Hótel Staðarborg í BreiðdalHótel Staðarborg í Breiðdal

Snyrtilegt sveitahótel við þjóðveg 1 í Breiðdal, fallegri sveit á sunnanverðum Austfjörðum sem liggur vel við til skoðunarferða um Austur- og Suðausturland. 30 rúmgóð herbergi með sérbaðherbergi. Veitingastaður, hádegis- og kvöldverður. Hentar vel fyrir hópa. Gönguleiðir. Silungsveiði, gæsaveiði, fuglaskoðun. Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

 • Sér baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Wi-Fi
 • Heitur pottur
 • Veitingastaður
 • Vínveitingar
 • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
 • Sjónvarp inni á herbergjum
 • Aðstaða fyrir fatlaða
 • Fundar- / Ráðstefnuherbergi

Í nágrenni

 • Breiðdalsvík   km
 • Hestaleiga 17 km
 • Steinasafn Petru á Stöðvarfirði 24 km
 • Egilsstaðir 75 km
 • Hallormsstaðaskógur (hjólaleiga og veitingastaður) 80 km
 • Bátaleiga í Atlavík við Lagarfljót 81 km
 • Skriðuklaustur  (miðstöð menningar og sögu) 93 km
 • Snæfellsstofa (gestastofa og upplýsingamiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs) 93 km 

Gistiaðstaða

30 rúmgóð herbergi, tveggja manna og eins manns herbergi fyrir alls 54 gesti, öll með sérbaðherbergi og sjónvarpi. Vottað aðgengi og aðstaða fyrir hreyfihamlaða. Auk þess er svefnpokapláss á hótelinu og á lóðinni er tjaldstæði með eldunaraðstöðu, hreinlætisaðstöðu, sturtum og heitum potti. Ókeypis þráðlaust netsamband á herbergjum og í sameiginlegu rými.

 
Veitingar/máltíðir

Á hótelinu er veitingastaður með vínveitingaleyfi þar sem er framreiddur morgunverður, hádegisverður og kvöldverður auk þess sem hægt er að fá kaffi/te og meðlæti allan daginn.

 
Þjónusta/afþreying

Hestaleiga er á Staðarborg (1 klst. ferðir). Fallegar gönguleiðir í nágrenninu, inn til dala og upp til fjalla. Fjölskrúðugt fuglalíf. Í ósi Breiðdalsár má renna fyrir bleikju og við hótelið er tjörn þar sem hægt er að veiða silung allt að tveimur pundum (veiðileyfi á hótelinu við vægu verði). Gæsa- og rjúpnaveiði (leyfi hjá viðkomandi landeigendum í Breiðdal).

Golfvellir á Djúpavogi, Reyðarfirði og Eskifirði og skammt frá Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði. Næsta þéttbýli er þorpið Breiðdalsvík (7 km) þar sem er m.a. sundlaug með heitum potti, verslun með helstu nauðsynjavörur, bensínstöð, bifreiðaverkstæði, banki og póstafgreiðsla. Í þéttbýlinu á Egilsstöðum (75 km) eru stærri matvöruverslanir, góð sundlaug, ýmis þjónustufyrirtæki og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn (East Iceland Regional Information Centre). Reglulegt áætlunarflug á hverjum degi milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Til Seyðisfjarðar, þar sem ferjan Norræna leggur að bryggju, eru um 100 km. Til Reykjavíkur eru 625 km.

 
Breiðdalur – óskastaður göngufólks og fjallamanna

Breiðdalur er nokkuð víðlend sveit í faðmi hárra fjalla sem mörg eru ærið hvassbrýnd og hömrum girt hið efra og gefa landinu sterkan og heillandi svip. Hér er gröstugt á sumrin og víða vex kjarr í skjólbrekkum. Í Breiðdal eiga fjallamenn og göngufólk um margt að velja, hvort sem er í svarti sandfjörunni upp af Breiðdalsvík, út með ströndinni, inni í eyðidölum eða upp til fjalla þar sem gil, skörð og tindar freista þeirra sem vilja eitthvað á sig leggja til að njóta samvista við stórbrotna náttúru. Í Breiðdal eru gjöfular laxveiðiár og ágæt silungsvötn

 
Stöðvarfjörður – Steinasafn Petru – Franska safnið á Fáskrúðsfirði

Frá þorpinu Breiðdalsvík er ekið til Stöðvarfjarðar (24 km) eftir ágætum vegi um snarbrattar Kambanesskriður undir ægifögrum hamrafjöllum, Súlum. Stöðvarfjörður er stuttur og undirlendi lítið en frá þorpinu við fjörðinn er einhver stórfenglegasta fjallasýn sem um getur frá þéttbýli á Íslandi. Á Stöðvarfirði er Steinasafn Petru, fjölbreytt safn steina og steinda af Austurlandi, hið stærsta sinnar tegundar í heiminum og staður sem á engan sinn líka. Sé haldið áfram í norður er komið í Fáskrúðsfjörð (27 km frá Stöðvarfirði). Þorpið við botn fjarðarins er einkar hlýlegt og þar er m.a. gott safn og aðrar menjar um franska skútusjómenn sem höfðu hér bækistöð fyrir rúmri öld.

 
Áhugaverðir staðir á Fljótsdalshéraði – Borgarfjörður eystri

Upp frá Breiðdal liggur þjóðvegur 1 um Breiðdalsheiði til Fljótsdalshéraðs. Í Hallormsstaðaskógi (80 km) og Atlavík (reiðhjóla- og bátaleiga), er vinsælt útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna með gönguleiðum og leiksvæðum. Skammt frá Hallormsstað (17 km) eru Fræðslu-, mennta- og fornleifasetrið á Skriðuklaustri (17 km) og Snæfellsstofa, upplýsingamiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Hengifoss, næsthæsti foss á Íslandi, er einnig stuttan spöl (12 km) frá Hallormsstað. Frá Egilsstöðum eru 67 km til Borgarfjarðar eystri sem enginn náttúruunnandi lætur hjá líða að heimsækja þegar hann ferðast um Austurland.

Gestgjafi: Arnór. 

 

í nágrenni