Dalshöfði



Dalshöfði

Gisting á bænum Dalshöfði austan við Kirkjubæjarklaustur, skammt frá áhugaverðum ferðamannaslóðum og í um 30 mín. akstur frá Skaftafelli í Vatnajökulsþjóðgarði. Bærinn er í sérstæðu og fallegu umhverfi, 5 km frá þjóðvegi 1. Þaðan er stutt að heimsækja ýmsa kunna staði í þessum landshluta. Hraun frá Skaftáreldum 1783 setja svip á láglendi en á heiðum og hálendi ofan við sveitirnar má upplifa fjölbreytni íslenskrar náttúru, mótaða af ís og eldi. Opið frá 1. mars til 31. október. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Íbúð
  • Wi-Fi
  • Eldunaraðstaða
  • Hreint og öruggt

Í nágrenni

  • Fallegt göngusvæði
  • Kirkjubæjarklaustur 25 km
  • Lakagígar 60 km
  • Eldgjá 94 km
  • Skaftafell 45 km
  • Jökulsárlón (bátsferðir) 106 km

Gistiaðstaða

Eins og tveggja manna herbergi með handlaug og fatahengi í sérhúsi með tveimur sameiginlegum baðherbergjum. Matsalur/dagstofa. Séríbúð með tveimur svefnherbergjum (hjónaherbergi og annað herbergið með tveimur stökum rúmum og pláss fyrir eitt aukarúm), stofu með svefnsófa, eldhúsi og baðherbergi.

 
Veitingar/máltíðir

Gestir hafa aðgang að eldhúsi frá kl. 7-22 alla daga. Hver og einn sér um sínar máltíðir sjálfur.

 
Þjónusta/afþreying

Þvottavél tl afnota fyrir gesti. Verönd með garðhúsgögnum. Skemmtilegar gönguleiðir. Margir áhugaverðir staðir í nágrenninu. Skipulagðar gönguferðir með leiðsögumönnum. Næsta þéttbýli með matvöruverslun, veitingastöðum, sundlaug og ýmissi þjónustu við ferðamenn er á Kirkjubæjarklaustri (25 km).

 
Heiðalönd, jökulfljót og mosavaxið hraun

Bærinn Dalshöfði stendur undir heiðarbrún 5 km frá þjóðvegi 1. Heiðar og fjalllendi upp af bænum eru áhugavert göngusvæði. Skammt frá bænum fellur jökulsáin Hverfisfljót sem verður mjög vatnsmikið á sumrin; eftirminnilegt að ganga fram með eða upp með fljótinu í sumarvexti. Uppi á hálendinu norður af Dalshöfða er mikilfenglegur foss í Hverfisfljóti, Lambhagafoss, og fyrir neðan hann flúðir og minni fossar. Gegnt Dalshöfða, hinum megin við fjótið, er Eldhraun, eystri hraunkvíslin sem rann í Skaftáreldum árið 1783.

 
Dverghamrar, Fjaðrárgljúfur, Lakagígar

Tilvalið er að aka í vestur að Kirkjubæjarklaustri (25 km) og staldra við á leiðinni í Dverghömrum, sérstæðum stuðlabergsklettum. Frá Kirkjubæjarklaustri eru í boði yfir sumarið skipulagðar gönguferðir um nágrennið. Af áhugaverðum stöðum á þessum slóðum má nefna Fjaðrárgljúfur, skammt frá þorpinu. Uppi á hálendinu ofan við byggðina eru Lakagígar, röð gosgíga á 25 km langri eldsprungu sem gaus í Skaftáreldum 1783 (60 km frá Dalshöfða). Lakagígar eru einstakt náttúruvætti á heimsvísu.

 
Skaftafell og Jökulsárlón

Frá Dalshöfða er 45 km akstur í austur yfir Skeiðarársand í Skaftafell, einn vinsælasta ferðamannastað í Vatnajökulsþjóðgarði, yndislega gróðurvin og náttúruperlu í stórbrotnu umhverfi hvassbrýndra tinda og jökla. Frá Skaftafelli eru svo um 60 km að Jökulsárlóni þar sem tröllauknir jakar brotna í sífellu úr skriðjökli og bráðna síðan smám saman á floti í lóninu. Fólki gefst kostur á að sigla um lónið og kynnast þannig betur þessari síbreytilegu listasmíð náttúrunnar.

Gestgjafar:  Baldur og Díana

 

í nágrenni