1,5 milljarður til uppbyggingar ferðamannastaða



1,5 milljarður til uppbyggingar ferðamannastaða

01.02.2013 | María Reynisdóttir
GeysirFyrsta úthlutunin úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fór fram í gær, þar sem verkefni sem tengjast Geysissvæðinu og Stöng í Þjórsárdal fengu hæstu styrkina. Alls verða 500 milljónir króna settar í uppbyggingu ferðamannastaða á landinu á þessu ári.

Hæstu styrkina, 20 milljónir króna, fengu að þessu sinni Sveitarfélagið Bláskógabyggð vegna hugmyndasamkeppni og deiliskipulagsvinnu við Geysi í Haukadal og Fornleifavernd ríkisins til að ljúka skipulags- og hönnunarvinnu og hefja uppbyggingu við Stöng í Þjórsárdal. Fleiri hlutu minni styrki.

Fjölbreytt verkefni um allt land
Verkefnin sem hljóta styrki eru fjölbreytt. Öll eiga þau þó sameiginlegt að þeim er ætlað að stuðla að þeim markmiðum um uppbyggingu, viðhald og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða á náttúruverndarsvæðum um land allt, að tryggja öryggi ferðamanna, vernda náttúru landsins og fjölga viðkomustöðum ferðamanna, svo nokkuð sé nefnt.

500 milljónir árlega næstu þrjú árin
Stjórnvöld tilkynntu í haust um 500 milljóna króna árlegt framlag til sjóðsins næstu þrjú árin í tengslum við fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar. Með þessu aukna framlagi er hægt að fara með mun markvissari hætti en áður í uppbyggingu áfangastaða ferðamanna vítt og breitt um landið, bæta ásýnd og yfirbragð staða og svæða, draga úr álagi og skemmdum af völdum vaxandi fjölda ferðamanna, bæta öryggismál, innviði og þjónustu við ferðamenn og þar með upplifun þeirra og ánægju af dvölinni.

Sjá nánar frétt á vef Ferðamálastofu.

í nágrenni