Skjaldarvík í EyjafirðiSkjaldarvík í Eyjafirði

Hlýlegt gistihús við ströndina innst í Eyjafirði aðeins 5 km frá „höfuðstað Norðurlands“, Akureyri. Heimilislegt andrúmsloft á fjölskylduvænum gististað og ýmislegt í boði til skemmtunar og útivistar fyrir unga sem aldna. Hér má slaka á í friði og ró og bregða sér þess á milli í líf og fjör „í bænum“ eða heimsækja áhugaverða staði í sveitunum við Eyjafjörð. 

Opið frá 1. maí til 15. september. Opið allt árið fyrir hópa. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Hefðbundinn búskapur
 • Wi-Fi
 • Heitur pottur
 • Vínveitingar
 • Eldunaraðstaða
 • Golfvöllur í nágrenni
 • Aðstaða fyrir fatlaða
 • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

 • Stuttar hestaferðir
 • Akureyri 5 km
 • Gásir 6 km
 • Hrísey
 • Hvalaskoðun
 • Sundlaug, golf og veitingastaðir á Dalvík og Akureyri
 • Skíðasvæði á Dalvík og Akureyri

Gistiaðstaða

Gisting í 28 rúmgóðum herbergjum með sameiginlegum baðherbergjum allt frá eins manns upp í 3ja manna herbergi eða fjölskylduherbergi (2ja manna herbergi auk svefnsófa sem hentar vel fyrir börn). Ókeypis þráðlaust netsamband. Gott aðgengi fyrir fatlaða er í öllu húsnæðinu. Notaleg setustofa og bar með sjónvarpi, bókum og spilum. Skemmtilegar, fallegar og öðruvísi skreytingar gleðja augu gesta, listunnir munir og notaðir hlutir. Heitur pottur er í bakgarðinum með útsýni yfir fjörðinn þar sem gott er að láta líða úr sér eftir daginn. Á lóðinni við gistihúsið er hlýlegur trjálundur þar sem gestir og gangandi geta tyllt sér niður með kaffibolla, morgunverðinn eða lagst í hengirúmið og látið sig dreyma.

 
Veitingar/máltíðir

Morgunverður er í boði og hafa gestir aðgang að eldhúsi til að elda kvöldverð. Hægt er að panta máltíðir fyrirfram fyrir hópa. Lögð er áhersla á gott hráefni og lífrænar afurðir úr heimabyggð. Heimabakað brauð og sultur má m.a. finna á morgunverðarhlaðborðinu.

  
Þjónusta/afþreying

Hestaleiga er starfrækt í Skjaldarvík allt árið um kring (lágmarksaldur 12 ára). Skemmtilegar reiðleiðir um fallegt umhverfi meðfram ströndinni eða um hálsa og hæðir ofan við bæinn. Buggy-ferðir eru í boði allt árið um kring þar sem farin er skemmtileg leið í nágrenni Skjaldarvíkur. Nauðsynlegt er að hafa gilt ökuskírteini til að aka Buggy-bílum. Á staðnum er verslun með úrvali af íslenskri vöru og hönnun. Leiksvæði fyrir börn. Hestar, hundur og landnámshænur. Næsta þéttbýli með verslunum, veitingastöðum, skemmtistöðum, söfnum, allri almennri þjónustu fyrir ferðamenn, sundlaug og 18 holu golfvelli (Jaðarsvöllur): Akureyri (5 km).

 
Svarfaðardalur – paradís fuglaáhugafólks

Eyjafjörður er áhugavert svæði fyrir ferðamenn og Skjaldarvík liggur vel við til skoðunarferða um héraðið. Í ökuferð í norður meðfram vesturströnd fjarðarins er t.d. Svarfaðardalur (33 km) mjög fallegt landsvæði, hlýlegur dalur girtur háum fjöllum. Í dalnum er friðlýst votlendissvæði, varpstaður um 40 fuglategunda þar sem er góð aðstaða til fuglaskoðunar.

 
Siglufjörður – „höfuðstaður síldveiðanna“

Frá fiskiþorpinu Dalvík í mynni Svarfaðardals er greið ökuleið (m.a. um jarðgöng) um hrikafagurt fjallendi og firði Tröllaskaga til Siglufjarðar (70 km), bæjar sem áður var „höfuðstaður síldveiða“ við Ísland en er nú vinsæll áfangastaður ferðamanna, m.a. vegna hins ágæta „Síldarminjasafns“.

 
Eyjafjarðarsveit – náttúruperlur við Mývatn

Héraðið inn af firðinum, Eyjafjarðarsveit, þykir mörgum vera ein hlýlegasta og búsældarlegasta sveit á Íslandi. Á hringferð um sveitina má staldra víða við og njóta náttúrunnar í skjóli tígulegra fjalla og alls annars sem íbúar héraðsins bjóða gestum sínum. Til hinnar víðkunnu náttúru¬perlu Mývatnssveitar, með stöðum eins og Dimmuborgum, Hverfjalli og Námaskarði, eru rétt rúmir 100 km frá Skjaldarvík.

Gestgjafar: Dísa og Óli

 

í nágrenni