Hótel SkógafossHótel Skógafoss

Hlýlegt, lítið sveitahótel nánast við hliðina á einum kunnasta fossi á Íslandi, Skógafossi, og í nábýli við hinn nafnfræga Eyjafjallajökul. Hótelið stendur við þjóðveg 1 á sunnanverðu landinu, á landsvæði sem skartar mörgum af fegurstu stöðum í íslenskri náttúru. Hentar vel til skoðunarferða um mið-Suðurland og lengri eða skemmri gönguferða um stórbrotið fjalllendi, mótað af ís og eldi. Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

 • Sér baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Wi-Fi
 • Veitingastaður
 • Vínveitingar
 • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

 • Þorvaldseyri Eldfjallasetur 10 km
 • Seljavallalaug 10 km
 • Seljalandsfossl 28 km
 • Vík 30 km
 • Landeyjahöfn 41 km
 • Hvolsvöllur 49 km
 • Þórsmörk 50 km

Gistiaðstaða

Um 20 herbergi í boði, öll með sérbaðherbergi. Eitt af stærri herbergjunum er með aðgengi fyrir fólk í hjólastól.

Þjónusta

Á veitingastað hótelsins, sem er ætlaður bæði hótelgestum og aðkomufólki, er morgun-, hádegis- og kvöldverður í boði, léttir réttir allan daginn o.fl. Við veitingastaðinn er verönd sem snýr í norður í átt að Skógafossi, í vestur og suður.
Ókeypis þráðlaust netsamband á öllum herbergjum.

Afþreying

Hótelið er á fjölsóttum áfangastað ferðamanna þar sem ýmis þjónusta er í boði, á staðnum eða í grennd við hann, t.d. vélsleðaferðir, jöklaferðir og hestaferðir. Eitt besta byggða- og minjasafn landsins, Skógasafn, er í göngufæri. Fjölbreytt úrval gönguleiða. Næsta þéttbýli með verslun, sundlaug og golfvelli er Hvolsvöllur (49 km).

Fossaniður og friðsæld á heiðum

Skógafoss, 60 m hár og 25 m breiður, er friðlýst náttúruvætti og einn þekktasti foss á Íslandi. Fossinn blasir við frá hótelinu og upp að honum er nokkurra mínútna gangur. Hægt er að ganga upp með fossinum (183 þrep). Frá brúninni er mikið útsýni í suður til hafs og sólsetrið fagurt. Í norður frá brúninni, um heiðaskarð á milli jökla, Fimmvörðuháls, liggur fjölsótt gönguleið (22 km) til Þórsmerkur. Indælt að bregða sér stuttan spöl inn á heiðarveginn til að njóta kyrrðar og nálægðar við náttúruna.

Náttúrugersemar og Eyjafjallajökull

Í sveitinni sunnan Eyjafjallajökuls, meðfram ströndinni, og í fjalllendinu þar ofan við eru margar frábærar gönguleiðir um stórskorið land. Í Gestastofu á Þorvaldseyri (10 km) má sjá sýningu og heimildarmynd um gosið í Eyjafjallajökli vorið 2010. Seljavallalaug (28 km) er jarðhitalaug í sérstæðri klettaumgjörð. Að hinum fræga Seljalandsfossi eru 28 km en til Þórsmerkur, einstakri náttúruperlu í skjóli jökla, eru um 50 km frá Hótel Skógafossi. Frá Landeyjahöfn (41 km) má taka ferju yfir til Vestmannaeyja.

Stefnumót við skriðjökul og höggmyndir náttúrunnar

Í austur frá Hótel Skógafossi er aðeins um 10 mín. akstur að Sólheimajökli, skriðjökli með djúpum gjám. Í boði eru gönguferðir við allra hæfi með leiðsögumanni að jöklinum og stuttan spöl inn á hann. Til Víkur eru um 30 km frá hótelinu. Á leiðinni eru kunnir staðir við svarta sandfjöruna eins og Dyrhólaey, Reynisfjara með einstæðum stuðlabergsmyndunum og Reynisdrangar.

Gestgjafar: Eyja Þóra og Jóhann. 

 

í nágrenni