Gistiaðstaða
Hótel Laugarhóll er í endurnýjuðu húsnæði sem áður var notað sem heimavistarskóli. Í boði er gisting í 16 herbergjum, 11 með sérbaðherbergi og 5 með sameiginlegu baðherbergi. Fjölskylduherbergi og herbergi með aðstöðu fyrir hreyfihamlaða. Notaleg setustofa með sjónvarpi og ókeypis þráðlausu netsambandi. Gestir hafa aðgang að leikfimisal þar sem hægt er að bregða sér t.d. í körfubolta eða fara í borðtennis.
Hjá hótelinu er tjaldsvæði með rennandi heitu vatni og salernisaðstöðu.
Þjónusta
Bjartur og hlýlegur veitingasalur með fallegu útsýni yfir dalinn. Heimalagaður matur úr héraði í bland við framandi rétti – ferskt sjávarfang, lambakjötsréttir, heimalagaðar súpur, nýbakað brauð og kryddjurtir úr garðinum.
Veiðileyfi í Bjarnarfjarðará (sjóbleikja). Gallerí Klúka, lítill sölusýningarsalur með íslenskri nútímalist. Góð funda-, ráðstefnu- og tónleikaaðstaða í leikfimisalnum sem er með rúmgóðu sviði og nýtist vel sem samkomusalur. Ókeypis þráðlaust netsamband í almenningsrými.
Afþreying
Sjóstangveiði, hestaleiga, lundaskoðun, gönguleiðir um dalinn og fjöruna. Næsta þéttbýli með verslun og eldsneyti: Drangsnes (18 km), Hólmavík (25 km), Norðurfjörður (75 km).
Sundlaug og heitar laugar
Fátt er notalegra en að slaka vel á eftir gönguferð dagsins í heitri jarðhitalaug – finna þreytuna líða úr líkamanum og horfa á stjörnurnar á heiðskíru haustkvöldi. Við hótelið er 25 m sundlaug með jarðhitavatni (32°C), kölluð „Gvendarlaug“. Þar er einnig náttúruleg heit laug (42°C) og tengd við hana grynnri laug fyrir börnin.
Norður Strandir – stefnumót við ystu byggðir
Frá Laugarhóli er tilvalið að fara í dagsferðir um næstu byggðir meðfram ströndinni í norðri. Þá má t.d. skoða yfirgefna síldarverksmiðju í Djúpuvík í Reykjafirði, aka til Trékyllisvíkur og bregða sér í jarðhitalaugina í fjöruborðinu, Krossaneslaug í Norðurfirði. Á þessum slóðum mætast úthafið og hvassbrýnd fjöll. Vegurinn þræðir hálsa og brattar hlíðar milli bæja við víkur og firði sem eru nú flestir komnir í eyði. Hér verða til minningar um óblíða, ósnortna og ægifagra náttúru sem aldrei gleymast.
Draugar, tröll og galdramenn
Í hugum Íslendinga hafa Strandir á sér dulúðugan blæ. Í þjóðsögum eru þær ekki aðeins heimkynni drauga, álfa og trölla heldur voru íbúarnir taldir búa margir yfir galdrakunnáttu sem þeir neyttu bæði til góðs og ills. Á Hólmavík er „Strandagaldur“, Íslenska galdrasafnið [The Museum of Icelandic Sorcery & Witchcraft] sem laðar til sín fjölmarga gesti. Í tengslum við safnið er Kotbýli kuklarans [The Sorcerer's Cottage] á Klúku í Bjarnarfirði, við hliðina á Hótel Laugarhóli, endurgerð á dæmigerðu íslensku sveitakoti fátækrar alþýðu á 18. öld.
Gestgjafar: Einar og Vigdís