Nýr veitingastaður á GeysiNýr veitingastaður á Geysi

06.07.2012 | María Reynisdóttir
GeysirÞann 21. júní sl. var opnaður nýr veitingastaður á Geysi í Haukadal sem ber einfaldlega nafnið Geysir.
 
Um er að ræða nýja upplifun fyrir ferðamenn þar sem náttúru Íslands, þjóðaríþrótt íslendinga og einstök hönnun eru leidd saman á einn stað.
 
Veitingastaðurinn er hannaður af Leif Welding og er innblásturinn náttúra Íslands. Lögð verður áhersla á íslenskt eldhús og ferskt hráefni. Meðal annars verður mikið úrval af smurðu brauði með fisk og kjöt áleggi, heimagerðar kökur og sætir bitar, hágæða kaffi, frábær fiskisúpa og grænmetissúpa dagsins. Í hádeginu er alltaf úrval af heitum réttum ásamt meðlæti og alltaf lambakjöt í nýjum útfærslum. Einnig er boðið upp á ljúffengan Kjörís, sérbökuð vöffluform og mikið úrval af kúluís.
 
Sigurður Greipsson, forfaðir fjölskyldunnar á Geysi var mikill íþróttagarpur og frumkvöðull í íþróttaskólastarfi og ferðaþjónustu í Haukadal ásamt konu sinni Sigrúnu Bjarnadóttur frá Bóli. Honum til heiðurs er glímusýning hluti af hinum nýja veitingastað en á árunum 1922-26 sigraði hann Íslandsglímuna og hætti ósigraður. Sigurður reisti íþróttaskóla í Haukadal 1927 og hefur fjölskyldan reynt að halda minningu hans og gildum á lofti í sínu starfi.
 
Fjölskyldan telur mikilvægt að kynna glímuna bæði fyrir útlendingum jafnt sem íslendingum þar sem glíman, þjóðaríþrótt Íslendinga, hefur lifað með þjóðinni allt frá Þjóðveldisöld. Glíman er eina íþróttin sem hefur orðið til á Íslandi og hún er einstæð í veröldinni. Útlendingar sem kynnast glímu undrast mjög þessa háþróuðu og tæknilegu íþrótt og þykir mjög til hennar koma.
 
Meðal annars er til sýnis Grettisbeltið sem er merkasti og sögufrægasti gripur í gjörvallri íþróttasögu Íslands og einnig sá elsti. Hefur það verið farandgripur allt frá upphafi og vinnst aldrei til eignar. Sama ólin fylgir beltinu og var á því upphaflega.

Nánari upplýsingar um gistingu og afþreyingu um Hótel Geysi.

í nágrenni