Óbyggðasetur Íslands



Óbyggðasetur Íslands

Einstök gistiupplifun og ævintýraferð aftur til gamla tímans í bóndabæ frá miðri 20. öld og í fallegri baðsstofu, hjónahúsi og í uppgerðu íbúðarhúsi frá 1940 á Egilsstöðum í Norðurdal í Fljótsdal. Staðsetning bæjarins er einstök en hann er innsti bærinn í dalnum og stendur við jaðar Vesturöræfa en þar bíða ferðamanna víðáttur og nátt­úru­kyrrð í ægifögru umhverfi. Leiðsögn er um einstaka sýningu er segir frá ævintýrum óbyggðanna á lifandi hátt. Aðgangur að baðhúsi er innifalinn fyrir gistigesti, heit laug, gufubað og hvíldarherbergi með eldstæði. Gisting í átta herbergjum með sameiginlegu baði, einnig í veglegri baðstofu, lokrekkjum og í fjölskylduherbergi með baði. Hentar vel fyrir smærri hópa, s.s. gönguhópa. Gistirými fyrir 36 manns.

Veitingar. Hesta- og gönguferðir. Óbyggðasýning opin 1. júní - 30. sept. kl. 11-17. Opið allt árið. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Sér baðherbergi
  • Fjölskylduherbergi 3+
  • Hefðbundinn búskapur
  • Wi-Fi
  • Veitingastaður
  • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

  • Hallormsstaðaskógur
  • Lagarfljót
  • Valþjófsstaðarkirkja 11 km
  • Skriðuklaustur 13 km (miðstöð menningar og sögu)
  • Snæfellsstofa 14 km, upplýsingamiðstöð Austurlands og Vatnajökulsþjóðgarðs
  • Hengifoss 18 km
  • Strútsfoss 25 km
  • Hallormsstaður 27 km (hjólaleiga, hestaleiga og veitingastaður)
  • Fljótsdalsstöð orkuver
  • Egilsstaðir 52 km
  • Kárahnjúkar 77 km

Gistiaðstaða

Gamli bær: Í gamla íbúðarhúsinu á Egilsstöðum, sem reist var árið 1940 og hefur verið enduruppgert og fært um leið í sitt upprunalega horf, eru 4 tveggja manna herbergi með sameiginlegu baði, setustofu og eldhúsi. Innréttingar og húsgögn eru í stíl og að smekk ábúenda á fimmta áratug síðustu aldar.

Basecamp: Í þessu húsi er fjögur tveggja manna herbergi, sameiginleg snyrti og sturtuaðstað og lítið eldhús. Húsið er innréttað á skapandi og smekklegan hátt með endurnýtingarþema, þar sem gömlum hlutum eru gefin ný hlutverk.

Í byggingu við hliðina á gamla íbúðarhúsinu hefur verið innréttað á efri hæð baðstofuloft í anda gömlu íslensku torfbæjanna. Þar er gistiaðstaða í nokkrum uppbúnum tvíbreiðum rúmum í sameiginlegu baðstofurými og í tveimur lokrekkjum. Inn af baðstofuloftinu er „hreppstjórasvítan", 4 manna fjölskylduherbergi með sérbaði. Engu er líkara en að gestir hverfi aftur til aldamótanna 1900 þegar þeir ganga inn í baðstofuna og einstök upplifun að eiga hér næturstað við aðstæður sem minna á heimili betur efnaðra bænda á fyrri tíð.

 
Baðhús
 

Innifalið í gistingu er aðgangur að ævintýralegu baðhúsi með heitri hlaðinni laug, sturtum og hvíldarherbergi með eldstæði. Baðhúsið er klætt að utan með rekavið og innréttað á einstaklega fallegan máta.

 
Veitingar/matur

Veitingastaður. Lögð er áhersla á hráefni úr heimabyggð og á matargerðar­list sem byggir á íslenskum hefðum. Gestum stendur til boða að fylgjast með í eldhúsinu og ræða við húsfreyjuna á meðan hún eldar. Allt brauð og sætmeti er heimabakað. Morgunverður og aðrar máltíðir. Vínveitingar á staðnum.

 
Þjónusta og afþreying

Merktar gönguleiðir liggja frá Óbyggðasetrinu og kláfurinn sem var endurbyggður yfir Jökulsánna hefur mikið aðdráttarafl, enda ævintýri að ferðast yfir jökulsánna á honum. Gönguferðir og hestaferðir með leiðsögn eru einnig í boði frá Óbyggðasetrinu. 

Óbyggðasýningin er eitt helsta aðdráttarafl setursins. Þar er hægt að fara í leiðsögn um ævintýri óbyggðanna innandyra sem utan. Sýningin er sett upp á mjög lifandi og myndrænan hátt og hefur hlotið gríðarlega athygli. Tímarit eins og Vogue, Cosmopolitan og Marie Claire hafa skrifað greinar um þessa einstöku upplifun.

Menningarsetrið og sögustaðurinn Skriðuklaustur og Snæfellsstofa, upplýsingamiðstöð um eystri hluta Vatnajökulsþjóðgarðs (14 km). Hengifoss, næsthæsti foss á Íslandi (18 km). Hallormsstaður og Hallormsstaðaskógur/Atlavík með hestaleigu, reiðhjóla- og bátaleigu (27 km). Næsta þéttbýli með verslunum, veitingastöðum, góðri og vel búinni sundlaug, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og ýmissri annarri þjónustu: Egilsstaðir (52 km). Reglulegar áætlunarferðir í innanlandsflugi (flugtími 1 klst.) milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Til Seyðisfjarðar, þar sem ferjan Norræna leggur að bryggju, eru 80 km.

 
Öræfakyrrð, náttúrufegurð, svartamyrkur og norðurljós

Óbyggðasetrið er á Egilsstöðum, innsta bæ í byggð í Norðurdal sem er inn af Fljótsdal. Um dalinn fellur Jökulsá á Fljótsdal og er vel þess virði að ganga upp með henni, heimsækja eyðibýlið Kleif, fara yfir jökulsána á kláfferju og njóta þess að sjá hana falla í mörgum fossum niður af hálendissléttunni, Vesturöræfum, þar sem Snæfell ber við himin. Hér er um margt að velja fyrir göngumenn og útivistarfólk og ekki langt að fara til að njóta kyrrðar og víðáttu öræfanna. Óbyggðasetrið er staðsett langt frá allri ljósmengun og því einstaklega hentugur staður til að njóta norðurljósanna þegar þau heiðra okkur með nærveru sinni.

 
Kárahnjúkavirkjun

Upplýsingamiðstöð Landsvirkjunar um Kárahnjúkavirkjun er í félagsheimilinu Végarði (12 km). Við Bessastaði, 4 km utar í dalnum, liggur vegur upp á Fljótsdalsheiði og að Kárahnjúkum; má reikna með að taki um klukkustund að aka frá upplýsingamiðstöðinni að útsýnispallinum í grennd við Desjarárstíflu. Þaðan má sjá mikilfenglegustu og um leið þau virkjunarmannvirki á Íslandi sem vakið hafa mestar deilur á meðal þjóðarinnar.

 
Hengifoss, Strútsfoss, Hallormsstaðaskógur

Að Hengifossi í Fljótsdal, næsthæsta fossi á Íslandi, eru um 18 km frá Öræfasetrinu. Áhugafólki um stórbrotna náttúru má einnig benda á Strútsfoss í Suðurdal (75 m hár) en frá bænum Sturluflöt (25 km) er þægileg 20 mín. gönguleið upp með ægifögru gilinu að fossinum. Hallormsstaðaskógur (27 km) hefur verið friðaður síðan árið 1905 og er nú talinn stærstur skóga á Íslandi, um 740 ha. Í skóginum eru um 40 km af gönguslóðum og mikið af merktum gönguleiðum. Á Hallormsstað er fjölskylduvænt trjásafn með yfir 70 trjátegundum og auk þess eru þar leiktæki fyrir börn og góð grillsvæði. Einnig má mæla með gönguferð um Ranaskóg, innan við svonefnt Gilsárgil (22 km), en hann er talinn einn fegursti og vöxtuglegasti skógur landsins.

Gestgjafi:  Denni Karlsson

 

í nágrenni