Einishús á Einarsstöðum



Einishús á Einarsstöðum

Björt og falleg frístundahús, 2x4 manna og 3x2 manna vel búin hús miðsvæðis í Þingeyjarsveit á Norð-austur Íslandi. Húsin eru á kyrrlátum stað í landbúnaðarhéraði, á bænum Einarsstöðum í Reykjadal, skammt frá þéttbýliskjarnanum Laugum. Góð staðsetning til kynnisferða um þennan landshluta þar sem eru þekktir staðir eins og Mývatn, Ásbyrgi, Jökulsárgljúfur, Goðafoss og Dettifoss.

Opið:  2. janúar - 1. des.    

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Bústaður
  • Wi-Fi
  • Heitur pottur
  • Golfvöllur í nágrenni
  • Merktar gönguleiðir
  • Hreint og öruggt

Í nágrenni

  • Sundlaug og veitingastaðir á Laugum 3 km
  • Hestaferðir
  • Goðafoss 10 km
  • Mývatn 28 km
  • Hvalaskoðun á Húsavík 40 km
  • Ásbyrgi 98 km

Gistiaðstaða

2x4 manna frístundahús: Tvö svefnherbergi, annað með tvíbreið rúmi en hitt með kojum. Svefnloft með 4 dýnum. Gott baðherbergi með sturtu. Aðalrými, stofa og eldhúskrókur, með sófasetti, sjónvarpi, dvd-spilara og útvarpi með geislaspilara. Borð og stólar fyrir 8 manns. Eldavél, ísskápur, uppþvottavél og örbylgjuofn. Verönd með gasgrilli, garðhúsgögnum og heitum potti.

3x2 manna frístundahús: Eitt svefnherbergi með tveimur rúmum. Gott baðherbergi með sturtu. Aðalrými, stofa og eldhúskrókur, með svefnsófa, sjónvarpi, dvd-spilara og útvarpi með geislaspilara. Borð og stólar fyrir 5 manns. Helluborð með tveimur eldunarhellum, ísskápur og örbylgjuofn. Verönd með gasgrilli, garðhúsgögnum og heitum potti.
Veitingar/máltíðir

Gestir sjá um allar máltíðir og matseld sjálfir. Dalakofinn er verslun og matsölustaður á Laugum (3 km). Þar fást allar helstu nauðsynjavörur og á matsölustaðnum má fá rétt dagsins, pizzur, hamborgara, íslenska kjötsúpu, pönnusteikta bleikju, plokkfisk, samlokur o.fl.

 
Þjónusta/afþreying

Hestaleiga og hestaferðir frá Garði í Aðaldal (16 km) og Saltvík (rétt sunnan við Húsavík (32 km). Hvalaskoðunarferðir og sjóstangaveiði frá Húsavík (40 km). Fuglaskoðun við Mývatn og Laxá í Aðaldal. Gönguleiðir. 9 holu golfvellir á Húsavík (36 km) og skammt frá Reykjahlíð við Mývatn (30 km). Sundlaug, 25 m laug með vaðlaug og heitum pottum, á Laugum (3 km) þar sem er lítill þéttbýliskjarni með verslun, matsölustað og banka. Næsta þéttbýli með verslunum, veitingastöðum, sundlaug og ýmissi almennri þjónustu: Húsavík (36 km).

 
Gönguferðir, stærsti torfbærinn, Goðafoss

Einishús eru í landi jarðarinnar Einarsstaða í Reykjadal, í gróðusælli og notalegri sveit þar sem skiptast á heiðar og grunnir dalir. Í næsta nágrenni við Einarsstaði eru áhugaverðar slóðir hvort sem er til gönguferða eða styttri ferða á bíl. Á Grenjaðarstað, fornu höfuðbóli, er gott byggðasafn í einum stærsta torfbæ á Íslandi (14 km). Safnið er í mynni Laxárdals og sér til Laxár fyrir neðan bæinn, kunnustu og að því er mörgum finnst fallegustu laxveiðiár á Íslandi. Frá Einishúsum er svo örstut að aka og ekki nema tveggja tíma gangur að Goðafossi (10 km). Á Fosshóli við Goðafoss eru handverksverslun og veitingastaður.

 
Hvalaskoðun, Ásbyrgi, Jökulsárgljúfur, Dettifoss

Húsavík (36 km), gamalgróinn verslunar- og athafnabær, er indæll viðkomustaður og ekki síst fyrir þá sem hafa áhuga á að sjá hvali í náttúrulegu umhverfi sínu. Frá Húsavík eru daglegar hvalaskoðunarsiglingar út á fjörðinn og fróðlegt safn um hvali og búsvæði þeirra. Til nyrsta hluta Vatnajökulsþjóðgarðs, til Ásbyrgis og Jökulsárgljúfra með Dettifossi, einni af stórbrotnustu náttúrurperlum Íslands, öflugasta fossi í Evrópu, eru um 96 km frá Einishúsum.

 
Mývatn og töfraheimur náttúrunnar

Mývatn (30 km), vatnið sjálft með fjölskrúðugu fuglalífi og landið í kring, mótað af eldsumbrotum í þúsundir ára, er einstakur heimur, víðkunnur fyrir náttúrufegurð og landslag sem líkist engu. Þar má ganga um töfraveröld Dimmuborga, rölta upp á gíginn Hverfjall, skoða höggmyndir náttúrunnar við Kálfaströnd og Héðinshöfða og virða fyrir sér einstaka litadýrð í bullandi leirhverum í Hverarönd undir Námafjalli. Eftir skoðunarferðir dagsins er svo fátt betra en að finna þreytuna líða úr sér í Jarðböðunum við Mývatn áður en ekið er heim til Einarshúsa.


Gestgjafar: Einir og Guðfinna
 

 

í nágrenni