Starfsfólk kemur með lífrænt sorp að heiman



Starfsfólk kemur með lífrænt sorp að heiman

13.11.2014 | Hildur Fjóla Svansdóttir

Það skemmtilega við vinnu að umhverfismálum er að það má alltaf finna ný verkefni sem miða að því að bæta umhverfið. Flokkun á sorpi er eitt viðfangsefnið, en í framhaldi af því að taka upp lífræna flokkun á skrifstofunni (sem var lokahnykkurinn á flokkun á sorpi hjá okkur á skrifstofunni), ákváðum við að gefa starfsfólki tækifæri til að ganga þetta skref heimafyrir líka, það er þeim starfsmönnum sem ekki hafa aðstöðu til að vera með moltukassa í garðinum heimafyrir.

Starfsfólk Ferðaþjónustu bænda kemur með lífrænt rusl að heiman

Starfsmaður kemur með sitt lífræna sorp að heiman.

Við fengum tunnu frá Gámaþjónustunni sem við merktum „Að heiman“ og í bókhaldinu er sérstaklega haldið utan um þessar upplýsingar. Í upphafi bauðst öllu starfsfólkinu kostur á að fá græna körfu undir lífræna sorpið heimafyrir og startpakki af maíspokum fylgdi líka með.

Starfsfólkið tók vel í þetta og í dag koma um 85 kg. af lífrænu sorpi að heiman í gegnum þetta verkefni. Við sjáum ekki ástæðu til að hætta með þetta verkefni vitandi af því að þetta virkar og í stað þess að lífræna ruslið fari með heimilissorpinu í urðun verður til hin fínasta gróðurmold.

Recycling system at Icelandic Farm Holidays

Flokkunarkerfið í eldhúsinu sem allir starfsmenn eru þjálfaðir til að nota - þeir sem standa sig ekki fá ábendingarpóst frá gæðastjóra eða Sævari framkvæmdarstjóra. 

Þetta er eitt lítið dæmi um hvernig við getum stuðlað að aukinni umhverfisvitund á meðal starfsmanna okkar og fjölskyldna. Á þennan hátt erum við að sá fræum. Við viljum halda áfram að sá fræjum til að stuðla að enn betri frammistöðu á sviði umhverfismála og hafa sjálfbæra ferðaþjónustu að leiðarljósi í okkar störfum, gjarnan í samstarfi við ykkur sem deilið sömu hugsjónum. Vilt þú vera með?

 
Skrifstofa Ferðaþjónustu bænda hf. er vottuð af EarthCheck sem er vottunarkerfi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og samfélög. Starfsfólk og stjórn fyrirtækisins hefur sjálfbæra ferðaþjónustu að leiðarljósi í starfseminni og deilum þeirri sameiginlegu sýn með félagsmönnum í Félagi Ferðaþjónustubænda, sem eru helstu samstarfsaðilarnir. Sjá sjálfbærnistefnuna okkar hér.

í nágrenni