Gistiheimilið Álfheimar á Borgarfirði eystra



Gistiheimilið Álfheimar á Borgarfirði eystra

Gistiheimili á Brekkubæ, bóndabýli við þorpið Bakkagerði á Borgarfirði eystra á Austfjörðum. Borgarfjörður eystri er rómaður fyrir einstæða náttúru, grösugan dal og tignarleg fjöll. Hér bíða göngufólks freistandi leiðir upp á tinda og yfir heiðar til eyðibyggða í næstu víkum og fjörðum. Hér er ríki lundans, heimur álfa og staður fyrir þá sem vilja njóta fegurðar og kyrrðar á björtum sumardegi. Opið frá 1. apríl til 1. nóvember. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sér baðherbergi
  • Fjölskylduherbergi 3+
  • Hefðbundinn búskapur
  • Wi-Fi
  • Veitingastaður
  • Vínveitingar
  • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
  • Aðstaða fyrir fatlaða
  • Fundar- / Ráðstefnuherbergi

Í nágrenni

  • Ævintýraland, kaffihús/veitingastaður, sánabað, heitir pottar og verslun á Bakkagerði (10 km)
  • Gönguferðir og fuglaskoðun
  • Lundi á Hafnarhólma (15.04-10.08)
  • Falleg göngusvæði eins og Stórurð og Dyrfjöll 
  • Egilsstaðir 70 km
  • Seyðisfjörður (ferjan Norræna) 100 km

Gistiaðstaða

17x2 manna herbergi með sérbaði í tveimur einnar hæðar húsum. Hægt að fá barnarúm. Aðgengi fyrir fatlað fólk. Ókeypis, þráðlaust netsamband á öllum herbergjum.

 
Veitingar, máltíðir

Á gistiheimilinu er veitingastaður með bar. Í boði eru máltíðir og léttar veitingar. Morgunverður er innifalinn í gistiverði. Lögð er áhersla á heimafengið hráefni, nýtt sjávarfang og afurðir frá bændum í sveitinni. Hægt að fá útbúið nesti áður en lagt er upp í lengri gönguferðir.

 
Þjónusta, afþreying

Gestir hafa aðgang að þvottahúsi. Veiðileyfi og reiðhjólaleiga. Leikvöllur fyrir börn. Í þorpinu eru verslun (400 m) og veitingastaðir. Kjarvalsstofa, safn um einn kunnasta málara Íslendinga, Jóhannes Kjarval (1885-1972), sem ólst upp á staðnum frá fimmta aldursári. Ævintýraland í gamla pósthúsinu, álfar og álfasögur fyrir börnin. Fuglaskoðun í Hafnarhólma þar sem lundinn og fleiri fuglategundir taka á móti gestum. Gönguleiðir til allra átta, meðfram ströndinni og upp til fjalla. Upplýsingar um gönguleiðir á gistiheimilinu; einnig hægt að fá göngukort. Næsta þéttbýli er Egilsstaðir (70 km). Til Seyðisfjarðar, þar sem ferjan Norræna leggur að bryggju, eru 100 km.

 
Paradís göngumanna og útivistarfólks

Borgarfjörður eystri er nyrstur hinna eiginlegu Austfjarða. Upp af firðinum gengur 10 km langur dalur, vel gróinn og nokkuð breiður. Beggja vegna rísa ægifögur fjöll. Mest ber þar á Dyrfjöllum sem seiða til sín göngufólk og náttúruunnendur. Henta Álfheimar vel sem dvalarstaður fyrir þá sem hafa unun af gönguferðum, hvort sem er meðfram ströndinni, um kyrrlátan dalinn eða upp til fjalla.

 
Eyðibyggðir við ysta haf

Yfir heiðar og um fjallaskörð suður af Borgarfirði eystra liggja heillandi gönguleiðir til eyðibyggða í Víkum og Loðmundarfirði. Vegarslóði fyrir ökutæki með fjórhjóladrif, til Húsavíkur og Loðmundarfjarðar, er opinn frá júlí fram í september. Allt þetta svæði er kjörlendi göngufólks, hvort sem ræðir um stuttar dagsferðir eða lengri ferðir með bakpoka og tjald. Nokkrum sinnum á sumri eru í boði skiplagðar gönguferðir með leiðsögumönnum, allt upp í 6 daga ferðir.

 
Stórurð – einstakt náttúrufyrirbæri

Vestan undir Dyrunum í Dyrfjöllum er Stórurð, sérstæð og mögnuð náttúrumyndun þar sem skiptast á björg af öllum stærðum, grænar tjarnir og grasi grónar lautir. Er þarna að finna verksummerki eftir jökul á síðustu ísöld. Hægt er að ganga að Stórurð frá nokkrum stöðum, eftir merktum leiðum, m.a. frá Bakkagerði og Vatnsskarði (þar sem vegurinn liggur til Borgarfjarðar eystri). Ætla má að taki lungann úr degi að ganga í Stórurð. Flestum verður það ógleymanleg náttúruupplifun.


Gestgjafar: Ásgeir, Arngrímur og Þórey.

 

í nágrenni