Verðlaunahafi hvatningarverðlauna Ábyrgrar ferðaþjónustu



Verðlaunahafi hvatningarverðlauna Ábyrgrar ferðaþjónustu

05.12.2019 | Lella Erludóttir

Í dag var dagur Ábyrgrar ferðaþjónustu haldinn hátíðlegur á Hótel Sögu. Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sammælist um skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta bænda hefur verið með í verkefninu frá upphafi og tekur hlutverk sitt mjög alvarlega. Ábyrg ferðaþjónusta, sjálfbærni, umhverfisvernd og ánægjuleg upplifun ferðamanna hefur alltaf verið í forgrunni í öllu okkar starfi undir vörumerkjum Hey Iceland og Bændaferða.

Það er því með stolti, gleði og þakklæti sem við tókum í dag á móti sérsökum hvatningaverðlaunum Ábyrgrar ferðaþjónustu úr hendi forseta Íslands, verndara verkefnisins.

 
Í rökstuðning dómnefndar vegna verðlaunanna segir meðal annars:

Hey Iceland byggir á traustum grunni Ferðaþjónustu bænda og hefur starfað eftir sjálfbærnistefnu frá árinu 2002. Fyrirtækið hefur verið þátttakandi í Ábyrgri ferðaþjónustu frá upphafi og sett sér og birt markmið  í tengslum við áherslur Ábyrgrar ferðaþjónustu á heimasíðu sinni auk þess sem fyrirtækið hefur sett sér mælikvarða til þess að meta árangur sinn.

Fyrirtækið er gæðavottað af Vakanum, með gull-umhverfismerki og sýnilegt er að áhersla er lögð á sjálfbærni í starfsemi fyrirtækisins. Þá hvetur Hey Iceland samstarfsfyrirtæki sín til þess að vera með vottun hjá Vakanum og hefur þannig jákvæð áhrif á sitt nærsamfélag og ferðaþjónustu á Íslandi.

Ferðaþjónusta bænda stefnir að kolefnisjöfnun á öllu flugi Bændaferða árið 2020 og mun kolefnisjafna sína starfsemi samhliða því. Hey Iceland sýnir fordæmi fyrir aðra aðila í þessum skrefum og á starfsfólks Hey Iceland á hrós skilið fyrir metnaðarfull verkefni á sviði umhverfismála. Þá ber einnig að nefna verkefnið „Hleðsla í hlaði“ sem unnið hefur verið að í samstarfi við fjölda aðila.

Fyrirtækið er með sjálfbæra ferðaþjónustu að leiðarljósi og er í einstakri stöðu til að hvetja aðra til góðra verka og vinna saman að verkefnum heimsmarkmiða Sameinuð þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Margar flottar tilnefningar bárust dómnefnd en var niðurstaðan sú að Hey Iceland væri vel að þessum hvatningarverðlaunum komin, og þá sérstaklega vegna þess áhrifamáttar sem fyrirtækið getur haft á aðra. Hey Iceland hefur mikið tækifæri til að vera innblástur og fyrirmynd í ábyrgri ferðaþjónustu fyrir samstarfsfélaga sína og ferðaþjónustu á Íslandi.

 
Í dómnefnd voru þau Berglind Sigmarsdóttir, stjórnarkona í Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð, Magnús Haukur Ásgeirsson, aðjúnkt við Háskóla Íslands og Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannvit.

Fulltrúi Hey Iceland tekur við verðlaununum

Á myndinni má sjá Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans, Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, Hugrúnu Hannesdóttur, fulltrúa Ferðaþjónustu bænda og Bjarnheiði Hallsdóttur, formann Samtaka ferðaþjónustunnar. 

í nágrenni