Ferðaþjónusta bænda styður verkefnið „Fjársöfnun vegna Grímsvatnagoss“



Ferðaþjónusta bænda styður verkefnið „Fjársöfnun vegna Grímsvatnagoss“

25.05.2011 | Hildur Fjóla Svansdóttir
Eins og landsmönnum er kunnugt, hefur gosið í Grímsvötnum, sem hófst þ. 21. maí s.l. þegar valdið bændum og búaliði á því svæði, sem harðast hefur orðið úti af þess völdum, miklu tjóni og enn er ekki ljóst hversu víðtækt það er. Sem betur fer eru stofnanir og sjóðir í landinu sem bæta hluta þess skaða, sem gosið veldur, en lærdómur okkar af síðustu sambærilegum atburðum er sá, að margt er það sem út af stendur og verður ekki bætt með þeim hætti. Verða bændur því að óbreyttu að bera verulegan hluta af tjóninu sjálfir og er þar um svo stórar fjárhæðir að ræða fyrir einstaklingana, að slíkt myndi gera þeim ókleyft að halda áfram rekstri með sama sniði.
 
Því hefur nú verið ákveðið, að meðal fyrirtækja í landinu fari fram fjársöfnun til þess að mynda sjóð, er veiti bændum og þeirri starfsemi er þeir standa fyrir á þessu svæði,  fjárhagslegan stuðning eftir því sem söfnunarfé hrekkur til og hægt er að bæta með fjárstyrkjum. Söfnun þessi fer fram í nánu samráði við Samtök atvinnulífsins og hefur verið valin fjögurra manna verkefnisstjórn til að hafa umsjón með söfnuninni, skipuleggja hana og móta reglur. Þessa verkefnisstjórn skipa þau  Guðni Ágústsson, fv. landbúnaðarráðherra og framkvæmdastjóri SAM, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, form. Landssambands sauðfjárbænda ,  Sigurður Loftsson, form. Landssambands kúabænda og Hugrún Hannesdóttir, frá Ferðaþjónustu bænda.
 
Undirbúningur er þegar hafinn og hvetur verkefnastjórnin og Samtök atvinnulífsins öll fyrirtæki til þess að taka vel og hraustlega á með sér í þessa brýna verkefni.
 

í nágrenni