Gistiaðstaða
Gisting í 4 herbergjum án baðs og 10 rúmgóðum herbergjum með baði, þar af herbergi með aðgengi fyrir fatlaða. 1 x 2ja manna sumarhús (1 svefnherbergi en einnig svefnsófi og svefnloft með dýnum). 6 smáhýsi við tjaldsvæði með snyrtingu.
Á staðnum er gott tjaldsvæði með ragmagnstenglum, Tjaldgestir hafa aðgang að litlu sameiginlegu eldhúsi, salernum og sturtum. Panta þarf fyrirfram stæði á tjaldsvæðinu. Lokað er fyrir alla umferð inn á svæðið frá 23:00-07:00.
Hundar eru leyfðir á ábyrgð eigenda á tjaldsvæðinu og í einu smáhýsi.
Þjónusta
Í Dæli er hugguleg sveitakrá/kaffihús með bar, Kaffi Sveitó, þar sem má fá máltíðir og léttar veitingar. Eldunaraðstaða fyrir gesti er í þjónustuhúsi við tjaldsvæði. Matsalur fyrir 60 manns. Ókeypis þráðlaus nettenging í veitingasal og í sumum herbergjum með sérbaði.
Afþreying
Hægt að fá veiðileyfi í hópið; Bergána, Víðidalsá ofan kolufossa og þá eru mörg vötn upp á Víðidalstunguheiði. Skemmtilegar mínigolfbrautir fyrir unga sem aldna; kylfur leigðar út á staðnum. Heitur pottur og gufubað í litlu baðhúsi. Næsta sundlaug er á Hvammstanga (24 km). Næsti golfvöllur er við Blönduós (41km). Næsta verslun á Hvammstanga.
Gönguleiðir á slóðum trölla
Frá Dæli liggur merkt gönguleið (1-1,5 km) að fossi með steinbrú yfir sem nefnist Steinbogi. Skemmtileg 5 km gönguleið er að Kolugljúfrum. Þar rennur Víðidalsá, ein þekktasta og besta laxveiðiá landsins, um stórbrotin gljúfur sem eru nokkrir tugir metra á dýpt. Tröllskessan Kola er sögð hafa grafið gljúfrin og átt þar síðan bústað. Í gljúfrunum eru Kolufossar.
Stefnumót við landseli
Frá Dæli er ekki langt að aka að vegamótum þar sem byrjar hringvegur (90 km) um Vatnsnes, hálendan skaga á milli Húnafjarðar að austan og Miðfjarðar að vestan. Þar eru ein aðgengilegustu og stærstu selalátur á Íslandi. Skoða má landseli í töluverðu návígi og ná af þeim góðum myndum í náttúrulegu umhverfi. Hjá bæjunum Illugastöðum, Svalbarði og Ósum hefur verið byggð upp aðstaða til selaskoðunar. Fræðast má svo nánar um seli og selveiðar í Selasetri Íslands í þorpinu Hvammstanga við Miðfjörð.
Áhugaverðir staðir og söguslóðir
Við hringveginn kringum Vatnsnes eru tvær furðusmíðar náttúrunnar, Borgarvirki og Hvítserkur, sérkennilegur, brimsorfinn 15 m hár klettur. Börn hafa gaman af því að ganga niður í fjöruna til að skoða klettinn. Frá Dæli er einnig tilvalið að aka yfir í næsta dal fyrir austan, Vatnsdal, og skoða t.d. Vatnsdalshóla.
Gestgjafar: Kristinn Rúnar og fjölskylda