Þrír gististaðir innan Ferðaþjónustu bænda hljóta viðurkenningu Vakans



Þrír gististaðir innan Ferðaþjónustu bænda hljóta viðurkenningu Vakans

01.12.2015 | Bryndís Pjetursdóttir

Þrjú gistiheimili innan Félags ferðaþjónustubænda fengu viðurkenningu Vakans á Uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda sem haldin var hátíðlega þann 16. nóvember síðastliðinn á Hótel Natura. Þetta voru Gistihúsið Narfastöðum, Brunnhóll og Sólheimahjáleiga sem nú flokkast öll sem fjögurra stjörnu gistiheimili. Að auki fengu Narfastaðir gullmerki í umhverfiskerfi Vakans og Brunnhóll bronsmerkið.

Markmið Vakans er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu á Íslandi. Gæða- og umhverfisviðmið Vakans fela í sér viðameiri úttektir á starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu en áður hefur þekkst hér á landi

Narfastaðir – Laugum Þingeyjarsveit

 
Narfastaðir
 Á mynd frá vinstri: Alda Þrastardóttir frá Ferðamálastofu, Sigríður Diljá Vagnsdóttir sem tók við viðurkenningu Narfastaða og Áslaug Briem frá Ferðamálastofu.

Gistihúsið Narfastöðum er 43 herbergja fjölskyldurekið gistihús syðst í Reykjadal á milli Húsavíkur og Mývatns. Í umhverfi gistihússins er umfangsmikil skógrækt, fjölbreytt fuglalíf og fornminjar en verið er að leggja lokahönd á merktar gönguleiðir sem gefa ferðamönnum kost á að kynnast menningarsögunni á nýjan hátt. Gistihúsið Narfastöðum hlaut viðurkenningu Vakans sem 4ra stjörnu gistiheimili og gull umhverfismerki fyrir áherslu sínar í sjálfbærni og umhverfismálum. Gestgjafar á Narfastöðum eru þau Unnsteinn og Rósa en gistihúsið hefur verið rekið undir merkjum Ferðaþjónustu bænda frá árinu 1987, þegar faðir Unnsteins, Ingi Tryggvason hóf reksturinn.

Brunnhóll á Mýrum

Brunnhóll á Mýrum

Á mynd frá vinstri: Sigurlaug Gissurardóttir og Jón Kristinn Jónsson ferðaþjónustubændur á Brunnhóli.

 
Gistiheimilið Brunnhóll hefur verið rekið af Sigurlaugu Gissurardóttur og Jóni Kristni Jónssyni undir merkjum Ferðaþjónustu bænda frá árinu 1986. Í dag er boðið upp á gistingu í 22 herbergjum og veitingasölu auk hins margrómaða Jöklaíss sem framleiddur er á staðnum. Gistiheimilið Brunnhóll hlaut viðurkenningu sem fjögurra stjörnu gistiheimili og brons umhverfismerki Vakans.

 

Sólheimahjáleiga í Mýrdal

Sólheimahjáleiga í Mýrdal

Á mynd frá vinstri: Áslaug Briem frá Ferðamálastofu, Jónas Marinósson, Elín Einarsdóttir og Einar Freyr Elínarson ferðaþjónustubændur á Sólheimahjáleigu og Alda Þrastardóttir frá Ferðamálastofu, 

Sólheimahjáleiga er fjölskyldurekið gistihús og sveitabær sem leggur áherslu á friðsælt umhverfi fyrir gesti í nálægð við náttúru og búskap. Sama fjölskyldan hefur byggt upp staðinn frá 1850 og boðið upp á gistingu undir merkjum Ferðaþjónustu bænda frá árinu 1985. Sólheimahjáleiga hlaut viðurkenningu sem fjögurra stjörnu gistiheimili innanVakans en alls er boðið upp á gistingu í 19 herbergjum á Sólheimahjáleigu.  

Við hjá Ferðaþjónustu bænda óskum öllum þremur gististöðunum innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.

 

í nágrenni