Gistihúsið Langaholt á SnæfellsnesiGistihúsið Langaholt á Snæfellsnesi

Snæfellsjökull geislar frá sér dulmagni þar sem hann blasir við frá gistihúsinu Langaholti. Stutt er niður í gula sandfjöru þar sem fuglar njóta lífsins og einstaka selur kinkar kolli upp úr bárunni. Fjölbreytilegt landslag á Snæfellsnesi, mótað af eldvirkni og ágangi sjávar, myndar stórfenglega umgjörð um bjart og hlýlegt gistihús í sveit með vinsælum sjávarréttastað. Opið allt árið. 

Veldu dagsetningar
Frá:20.800 kr.
hver nótt á herbergi
Senda fyrirspurn

Þjónusta

 • Sér baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Wi-Fi
 • Veitingastaður
 • Vínveitingar
 • Máltíðir í boði
 • Aðstaða fyrir fatlaða
 • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

 • Sundlaug Lýsuhólslaug 6 km
 • Hestaleiga 6 km
 • Snæfellsjökull 
 • Arnarstapi 32 km
 • Ólafsvík 33 km

Gistiaðstaða

Í Langaholti hefur sama fjölskyldan tekið á móti ferðamönnum síðan 1978. Í gistihúsinu eru 20 herbergi, látlaus en hlýleg, með sérbaðherbergi með sturtu en fyrir sumarið 2017 verða 20 ný herbergi tekin í notkun til viðbótar þeim sem fyrir eru.  Flest herbergin eru með frábært útsýni til hafs og/eða til Snæfellsjökuls.  

Ath. vegna framkvæmda við byggingu nýrra herbergja getur fylgt ákveðið rask, en gestgjafarnir og starfsfólk Langaholt munu leggja sitt af mörkum til að draga sem mest úr því og stuðla enn frekar að ánægjulegri dvöl gesta.

Fyrir þá sem vilja gisti úti í náttúrnni, þá er einnig á Langaholti tjaldsvæði sem er á milli gistihússins og fjörunnar.

Veitingar

Ferskt sjávarfang af Snæfellsnesi er hráefnið í auðkennisréttum matreiðslumeistarans í eldhúsinu í Langaholti. Hefur veitingastaðurinn, sem hefur vínveitingaleyfi, getið sér gott orð fyrir ljúffenga fiskrétti og rétti úr öðru sjávarfangi. Öll brauð eru heimabökuð, sultur og marmelaði heimagerð og megnið af álegginu á morgunverðarborði. Sama má segja um súpur, sósur og eftirrétti. Veitingastaðurinn hefur náð að marka sér nokkra sérstöðu með skemmtilegri nálgun á staðbundið hráefni. Veitingastaðurinn er opinn daglega allt árið milli klukkan 12:00 og 21:00.

Þjónusta

Garðavöllur undir jökli er níu holu Golfvöllur við Langholt. Völlurinn er “Links“ völlur eða strandvöllur að hætti Skota en hann er allur á sandundirlagi sem gefur honum sinn sérstaka karakter. Völlurinn er par 35 og spila má á gulum og rauðum teigum.
Í gistihúsinu er ókeypis þráðlaus nettenging í sameiginlegu rými.

Afþreying

Fram undan gistihúsinu er gullin skeljasandsfjara þar sem börn og fullorðnir geta unað sér við leiki og jafnvel vaðið í sjónum á góðum sumardögum. Næsta sundlaug er á Lýsuhóli (6 km) og þar er einnig hestaleiga. Til næsta þéttbýlis, Ólafsvíkur, eru 33 km, falleg leið um heiðarlönd norður yfir nesið.

Snæfellsnes – paradís útivistarfólks

Eldur, ís og ógnarkraftur úhafsöldunnar hafa skapað ævintýraheim. Hraun hafa runnið í sjó fram og brimið tálgað kynjamyndir í stein. Hér gefast ótal tækifæri til náttúruskoðunar í léttum eða erfiðum gönguferðir með fram sjónum og upp til fjalla. Upp á sjálfan Snæfellsjökul eru í boði vélsleða- og snjókattaferðir á hverjum degi á sumrin.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Frá Langaholti er aðeins 45 km akstur að upplýsingamiðstöð þjóðgarðsins. Í friðlandinu eru fjölmargir skoðunarverðir staðir, vitni um sköpunarkraft náttúrunnar og harða lífsbaráttu fólks á fyrri öldum. Gönguferðir um þjóðgarðinn með leiðsögumönnum eru í boði á sumrin en öllum er frjálst að kanna þennan ævintýraheim á eigin vegum eftir merktum göngleiðum.

Hringferð um náttúruperlur

Hringferð frá Langaholti um Snæfellsnes er hæfileg dagsferð á bíl. Þá má t.d. aka í vestur og hafa viðdvöl fyrst í Arnarstapa, litlu þorpi í hrífandi náttúruumgjörð. Síðan er ekið fyrir nesið og haldið inn eftir norðurströndinni með fram Breiðafirði. Að lokum er ekið suður yfir nesið svonefnda Vatnaleið og aftur til baka að Langaholti.

Gestgjafi: Keli

 

í nágrenni