Eyjólfsstaðir á HéraðiEyjólfsstaðir á Héraði

Gisthús á friðsælum stað í fallegri sveit, aðeins 9 km í suður frá Egilsstaðaþorpi á Fljótsdalshéraði á Norðaustur Íslandi. Snyrtileg herbergi með sameiginlegri snyrtingu, uppbúin rúm. Morgunverðarsalur og setustofa. Skemmtilegar gönguleiðir um kjarri og skógi vaxið land. Góð staðsetning til dagsferða um Austurland. Opið frá 1. maí til 30. september. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Fjölskylduherbergi 3+
  • Wi-Fi
  • Golfvöllur í nágrenni

Í nágrenni

  • Egilsstaðir 9 km
  • Hestaleiga 5.5 km
  • Hallormsstaðaskógur (veitingastaður, gönguferðir and bátaleiga) 17 km
  • Skriðuklaustur, miðstöð menningar og sögu 30 km
  • Seyðisfjörður 44 km

Gistiaðstaða

Uppbúin rúm í tveggja, þriggja og fjögurra manna herbergjum (fjölskylduherbergi), alls 21 herbergi, í tvílyftu timburhúsi. Sameiginleg baðherbergi en handlaug í hverju herbergi. Í húsinu eru setustofur á báðum hæðum og rúmgóður morgunverðarsalur á neðri hæð. Ókeypis þráðlaust netsamband.

 
Veitingar/máltíðir

Tveggja eða þriggja rétta kvöldverður í boði fyrir hópa ef pantað er fyrirfram. Te og kaffi er í boði allan daginn án endurgjalds. Næstu matsölu- og veitingastaðir og matvöruverslanir á Egilsstöðum (9 km).

 
Þjónusta/afþreying

Leiksvæði fyrir börn. Skemmtilegar gönguleiðir. Hestaferðir á hrossaræktarbænum Útnyrðingsstöðum (5 km) og á Skipalæk í Fellum (12 km). 9 holu golfvöllur, par 35, er á Ekkjufelli (12,5 km). Næsta þéttbýli með verslunum, veitingastöðum, góðri og vel búinni sundlaug, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og ýmissi annarri þjónustu: Egilsstaðir (9 km). Reglulegar áætlunarferðir í innanlandsflugi (flugtími 1 klst.) milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Til Seyðisfjarðar, þar sem ferjan Norræna leggur að bryggju, eru 36 km.

 
Eyjólfsstaðaskógur – indæll staður fyrir náttúrubörn á öllum aldri

Eyjólfsstaðir eru gömul bújörð á Völlum eins og þessi hluti héraðsins nefnist. Fyrir meira en tveimur áratugum var hefðbundnum búskap hætt á jörðinni og þar er nú stunduð skógrækt. Eyjólfsstaðaskógur er að hluta í landi jarðarinnar. Skógurinn, í umsjá Skógræktar ríkisins, er tilvalinn útivistarstaður fyrir alla fjölskylduna; þar eru góðir göngustígar og rjóður með bekkjum og borðum og grill til afnota fyrir gesti. Hér er veðursælt og sumarfagurt enda fjölsóttar orlofshúsabyggðir í nágrenni Eyjólfsstaða.

 
Áhugaverðir staðir innan seilingar

Frá Eyjólfsstöðum er tilvalið að fara í kynnisferðir um Fljótsdalshérað. Af áhugaverðum stöðum má t.d. nefna Hallormsstaðaskóg og Atlavík (17 km), útivistarparadís fyrir alla fjölskylduna. Eftir viðdvöl í Hallormsstaðaskógi er fróðlegt að heimsækja menningar- og fræðslusetrið Skriðuklaustur (13 km frá Hallormsstað). Þar er einnig Snæfellsstofa, upplýsinga- og fræðslusetur um eystri hluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Í bakaleiðinni frá Skriðuklaustri er svo sjálfsagt að staldra við brekkurætur neðan við Hengifoss (6 km frá Skriðuklaustri), næsthæsta foss á Íslandi, og ganga upp að fossinum.

 
Austfirðir, íslensk náttúra og íslensk sjávarþorp

Á hinum eiginlegu Austfjörðum, sunnan við Fljótsdalshérað, eru vinsælar göngu- og ferðamannaslóðir. Þar ætti enginn að láta undir höfuð leggjast að heimsækja Borgarfjörð eystri (78 km), stað þar sem íslensk náttúra skartar sínu fegursta í stórbrotinni umgjörð litríkra fjalla. Um Fagradal liggur leiðin til Reyðarfjarðar (44 km), þar sem er áhugavert safn um sögu hernámsáranna á Austfjörðum. Um göng frá Reyðarfirði er svo ekið til Fáskrúðsfjarðar (17 km), smábæjar við fallegan fjörð þar sem er einstakt safn og aðrar minjar um franska skútusjómenn sem sóttu á Íslandsmið á síðari hluta 19. aldar og fram á þá 20. 

Gestgjafar: Karen Robertson og Vilborg Schram

 

í nágrenni