Stefnumót hönnuða og bænda - Hali og Vogafjós



Stefnumót hönnuða og bænda - Hali og Vogafjós

29.03.2012 | María Reynisdóttir
 
Stefnumót hönnuða og bænda, samvinnuverkefni hönnuða og bænda Mýbiti Vogafjóssem tveir af meðlimum Ferðaþjónustu bænda tóku þátt í, er til sýnis í Spark Design Space, Klapparstíg 33 í Reykjavík. Sýningin opnaði á nýliðnum Hönnunarmars en hægt er að skoða sýninguna þangað til 19. maí 2012.

Stefnumót hönnuða og bænda er nýsköpunarverkefni Listaháskóla Íslands þar sem tveimur starfsstéttum er teflt saman með það að markmiði að þróa matarafurðir í hæsta gæðaflokki þar sem hönnun og rekjanleiki eru höfð að leiðarljósi. Verkefnið miðaði að því að hanna nýjar matvörur úr landbúnaðarafurðum.

Bændur á Hala í Suðursveit og í Vogafjósi við Mývatn tóku þátt í verkefninu sem spannaði árin 2007-2011 og endaði m.a. með framleiðslu á nýjum vörum fyrir veitingastaðinn í Þórbergssetri á Hala í Suðursveit.

Hali í Suðursveit
Bærinn Hali í Suðursveit er mitt á milli Hafnar í Hornafirði og Skaftafells. Hali er þekktur fyrir mikla sagnahefð sem enn lifir góðu lífi. Þórbergur Þórðarson, einn af merkustu rithöfundum 20. aldarinnar á Íslandi, fæddist og ólst upp á Hala.

Á Hala hefur verið rekið gistiheimili frá árinu 2005 sem getur hýst allt að fjörutíu gesti í eins, tveggja og þriggja manna herbergjum í tveimur húsum. Á Þórbergssetri er áhugavert safn ásamt veitingastað þar sem hægt er að fá veitingar m.a. með mat beint frá býli.

Bændurnir Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason hafa stundað fiskeldi frá árinu 2002 og sauðfjárstofninn á Hala telur 100 ær. Kjötið er notað í rétti á veitingastaðnum en þar er áhersla lögð á sveitamat, kjötsúpu, heimagerða kæfu, heimabakað brauð og rétti úr lambakjöti og bleikju. Hjónin á Hala eru einstaklega fróð um allt sem snýr að sögu Þórbergs og verkum og fá gestir svo sannarlega að njóta frásagnargáfu þeirra.

Með verkefninu Stefnumót hönnuða og bænda var hannaður nýr matseðill innblásinn af smekk og áhugamálum Þórbergs Þórðarsonar. Til dæmis hafði Þórbergur mikið dálæti á snúðum og þá má nú finna á matseðli Þórbergssseturs sem og rúgbrauðsrúllutertu með bleikju – eða kæfufyllingu, borna  fram með rauðrófu - eða appelsínu – og gulrótarsósu.

Vogafjós við Mývatn
Bærinn Vogafjós við Mývatn er með 20 herbergja gistihús, veitingasölu og sveitabúð. Áhersla er á heimagerðar afurðir beint frá búinu og einnig er boðið upp á að kaupa afurðir búsins í sveitabúðinni. Hægt er að horfa á þegar kýrnar eru mjólkaðar í fjósinu og er gestum boðið að smakka spenvolga mjólk beint úr kúnum.

Með verkefninu Stefnumót hönnuða og bænda var gerð tilraun til að hanna nýja heildarsýn fyrir veitingastaðinn, sem byggði á vöru sem var kölluð Mýbiti og er vandaður, staðbundinn skyndibiti. Mýbitinn er rúgbrauð, kúlulaga, með fyllingu af ýmsu tagi sem unnin er úr hráefni bóndans. Kúluskítur var innblásturinn í afurðina og pakkningarnar en Kúluskítur er grænþörungur sem myndar þéttar kúlur og finnst í Mývatni.

Gisting á Hala eða Vogafjósi
Því ekki að upplifa þessa skemmtilegu bæi og matinn sem þeir bjóða uppá, í eigin persónu? Frekari upplýsingar um bæi má finna hér.
 
Nánari upplýsingar, myndir, myndbönd ofl má nálgast á heimasíðu Stefnumóts hönnuða og bænda og á heimasíðu Spark Design Space.

Mynd: www.designersandfarmers.com

 



í nágrenni