Einishús á EinarsstöðumEinishús á Einarsstöðum

Björt og falleg frístundahús, 2x4 manna og 3x2 manna vel búin hús miðsvæðis í Þingeyjarsveit á Norð-austur Íslandi. Húsin eru á kyrrlátum stað í landbúnaðarhéraði, á bænum Einarsstöðum í Reykjadal, skammt frá þéttbýliskjarnanum Laugum. Góð staðsetning til kynnisferða um þennan landshluta þar sem eru þekktir staðir eins og Mývatn, Ásbyrgi, Jökulsárgljúfur, Goðafoss og Dettifoss. Opið  frá 2. janúar til 23. október og  1. - 23. desember.   

Veldu dagsetningar
Frá:244 kr.
hver nótt á herbergi
Senda fyrirspurn

Þjónusta

  • Bústaður
  • Wi-Fi
  • Heitur pottur
  • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

  • Sundlaug og veitingastaðir á Laugum 3 km
  • Hestaferðir
  • Goðafoss 10 km
  • Mývatn 28 km
  • Hvalaskoðun á Húsavík 40 km
  • Ásbyrgi 98 km

Gistiaðstaða

2x4 manna frístundahús: Tvö svefnherbergi, annað með tvíbreið rúmi en hitt með kojum. Svefnloft með 4 dýnum. Gott baðherbergi með sturtu. Aðalrými, stofa og eldhúskrókur, með sófasetti, sjónvarpi, dvd-spilara og útvarpi með geislaspilara. Borð og stólar fyrir 8 manns. Eldavél, ísskápur, uppþvottavél og örbylgjuofn. Verönd með gasgrilli, garðhúsgögnum og heitum potti.

3x2 manna frístundahús: Eitt svefnherbergi með tveimur rúmum. Gott baðherbergi með sturtu. Aðalrými, stofa og eldhúskrókur, með svefnsófa, sjónvarpi, dvd-spilara og útvarpi með geislaspilara. Borð og stólar fyrir 5 manns. Helluborð með tveimur eldunarhellum, ísskápur og örbylgjuofn. Verönd með gasgrilli, garðhúsgögnum og heitum potti.
Veitingar/máltíðir

Gestir sjá um allar máltíðir og matseld sjálfir. Dalakofinn er verslun og matsölustaður á Laugum (3 km). Þar fást allar helstu nauðsynjavörur og á matsölustaðnum má fá rétt dagsins, pizzur, hamborgara, íslenska kjötsúpu, pönnusteikta bleikju, plokkfisk, samlokur o.fl.

 
Þjónusta/afþreying

Hestaleiga og hestaferðir frá Garði í Aðaldal (16 km) og Saltvík (rétt sunnan við Húsavík (32 km). Hvalaskoðunarferðir og sjóstangaveiði frá Húsavík (40 km). Fuglaskoðun við Mývatn og Laxá í Aðaldal. Gönguleiðir. 9 holu golfvellir á Húsavík (36 km) og skammt frá Reykjahlíð við Mývatn (30 km). Sundlaug, 25 m laug með vaðlaug og heitum pottum, á Laugum (3 km) þar sem er lítill þéttbýliskjarni með verslun, matsölustað og banka. Næsta þéttbýli með verslunum, veitingastöðum, sundlaug og ýmissi almennri þjónustu: Húsavík (36 km).

 
Gönguferðir, stærsti torfbærinn, Goðafoss

Einishús eru í landi jarðarinnar Einarsstaða í Reykjadal, í gróðusælli og notalegri sveit þar sem skiptast á heiðar og grunnir dalir. Í næsta nágrenni við Einarsstaði eru áhugaverðar slóðir hvort sem er til gönguferða eða styttri ferða á bíl. Á Grenjaðarstað, fornu höfuðbóli, er gott byggðasafn í einum stærsta torfbæ á Íslandi (14 km). Safnið er í mynni Laxárdals og sér til Laxár fyrir neðan bæinn, kunnustu og að því er mörgum finnst fallegustu laxveiðiár á Íslandi. Frá Einishúsum er svo örstut að aka og ekki nema tveggja tíma gangur að Goðafossi (10 km). Á Fosshóli við Goðafoss eru handverksverslun og veitingastaður.

 
Hvalaskoðun, Ásbyrgi, Jökulsárgljúfur, Dettifoss

Húsavík (36 km), gamalgróinn verslunar- og athafnabær, er indæll viðkomustaður og ekki síst fyrir þá sem hafa áhuga á að sjá hvali í náttúrulegu umhverfi sínu. Frá Húsavík eru daglegar hvalaskoðunarsiglingar út á fjörðinn og fróðlegt safn um hvali og búsvæði þeirra. Til nyrsta hluta Vatnajökulsþjóðgarðs, til Ásbyrgis og Jökulsárgljúfra með Dettifossi, einni af stórbrotnustu náttúrurperlum Íslands, öflugasta fossi í Evrópu, eru um 96 km frá Einishúsum.

 
Mývatn og töfraheimur náttúrunnar

Mývatn (30 km), vatnið sjálft með fjölskrúðugu fuglalífi og landið í kring, mótað af eldsumbrotum í þúsundir ára, er einstakur heimur, víðkunnur fyrir náttúrufegurð og landslag sem líkist engu. Þar má ganga um töfraveröld Dimmuborga, rölta upp á gíginn Hverfjall, skoða höggmyndir náttúrunnar við Kálfaströnd og Héðinshöfða og virða fyrir sér einstaka litadýrð í bullandi leirhverum í Hverarönd undir Námafjalli. Eftir skoðunarferðir dagsins er svo fátt betra en að finna þreytuna líða úr sér í Jarðböðunum við Mývatn áður en ekið er heim til Einarshúsa.


Gestgjafar: Einir og Guðfinna
 

 

í nágrenni