Opið hús í Hestheimum



Opið hús í Hestheimum

01.04.2014 | Hildur Fjóla Svansdóttir

Opið hús verður í Hestheimum í Ásahreppi frá kl. 13:00 - 18:00, laugardaginn 5. apríl og sunnudaginn 6. apríl. Glatt verður á hjalla og ýmislegt í boði fyrir gesti og gangandi. Boðið verður upp á kaffi, djús og heimabakaða súkkulaðiköku, teymt verður undir börnum yngri en 8 ára utandyra og ýmsir leikir verða í reiðhöllinni, t.d. skeifukast og hjólbarðaboðhlaup.

Fjölskyldan Hestheimum

Gestum býðst að heimsækja hesthúsin þar sem þeir fá að kemba og klappa hestum og hreinsa úr hófum. Einnig verður hægt að heimsækja geithafurinn Loka, kisurnar Tíu og Tímoníu og tíkina Týru.

Leiðsögn verður um álfabyggðirnar í Hestheimum og haldin verður nafnasamkeppni um tvær álfabyggðir þar sem vegleg verðlaun eru í boði.

Kynning verður haldin á starfsemi Hestheima og ýmsum námskeiðum sem haldin eru á bænum, m.a. á vikulöngu reiðnámskeiði fyrir 8-12 ára börn, styttri reiðnámskeiðum og járninganámskeiðum. Allir gestir sem vilja eru leystir út með kveðjugjöf, notaðri skeifu, sem minjagrip um komuna í Hestheima.

Nánar um Hestheima í Ásahreppi

í nágrenni