Ártún í Eyjafirði



Ártún í Eyjafirði

Sumarhús og tjaldsvæði á bænum Ártúni í hlýlegri sveit í faðmi fjalla utanvert á austurströnd Eyjafjarðar, 30 km akstur frá Akureyri. Hlýleg og persónulega þjónusta. Fjölbreytt fuglalíf. Frábært svæði til gönguferða um fjöll, dali og heiðar. Vinsælt skíða- og snjóbrettasvæði í grenndinni. Dagsferðir um næstu héruð, t.d. til Mývatns og í hvalaskoðun frá Húsavík. Opið allt árið. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Bústaður
  • Wi-Fi
  • Golfvöllur í nágrenni
  • Merktar gönguleiðir
  • Tjaldsvæði

Í nágrenni

  • Gamli bærinn Laufás 1 km
  • Hestaferðir 4 km
  • Golf 7 km
  • Grenivík 8 km
  • Akureyri 30 km
  • Sundlaug á Grenivík og Akureyri

Gistiaðstaða

Tvö sumarhús, Bennahús og Bjálki. Bennahús er með tveimur svefnherbergjum, í öðru þeirra er hjónarúm og í hinu eins manns rúm og koja. Í Bjálka er eitt svefnherbergi með hjónarúmi auk þess sem koja og svefnsófi eru í stofunni. 

Í Ártúni er stórt tjaldsvæði með rafmagni, einfaldri eldunaraðstöðu, salernum, sturtum og seyrulosun. 

 
Veitingar/máltíðir

Boðið er upp á sameiginlega aðstöðu í garðskála á neðri hæð íbúðarhússins. Vínveitingar. Einföld eldunaraðstaða er í gömlu útihúsunum við tjaldsvæðið. Lítil matvöruverslun með helstu nauðsynjar í þorpinu Grenivík (8 km). Gott úrval verslana á Akureyri (30 km).

 
Þjónusta/Afþreying

Áhugaverð svæði til fuglaskoðunar á sumrin. Fjölmargar gönguleiðir, á fjöll, um heiðardali í grenndinni eða út með ströndinni frá þorpinu Grenivík. Gestgjafar eru reiðubúnir að veita göngufólki upplýsingar um góðar gönguleiðir. Byggðasafnið í Laufási (2 km). Hestaleiga, Pólarhestar á Grýtubakka (4 km). Golfvöllur í Hvammi, 9 holur, par 34 (7 km). Sundlaug í þorpinu Grenivík (8 km). Útivistar- og skíðasvæðið í Kaldbak (brottfararstaður Kaldbaksferða 8 km). Næstu þéttbýli: Grenivík (8 km) og Akureyri, stærsti bær á Íslandi utan höfuðborgarsvæðsins (30 km).

 
Gönguleiðir við allra hæfi

Ártún er kjörstaður fólks sem hefur áhuga á útivist og gönguferðum úti í náttúrunni, hvort sem hugurinn stefnir til fjalla, upp á heiðar, út með brattlendri strönd við ysta haf eða inn til hlýlegra dala. Á fjallið Kaldbak (1167 m) eru skemmtilegar gönguleiðir, en fyrir þá sem kjósa léttari fjallgöngu er Þengilhöfði (260 m), suður af Grenivík, ákjósanlegri kostur. Vinsælt er að ganga á Laufáshnjúk (662 m); gangan er tiltölulega auðveld en síðasti áfanginn allbrattur. Af tindinum er dýrðleg útsýn yfir Eyjafjörð.

 
Fnjóskadalur – Vaglaskógur – kyrrð á óbyggaslóðum

Í austur, skammt frá Ártúni, liggur þjóðvegur um þröngan dal til Fnjóska¬dals, hlýlegrar sveitar þar sem er, sunnarlega í dalnum, einn stærsti samfelldi birkiskógur á Íslandi, Vaglaskógur (27 km), fjölsótt og vinsælt útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna. Af veginum til Fnjóskadals liggur fáfarinn heiðarvegur til norðurs upp í fjöllin, Flateyjardalsheiði. Gaman að rölta þar upp stuttan spöl og njóta þess að vera einn með landinu. Áður var hér alfaravegur til afskekktra byggða, sem nú eru löngu komnar í eyði, nyrst á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa. Ferðaþjónustufyrirtæki á Grenivík, Fjörðungar, sérhæfir sig í nokkurra daga trússferðum að sumarlagi um þessar slóðir.

 
Vetrarparadís í Kaldbak

Fjallið Kaldbakur er hæsti tindur við norðanverðan Eyjafjörð (1,173 m) og þaðan er stórfenglegt útsýni á góðum degi, hvort sem er að sumri eða vetri. Á síðustu árum hefur fjallið notið æ meiri vinsælda sem einstakt svæði til útivistar á vetrum og vetraríþrótta. Er fullyrt að hlíð Kaldbaks sé lengsta og um margt skemmtilegasta skíðabrekka á Íslandi og fjallið óskastaður fyrir skíðafólk, vélsleðamenn, brettafólk og göngufólk. Frá janúar til maí eru fastar ferðir þrisvar á dag (Kaldbaksferðir) frá Grenivík upp á fjallið með snjótroðara ef veður leyfir (lágmarksfjöldi 10). Ferðin upp tekur um 45 mín. og höfð viðdvöl á tindinum í 15 mín. Fólk getur svo valið að fara aftur niður með troðaranum eða bruna niður brekkurnar á skíðum eða brettum. 


Gestgjafar: 
Benedikt og Kristín

 

í nágrenni