Skálafell I í SuðursveitSkálafell I í Suðursveit

Gistiheimili í stórbrotnu umhverfi undir suðurrótum Vatnajökuls, skammt frá Heinabergsjökli, nær miðja vegu á milli Jökulsárlóns og útvegsbæjarins Hafnar í Hornafirði á Suðaustur-Íslandi. Einstakt landslag, mótað af skriðjöklum og ólgandi jökulám, og suðri sér til sjávar þar sem úthafsaldan fellur á svarta sandströnd. Merktar gönguleiðir í Vatnajökulsþjóðgarði. Opið frá 3. janúar til 21. desember.

Veldu dagsetningar
Frá:14.945 kr.
hver dvöl
Senda fyrirspurn

Þjónusta

 • Sér baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Hefðbundinn búskapur
 • Vínveitingar
 • Máltíðir ef bókað er fyrirfram

Í nágrenni

 • Merktar gönguleiðir
 • Vatnajökulsþjóðgarður
 • Jöklajeppaferðir frá Skálafelli
 • Kayakferðir frá Skálafelli
 • Jöklaferðir 3 km
 • Húsdýragarður 12 km
 • Jökulsárlón 40 km
 • Höfn 40 km

Gistiaðstaða

Í boði er gisting í herbergjum með sérbaði og sérinngangi í þremur, hlýlegum smáhýsum og í sérstakri herbergjaálmu. Í aðalbyggingu gistiheimilisins eru tveggja manna herbergi með handlaug og sameiginlegu baðherbergi en þar er líka móttaka og borðsalur. Ókeypis þráðlaust netsamband í aðalbyggingu.

 
Veitingar/mátíðir

Morgunverður er borinn fram í veitingasal í aðalbyggingu. Þriggja rétta kvöldverður í boði ef pantað er fyrirfram. Lögð áhersla á rétti úr íslensku hráefni úr héraði. Hægt að velja á milli tveggja eða fleiri aðalrétta, kjöt- eða fiskrétta. Íslenskur ís og heimabökuð kaka eða baka í eftirrétt. Matseðli er breytt á hverjum degi. Vínveitingar.

 
Þjónusta/afþreying

Gestgjafar veita upplýsingar um gönguleiðir í nágrenninu. Merkt gönguleið, í umsjá Vatnajökulsþjóðgarðs, liggur frá bænum að syðri tungu Heinabergsjökuls, Skálafellsjökli. Fleiri merktar gönguleiðir á þessum slóðum í syðsta hluta þjóðgarðsins. Jöklaferðir með leiðsögn (vélsleðaferðir) á Skálafellsjökul (vegur 985, 3 km). Húsdýragarður, skemmtileg upplifun fyrir alla fjölskylduna, á Hólmi á Mýrum (12 km). Heitir pottar á Hoffelli og fjórhjólaferðir inn með Hoffellsjökli (30 km). Steinasafnið Huldusteinn og Jöklasafnið á Höfn þar sem er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn (40 km). Dagsferðir að Jökulsárlóni (40 km) og í Skaftafell (98 km). Hestaleiga í Árnanesi (33 km). Næsta þéttbýli með sundlaug, golfvelli, matvöruverslunum, veitingastöðum, ferðaþjónustufyrirtækjum og allri almennri þjónustu: Höfn (40 km).


Vatnajökulsþjóðgarður – merkt gönguleið um Hjallanes

Gistiheimilið í Skálafelli stendur undir tilkomumiklum hamraveggjum. Snertispöl frá bænum, þar sem búið hefur verið frá ómunatíð, rennur Kolgríma, kolgrátt jökulfljót sem fellur úr einum af skriðjöklum Vatnajökuls, Heinabergsjökli, og skilur á milli svonefndrar Suðursveitar og Hornafjarðar. Af veginum heim að Skálafelli liggur stikuð gönguleið að vinsælu göngusvæði, Hjallanesi undir syðri tungu Heinabergsjökuls, Skálafellsjökli. Hér erum við komin í Vatnajökulsþjóðgarð sem nær yfir 13% af flatarmáli Íslands, 13.600 km2, og er stærsti þjóðgarður í Vestur-Evrópu. 3 km frá Skálafelli (vegur 985) eru í boði daglegar vélsleðaferðir með leiðsögn á Skálafellsjökul.

 
Óskalönd fjallamanna, jöklafara og göngufólks

Svonefnt Heinabergssvæði, í suðurjaðri Vatnajökulsþjóðgarðs og með merktum gönguleiðum, er hrífandi og stórbrotið göngu- og útivistarsvæði á þessum slóðum. Að bílastæði við Heinabergsjökul liggur vegslóði, fær vel flestum bílum (7,7 km) frá þjóðvegi 1, skammt austan við fljótið Kolgrímu. Annað vinsælt göngu- og útivistarsvæði er í grennd við skriðjökulinn Fláajökul sem er eilítið austar en Heinabergsjökull. Að Fláajökli liggur malarvegur (10 km), fær flestum bílum, af þjóðvegi nr. 1 við Hólm (11 km frá Skálafelli).

 
Suðursveit, ævintýraheimur undir jökulrótum

Skálafell er austasti bær í Suðursveit, en svo nefnist sveitin meðfram ströndinni undir rótum Vatnajökuls allt vestur að hinu víðkunna Jökulsárlóni (40 km). Suðursveit er heillandi staður þar sem bíða náttúruunnenda og útivistarfólks jöklar, hömrum girtir fjallatindar, djúpir dalir, grænar grundir og svartir fjörusandar. Í Lækjarhúsum í Borgarhöfn í Suðursveit (11 km) eru í boði jeppaferðir, óvissuferðir og útsýnisferðir í litlum rútum. Frá Borgarhöfn eru 12 km að Hala í Suðursveit þar sem er kunnur veitingastaður, hlaðborð rétta úr heimafengnu hráefni og fróðlegt safn um einn kunnasta rithöfund Íslendinga á 20. öld. Frá Hala eru 14 km að hinu víðkunna Jökulsárlóni. 

Gestgjafar: Þóra og Þorsteinn. 

 

í nágrenni