Fossatún í Borgarfirði opnar Kaffi Vínyl



Fossatún í Borgarfirði opnar Kaffi Vínyl

27.04.2011 | Hildur Fjóla Svansdóttir
 
Í Fossatúni sem er ferðaþjónustuaðili í Borgarfirðinum, hefur verið opnað kaffihúsið Kaffi Vínyll. Breyting hefur verið gerð á húsnæði og afgreiðsluaðstöðu. Boðið er upp á fjölbreyttar veitingar með áherslu á heimagert ljúfmeti, hádegishlaðborð, rétti dagsins, grillmeti o.fl. Á síðasta ári voru 700 vinylplötur settar upp í veitingasal á staðnum. Gestir í Fossatúni sýndu þessu mikinn áhuga og höfðu frammi óskir um að fá ákveðna tónlist með ákveðnum réttum. Þannig hefur það sannreynst að t.d. Shadows fara ákaflega vel með plokkfiski.
 
Um 3000 vinylplötur hafa nú verið settar fram sem gestir geta skoðað og fengið að hlusta á. Plötusafnið er eign Steinars Berg en hann var áður útgefandi íslenskrar tónlistar, umboðsmaður erlendra útgáfufyrirtækja og rak auk þess nokkrar plötubúðir. Safnið endurspeglar það sem hann hlustaði á frá á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum, þegar veldi vinylplötunnar reis hvað hæst. Þarna má finna margt það sem mestra vinsælda naut þessa þrjá áratugi en einnig mikið af tónlist sem ekki náði almannahylli nema kannski tíma- eða staðbundið. Einnig eru þarna margar sérstakar útgáfur s.s. myndvinylplötur, litaður vinyll, takmarkað upplag og aðrar sjaldgæfar útgáfur.
 
Þá eru á staðnum eðal-græjur til afspilunar. Forláta JVC beltisplötuspilari úr massivu mahogony, öflugur Pioneer magnari og Tannoy stúdíó hátalarar. Allt saman um 30-40 ára gamlar græjur í toppstandi. Hátalarnir eru sögufrægir því þeir voru lengi vel stærstu heimilis-hátalarar landsins og þegar fyrsta vörusýningin var haldin í Laugardalshöllinni á síðari hluta áttunda áratugarins voru þeir fengnir til afnota þar. Veitingasalurinn er skreyttur með gullplötum og nokkrum öðrum munum sem tengjast útgáfustarfssemi Steinars. Því til viðbótar er hægt að glugga í nokkra árganga tónlistartímarita og fletta bókum sem fjalla um þetta tónlistartímbil.
 
Fossatún er staðsett á bökkum Grímsár í Borgarfirði á heimili trölla. Það er að finna veitingastaðinn Kaffi Vinyl, tjaldsvæði, gistingu í uppbúnum rúmum, Tröllagarð og leiktæki fyrir börn og fullorðna. Einnig eru góðar gönguleiðir í nágrenninu.
 
Heimasíða Fossatúns.
 

í nágrenni