílum, þarna var bara verið að njóta líðandi stundar án utanaðkomandi truflunar.

Síðar, þegar ég var komin með mann og 2 unga drengi þá var kærkomið að njóta áramótanna í rólegheitum í sumarbústað. Notalegheit, góður matur og áramótaskaupið á sínum stað, ekkert stress. Yndislegt að fara út í myrkrið í kringum miðnætti og horfa upp í stjörnubjartan himinn og einstaka flugelda í fjarska.

Vetur í ÞórsmörkGönguferð í áramótaferð í Þórsmörk.

 
Litla jólakúlan á Spáni

Við ástvinamissi verður til tómarúm sem við þurfum að læra að lifa með, vera þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman og halda áfram að njóta líðandi stundar. Eftir að hafa kvatt mömmu fyrir síðustu jól var ég í fyrsta sinn eftir langan tíma tilbúin að fara erlendis og upplifa öðruvísi jól með drengjunum mínum (langt síðan minn maður var farinn að stinga upp á því). Spánn varð fyrir valinu með millilendingu í hinni fallegu Vínarborg, þar sem við lentum í úrhellisdembu en sáum þó fullt af fallegum jólaljósum. Það var svo í fyrsta sinn sem við fjölskyldan vorum á aðfangadag og dagana á eftir að njóta tilverunnar í Denia sem er einstaklega vinalegur og fallegur bær. Við fórum í hjólatúr upp í sveit, strákarnir skelltu sér í Gokart og á aðfangadagskvöld gerðum við vel við okkur og borðuðum á fínum veitingastað þar sem mikið var lagt upp úr því að skapa skemmtilega jólastemningu.

Í Denia voru jólaljós út um allt, bæði á aðalgötum og hinum ýmsu torgum sem við uppgötvuðum á rölti okkar um bæinn. Mér fannst nú skrítið að vera ekki með neitt jólaskraut í íbúðinni sem við vorum í en strákunum var alveg sama, við værum jú hvort sem er þarna bara í nokkra daga. Mér leið nú samt aðeins betur að hafa myndir af jólasveini á spilastokknum sem fylgdi okkur í þessari ferð. Á milli jóla- og nýárs fórum við til Valencia og áttum þar gæðastundir með spænskri vinafjölskyldu. Gamlárskvöld var síðasta kvöldið okkar fyrir heimferð og þá vorum við komin til Alicante, strákarnir skelltu sér í kaldan Miðjarðarhafssjóinn og kvöldverðurinn þennan síðasta dags ársins var Crepes og McDonalds.

Allir voru sáttir við þessa fyrstu jólahátíð í útlöndum og eru tilbúnir að endurtaka jól að heiman síðar.

Pálmatré á aðfangadagskvöld
Við leyfðum okkur þann lúxus að borða á fínum veitingastað á aðfangadagskvöld og vorum ekki svikin af því.


Einstök jólakúla - einstök upplifun

Með hverju ári fjölgar jólakúlunum, sumar breytast ekki mikið á milli ára, en aðrar eru allt öðruvísi. Eftir því sem árin líða, breytast hefðirnar og reglulega finnur maður fyrir söknuði fyrir því sem var. Í dag er ég þakklát fyrir allt það sem ég hef upplifað, hvort sem það snýst um að viðhalda hefðum, t.d. laufabrauðsbakstrinum eins og mamma kenndi okkur, eða með því að fara út fyrir hefðirnar og upplifa eitthvað nýtt með þeim sem eru í jólakúlunni með mér hverju sinni.

Eftir því sem jólakúlurnar eru fjölbreyttari, því fleiri verða minningarnar sem við söfnum í minningarbankann okkar um einstök jól.

laufabrauðin

Við höldum fast í arfleifðina frá mömmu. Þetta eru náttúrulega bestu laufabrauðin!  

Jólamarkaður .jpg

Heimsókn mín á jólamarkaðinn í Munster 1989 var sú fyrsta. Það er eitthvað svo heillandi við þessa jólastemningu sem skapast á þýskum jólamörkuðum, þannig að þær hafa orðið fleiri með Bændaferðum í gegnum árin.

Gleðilega jólahátíð!

Tags:

í nágrenni