Ytri-Vík á ÁrskógsströndYtri-Vík á Árskógsströnd

Gisting í sumarhúsum og í þriggja hæða steinhúsi (áður íbúðarhúsi á bænum) að Ytri-Vík á Árskógsströnd á vesturströnd Eyjafjarðar. Friðsæll staður við sjávarbakkann með glæsilegu útsýni yfir fjörðinn. Spennandi gönguleiðir og margt í boði til afþreyingar og útivistar, hvalaskoðun, sjóstangaveiði, reiðferðir, vélsleðaferðir o.fl.  Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

 • Bústaður
 • Heitur pottur
 • Eldunaraðstaða
 • Sjónvarp inni á herbergjum
 • Golfvöllur í nágrenni

Í nágrenni

 • Stuttar hestaferðir á hverjum degi
 • Sjóstangveiði og silungaveiði
 • Hvalaskoðun
 • Dalvík 14 km
 • Akureyri 20 km
 • Sundlaug, golf og veitingastaðir á Dalvík og Akureyri

Gistiaðstaða (allt frá 2ja manna til 16 manna hús)

 
Sumarhúsin

Tveggja manna húsin eru fjögur talsins (2x36 m2 og 2x26 m2). Í stærri húsunum er 1 svefnherbergi með 2x90 cm rúmum og einbreiðu kojuplássi fyrir ofan rúmin og tvíbreiðum svefnsófa í stofu, þar sem einnig er eldhús og borðstofa með sjónvarpi. Í minni húsunum er 1 svefnherbergi með 2x90 cm rúmum og tvíbreiðum svefnsófa í stofu sem einnig er eldhús og borðstofa með sjónvarpi. Lítil yfirbyggð verönd er við gafl á húsunum með heitum potti, kolagrilli og garðhúsgögnum.

Einnig 3x6 manna 50 m2 sumarhús með 2 svefnherbergjum (tvíbreiðu rúmi og einbreiðu kojuplássi fyrir ofan) og svefnlofti (rúmar allt að 6 manns á dýnum). Baðherbergi, vel búið eldhús og borð/setustofa með sjónvarpi. Stór verönd, yfirbyggð að hluta, með kolagrilli, garðhúsgögnum og heitum potti.

 
Gamla íbúðarhúsið

Gisting fyrir 16 manns í 7 herbergjum (2ja og 3ja manna), í þriggja hæða steinhúsi, fyrrum íbúðarhúsinu að Ytri-Vík sem reist var árið 1929. Húsið hefur verið endurbyggt og endurbætt reglulega síðan 1983 þegar ferðaþjónusta hófst á bænum. Í húsinu er fullbúið eldhús og borðstofa, sem rúmar 25 manns, og lítil setustofa. Í kjallara hússins er gufubað og búningsaðstaða fyrir gesti og stór heitur pottur við húsið. Á miðhæðinni eru tvö baðherbergi og ein sturta og í kjallaranum er sturta og klósett en þar er einnig gengið út í heita pottinn og gufubaðið.

Frítt þráðlaust netsamband er í 6-16 manna húsunum.

 
Máltíðir/veitingar

Gestir sjá um allar máltíðir sjálfir. Næsta matvöruverslun og matsölustaðir eru á Dalvík (14 km).

 
Þjónusta/afþreying

Daglegar hestaferðir, sjóstangaveiði og silungsveiði. Hvalaskoðun frá Dalvík (14 km) og Hauganesi (6 km). Gönguleiðir í grenndinni og í næstu sveitum. Berjatínsla síðsumars og rjúpnaveiði í vetrarbyrjun. Góð skíðalönd. Áætlunarsiglingar til Hríseyjar frá Árskógssandi (6,5 km). Byggða¬safn á Dalvík (14 km). Síldarminjasafn og Þjóðlagasetur á Siglufirði (48 km). Sundlaugar: Dalvík (14 km) og Þelamörk (20 km). Golfvellir hjá Dalvík og á Akureyri. Næsta þéttbýli með verslunum, matsölustöðum og ýmissi almennri þjónustu: Dalvík(14 km). Til Akureyrar, höfuðstaðar Norðurlands, eru 29 km frá Ytri-Vík.

 
Eyjafjörður – Akureyri

Eyjafjörður og sveitirnar, sem að honum liggja, meðfram ströndinni eða í grænum dölum milli tignarlegra fjalla, eru landsvæði sem hafa margt að bjóða ferðamönnum. Ytri-Vík liggur vel til skoðunarferða um héraðið, hvort sem halda skal í norður til Svarfaðardals, Ólafsfjarðar og Siglu¬fjarðar eða í suður til Öxnadals og Eyjafjarðarsveitar. Við botn fjarðarins tekur svo Akureyri, höfuðstaður Norðurlands, höfðinglega á móti gestum með iðandi mannlífi, fjölbreyttu menningarstarfi og skemmtanalífi.

 
Gönguleiðir hjá Ytri-Vík og í Svarfaðardal

Göngufólki bjóðast fjölmargir möguleikar á þessum slóðum. Fyrir ofan ströndina rís Kötlufjall og freistar fjallgöngumanna en norðan við Kötlufjall er Þorvaldsdalur með þægilegum gönguleiðum fyrir fólk á öllum aldri. Í Svarfaðardal, sem opnast eftir 12 km akstur í norður frá Ytri-Vík, einhver fegursti dalur á Íslandi, er paradís göngufólks og náttúrunnenda. Á Klængshóli í Skíðadal, eru í boði gönguferðir með leiðsögn og göngufólki má einnig benda á stikaða leið frá bænum Koti, fremst í Svarfaðardal, upp að Skeiðsvatni (45 mín.).

Gestgjafar: Marinó og Sveinn

 

í nágrenni