Framúrskarandi fyrirtæki 2016Framúrskarandi fyrirtæki 2016

03.02.2017 | Bryndís Pjetursdóttir


Ferðaþjónusta bænda hf. hefur verið valið á lista framúrskarandi fyrirtækja 2016 samkvæmt styrk- og stöðugleikamati Creditinfo og er á meðal þeirra fyrirtækja sem efla íslenskt efnahagslíf. Þetta er í sjöunda skiptið sem fyrirtækið hlýtur þessa viðurkenningu eða samfellt frá árinu 2010.

Ferðaskrifstofan er á meðal 1,7% íslenskra fyrirtækja sem uppfylla skilyrði Creditinfo og hljóta þessa viðurkenningu en fyrirtækið var í 452. sæti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki ársins. Af tæplega 35 þúsund fyrirtækjum sem skráð eru í hlutafélagaskrá uppfylla 624 fyrirtæki skilyrði Creditinfo. Við mat er horft til þriggja ára tímabils og þurfa skilyrðin að vera uppfyllt öll árin.

Ferðaþjónusta bænda hf. er afar stolt af viðurkenningunni að teljast framúrskarandi fyrirtæki og vill nota tækifærið til að þakka starfsfólki, félögum í Félagi ferðaþjónustubænda og viðskiptavinum sínum fyrir það traust sem fyrirtækinu hefur verið sýnt.

Ferðaþjónusta bænda var stofnuð af íslenskum bændum árið 1980 en ferðaskrifstofan er enn í meirihluta eigu bænda. Forsaga fyrirtækisins nær þó allt aftur til ársins 1965 þegar erlendum ferðamönnum var fyrst boðið að dvelja á íslenskum sveitaheimilum gegn gjaldi. Í dag eru sölusvið ferðaskrifstofunnar tvö; Bændaferðir sem býður upp á innihaldsríkar pakkaferðir með íslenskri farastjórn um allan heim og Hey Iceland sem sérhæfir sig í ferðalögum á landsbyggðinni og býður upp á fjölbreytt úrval af gistingu hjá yfir 170 gististöðum af ýmsu tagi um land allt og afþreyingu við allra hæfi.

í nágrenni