Hótel 1001 Nótt, Álfaási | AusturlandHótel 1001 Nótt, Álfaási | Austurland

Nýtt 16 herbergja, fjölskyldurekið hótel á einni hæð á bökkum Lagarfljóts, rétt sunnan við Egilsstaði. Öll herbergin eru með sérbaðherbergi, sérinngangi og lítilli verönd. Hótelið stendur í fallegu umhverfi, með útsýni yfir Lagarfljót og upp til fjalla. Fjölbreyttir möguleikar til göngu­ferða og afþreyingar í næsta nágrenni; góð staðsetning til skoðunarferða um Hérað og norðanverða Austfirði.

Opið: 15. mars til 15. nóvember

Veldu dagsetningar
Frá:23.598 kr.
hver dvöl
Senda fyrirspurn

Þjónusta

  • Sér baðherbergi
  • Heitur pottur
  • Vínveitingar
  • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
  • Sjónvarp inni á herbergjum
  • Golfvöllur í nágrenni
  • Aðstaða fyrir fatlaða

Gistiaðstaða

16x2 manna (tvö rúm/tvíbreitt) rúmgóð herbergi með sérbaðherbergi, sérinngangi og lítilli verönd. Flatskjár í hverju herbergi. Hótelið er allt á einni hæð og gott aðgengi fyrir fólk í hjólastól. Fyrir utan hótelið eru 2 sameiginlegir heitir pottar með útsýni yfir Lagarfljót. 

 
Máltíðir

Matsalur og bar eru á hótelinu. Morgunverður og veitingasala þar sem hægt er að velja úr nokkrum sérvöldum réttum. Næstu matsölu- og veitinga­staðir eru á Egilsstöðum (5 km).

 
Þjónusta, afþreying

Ýmis afþreying er í boði í grennd við Hótel 1001 nótt, hestaferðir (t.d. á Útnyrðingsstöðum (u.þ.b.1 km)) og fiskveiði. 9 holu golfvöllur, par 35, er á Ekkjufelli (11,5 km). Næsta þéttbýli með verslunum, veitingastöðum, sundlaug, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og ýmissi þjónustu fyrir ferðamenn: Egilsstaðir (5 km). Reglulegar áætlunarferðir í innanlandsflugi (flugtími 1 klst.) milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Ferjan Norræna leggur að bryggju á Seyðisfirði, en þangað eru 32 km.

 
Áhugaverðir staðir á Fljótsdalshéraði

Hótel 1001 nótt hentar vel til skoðunarferða og útivistar á Fljótsdalshér­aði. Ýmsir kostir eru í boði fyrir göngufólk og fjallamenn. Hallormsstaðaskógur og Atlavík eru útivistarparadís fyrir alla fjölskylduna og fróðlegt að heim­sækja menningar- og fræðslusetrið Skriðuklaustur. Hjá Skriðuklaustri er Snæfellsstofa, upplýsinga- og fræðslusetur um eystri hluta Vatnajökuls­þjóðgarðs. Í fögru veðri að sumarlagi er eftirminnilegt að aka upp úr Fljótsdal að Hálslóni og stíflunni við Kárahnúka (122 km).

 
Mannlíf og náttúrufegurð á Austfjörðum

Fyrir dvalargesti á Hótel 1001 nótt er tilvalið að bregða sér í dagsferðir til fjarðanna sunnan við Fljótsdalshérað. Seyðisfjörður (39 km) er snoturt sjávarþorp undir bröttum fjöllum, gamall þéttbýlisstaður á íslenska vísu. Um Fagradal liggur leiðin til Reyðarfjarðar (38 km); þaðan eru aðeins 15 km til Eskifjarðar og frá Eskifirði eru aðeins 22 km til Neskaupsstaðar um hin nýju Norðfjarðargöng. Frá Reyðarfirði er ekið um göng til Fáskrúðsfjarðar (17 km), smábæjar við fagran fjörð þar sem er einstakt safn og margt til minja um franska  skútusjómenn sem höfðu þar bækistöð á síðari hluta 19. aldar.

 
Stórurð og Borgarfjörður eystra

Borgarfjörður eystra (76 km) er vinsæll áfangastaður ferðamanna og náttúruunnenda, víðkunnur staður fyrir tignarlega fjallaumgjörð og einstæða náttúrufegurð. Af Vatnsskarði, á leið yfir til Borgarfjarðar eystra, er stikuð gönguleið yfir í Stórurð, mikið náttúruundur. Þegar hallar niður af skarðinu sunnan megin er komið í litríka veröld Njarðvíkur en á Borgarfirði eystra tekur lítið Bakkagerðisþorpið á móti ferðalöngum með ógleymanlegri fjallasýn.

Sérlega góðar aðstæður eru á Borgarfirði til að skoða lundann.

 

í nágrenni