Gistiheimilið Stekkatún



Gistiheimilið Stekkatún

Lítið og hlýlegt 5 herbergja gistiheimili undir suðurrótum Vatnajökuls, skammt frá Heinabergsjökli, nær miðja vegu á milli Jökulsárlóns og þéttbýlisins í Höfn á Hornafirði. Hrífandi landslag, mótað af jökli og jökulfljótum, Merktar gönguleiðir í Vatnajökulsþjóðgarði. Auðugt fuglalíf. Opið frá 1. júní til 15. september. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Wi-Fi
  • Hleðslustöð

Í nágrenni

  • Kvöldverður á Skálafelli (200 m) og Smyrlabjörg 5 km
  • Vatnajökulsþjóðgarður
  • Jöklaferðir 3 km
  • Húsdýragarður á Hólmi 12 km
  • Jökulsárlón 40 km
  • Höfn 40 km
  • Byggðasafn á Höfn

Gistiaðstaða

5x2 manna herbergi með 2 sameiginlegum baðherbergjum (hárblásari í báðum baðherbergjum). Matstofa. Ókeypis þráðlaust netsamband.

 
Veitingar/máltíðir

Morgunverður er borinn fram á gistiheimilinu. Matsölustaður á nágranna¬bænum, Skálfelli 1 (200 m) og kvöldverðarhlaðborð á sveitahótelinu Smyrlabjörgum (5 km). Næstu matvöruverslanir í útgerðarbænum Höfn í Hornafirði (40 km).

 
Þjónusta/afþreying

Gestgjafar veita upplýsingar um gönguleiðir í nágrenninu. Merkt gönguleið liggur frá bænum að syðri tungu Heinabergsjökuls, Skálafellsjökli. Fleiri merktar gönguleiðir á þessum slóðum í syðsta hluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Jöklaferðir með leiðsögn (vélsleðaferðir) á Skálafellsjökul (vegur 985, 3 km). Húsdýragarður, skemmtilegur staður fyrir börnin, á Hólmi á Mýrum (12 km). Heitir pottar á Hoffelli og fjórhjólaferðir inn með Hoffellsjökli (30 km). Steinasafnið Huldusteinn og Jöklasafnið á Höfn þar sem er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn (40 km). Dagsferðir að Jökulsárlóni (40 km) og í Skaftafell (98 km). Hestaleiga í Árnanesi (33 km). Næsta þéttbýli með sundlaug, golfvelli, matvöruverslunum, veitingastöðum, ferðaþjónustufyrirtækjum og allri almennri þjónustu: Höfn (40 km).

Við gistihúsið eru þrjár hleðslustöðvar til afnota fyrir gesti gegn gjaldi.

 
Vatnajökulsþjóðgarður – merkt gönguleið um Hjallanes

Gistiheimilið Stekkatún stendur í grænu túni undir listilega útskornum klettavegg og skammt frá rennur jökulfljótið Kolgríma, sem fellur úr einum af skriðjöklum Vatnajökuls, Heinabergsjökli, og skilur á milli svonefndrar Suðursveitar og Hornafjarðar. Af veginum heim að Stekkatúni og nágrannabænum Skálafelli liggur stikuð gönguleið að vinsælu göngusvæði, Hjallanesi undir syðri tungu Heinabergsjökuls, Skálafellsjökli. Hér erum við komin í Vatnajökulsþjóðgarð sem nær yfir 13% af flatarmáli Íslands, 13.600 km2, og er stærsti þjóðgarður í Vestur-Evrópu.  3 km frá Skálafelli (vegur 985) eru í boði daglegar vélsleðaferðir með leiðsögn á Skálafellsjökul.

 
Undraheimur jöklanna, Heinabergssvæðið og Fláajökull

Annað undurfagurt og stórbrotið göngu- og útivistarsvæði á þessum slóðum – í suðurjaðri Vatnajökulsþjóðgarðs og með merktum gönguleiðum – er svonefnt Heinabergssvæði. Að bílastæði við Heinabergsjökul liggur vegslóði, fær vel flestum bílum (7,7 km) frá þjóðvegi 1, skammt austan við fljótið Kolgrímu. Enn má nefna vinsælt göngu- og útivistarsvæði í grennd við skriðjökulinn Fláajökul sem er eilítið austar en Heinabergsjökull. Að Fláajökli liggur malarvegur (10 km), fær flestum bílum, af þjóðvegi nr. 1 við Hólm (11 km frá Stekkatúni).

 
Suðursveit, náttúruupplifun í skjóli Vatnajökuls

Stekkatún er í landi Skálafells sem er austasti bær í Suðursveit, en svo nefnist sveitin meðfram ströndinni undir rótum Vatnajökuls allt vestur að hinu víðkunna Jökulsárlóni (40 km). Suðursveit er heillandi staður fyrir náttúruunnendur og útivistarfólk þar sem jöklar, hömrum girtir fjallatindar, grænar grundir og svartir fjörusandar skapa ógleymanlega upplifun. Í Lækjarhúsum í Borgarhöfn í Suðursveit (11 km) eru í boði jeppaferðir, óvissuferðir og útsýnisferðir í litlum rútum. Frá Borgarhöfn eru 12 km að Hala í Suðursveit þar sem er góður veitingastaður með áherslu á heimafengið hráefni og fróðlegt safn um einn kunnasta rithöfund Íslendinga á 20. öld. Frá Hala eru 14 km að Jökulsárlóni.


Gestgjafar:
Ingibjörg og Linda.

 

í nágrenni