Gistiaðstaða
Í gamla íbúðarhúsinu á Egilsstöðum, sem reist var árið 1940 og hefur verið enduruppgert og fært um leið í sitt upprunalega horf, eru 3x2 manna og 1x1 manns herbergi með sameiginlegu baði, setustofu og eldhúsi. Innréttingar og húsgögn eru í stíl og að smekk ábúenda á fimmta áratug síðustu aldar.
Í byggingu við hliðina á gamla íbúðarhúsinu hefur verið innréttað á efri hæð baðstofuloft í anda gömlu íslensku torfbæjanna. Þar er gistiaðstaða í nokkrum uppbúnum tvíbreiðum rúmum í sameiginlegu baðstofurými og í tveimur lokrekkjum. Sameiginleg baðherbergi. Inn af baðstofuloftinu –er „hreppstjórasvítan", 4 manna fjölskylduherbergi með sérbaði. Engu er líkara en að gestir hverfi aftur til aldamótanna 1900 þegar þeir ganga inn í baðstofuna og einstök upplifun að eiga hér næturstað við aðstæður sem minna á heimili betri efnaðra bænda á fyrri tíð.
Veitingar/matur
Veitingastaður. Lögð er áhersla á hráefni úr heimabyggð og á matargerðarlist sem byggir á íslenskum hefðum. Gestum stendur til boða að fylgjast með í eldhúsinu og ræða við húsfreyjuna á meðan hún eldar. Allt brauð og sætmeti er heimabakað. Morgunverður og aðrar máltíðir. Vínveitingar á staðnum.
Þjónusta og afþreying
Merktar gönguleiðir. Gönguferðir og hestaferðir með leiðsögn frá Óbyggðasetrinu. Vorið 2016 verða opnaðar sýningar utandyra og innan á Óbyggðasetrinu. Þær fjalla um líf í óbyggðum og um kjör og líf fólksins sem bjó á þessum slóðum. Safnasvæðið nær allt inn að eyðibýlinu Kleif (3 km frá bænum) og upp á fjallsbrún.
Menningarsetrið og sögustaðurinn Skriðuklaustur og Snæfellsstofa, upplýsingamiðstöð um eystri hluta Vatnajökulsþjóðgarðs (14 km). Hengifoss, næsthæsti foss á Íslandi (18 km). Hallormsstaður og Hallormsstaðaskógur/Atlavík með hestaleigu, reiðhjóla- og bátaleigu (27 km). Næsta þéttbýli með verslunum, veitingastöðum, góðri og vel búinni sundlaug, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og ýmissi annarri þjónustu: Egilsstaðir (52 km). Reglulegar áætlunarferðir í innanlandsflugi (flugtími 1 klst.) milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Til Seyðisfjarðar, þar sem ferjan Norræna leggur að bryggju, eru 80 km.
Öræfakyrrð, náttúrufegurð, svartamyrkur og norðurljós
Óbyggðasetrið er á Egilsstöðum, innsta bæ í byggð í Norðurdal sem er inn af Fljótsdal. Um dalinn fellur Jökulsá á Fljótsdal og er vel þess virði að ganga upp með henni, heimsækja eyðibýlið Kleif, fara yfir jökulsána á kláfferju og njóta þess að sjá hana falla í mörgum fossum niður af hálendissléttunni, Vesturöræfum, þar sem Snæfell ber við himin. Hér er um margt að velja fyrir göngumenn og útivistarfólk og ekki langt að fara til að njóta kyrrðar og víðáttu öræfanna.
Kárahnjúkavirkjun
Upplýsingamiðstöð Landsvirkjunar um Kárahnjúkavirkjun er í félagsheimilinu Végarði (12 km). Við Bessastaði, 4 km utar í dalnum, liggur vegur upp á Fljótsdalsheiði og að Kárahnjúkum; má reikna með að taki um klukkustund að aka frá upplýsingamiðstöðinni að útsýnispallinum í grennd við Desjarárstíflu. Þaðan má sjá mikilfenglegustu og um leið þau virkjunarmannvirki á Íslandi sem vakið hafa mestar deilur á meðal þjóðarinnar.
Hengifoss, Strútsfoss, Hallormsstaðaskógur
Að Hengifossi í Fljótsdal, næsthæsta fossi á Íslandi, eru um 18 km frá Öræfasetrinu. Áhugafólki um stórbrotna náttúru má einnig benda á Strútsfoss í Suðurdal (75 m hár) en frá bænum Sturluflöt (25 km) er þægileg 20 mín. gönguleið upp með ægifögru gilinu að fossinum. Hallormsstaðaskógur (27 km) hefur verið friðaður síðan árið 1905 og er nú talinn stærstur skóga á Íslandi, um 740 ha. Í skóginum eru um 40 km af gönguslóðum og mikið af merktum gönguleiðum. Á Hallormsstað er fjölskylduvænt trjásafn með yfir 70 trjátegundum og auk þess eru þar leiktæki fyrir börn og góð grillsvæði. Einnig má mæla með gönguferð um Ranaskóg, innan við svonefnt Gilsárgil (22 km), en hann er talinn einn fegursti og vöxtuglegasti skógur landsins.
Gestgjafar: Arna Björk og Denni