Sólheimahjáleiga í MýrdalSólheimahjáleiga í Mýrdal

Sveitagisting í friðsælu umhverfi á dæmigerðum íslenskum bóndabæ í Mýrdal á sunnanverðu Íslandi með útsýni til jökla og aðeins 6 km frá Sólheimajökli. Herbergi með sér- og sameiginlegu baði. Merktar gönguleiðir. Góð staðsetning til skoðunarferða um þetta áhugaverða svæði suður undan Mýrdals- og Eyjafjallajökli.  

Opið allt árið. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

 • Sér baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Hefðbundinn búskapur
 • Wi-Fi
 • Vínveitingar
 • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
 • Eldunaraðstaða
 • Golfvöllur í nágrenni
 • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

 • Hestaleiga 7 km
 • Jöklagöngur og ísklifur á Sólheimajökul 9 km
 • Snjósleðaferðir á Mýrdalsjökul
 • Skógarfoss og byggðasafn 12 km
 • Dyrhólaey 18 km
 • Seljavallalaug 21 km
 • Vík 24 km
 • Reynisfjara, svört strönd og stuðlaberg 25 km

Gistiaðstaða

10x2 manna herbergi með sérbaðherbergi í sérbyggingu á bænum með stórri sameiginlegri verönd. 4x2 manna herbergi með sameiginlegri snyrtingu í „gamla húsinu“ (reist árið 1939). Tvö baðherbergi, sameiginleg stofa og eldhús. Ókeypis þráðlaust netsamband í matstofu. Þvottaðstaða.

 
Veitingar/máltíðir

Í viðbyggingu við hús ábúenda er veitingasalur. Morgunverður í boði. Kvöldverður er framreiddur frá kl. 19-21. Möguleiki á veitingum yfir daginn ef pantað er fyrirfram. Vínveitingar.  Í gamla húsinu er eldunaraðstaða fyrir gesti.

 
Þjónusta/afþreying

Á Sólheimahjáleigu, þar sem sama fjölskyldan hefur búið síðan 1850, er stundaður hefðbundinn búskapur með nautgripi, sauðfé, hross og hænur; gestum gefst kostur á að kynna sér búskapinn í samráði við gestgjafa. Merktar gönguleiðir í nágrenninu og víðar í Mýrdal. Hestaferðir, 1-4 klst., frá Völlum (7 km) og Mið-Hvoli (13 km). Vélsleða- og jeppaferðir á Sólheimajökul, jöklagöngur og ísklifur í boði hjá ferðaþjónustu á Ytri-Sólheimum. Skógafoss og Byggðasafnið á Skógum (12 km). Næsta þéttbýli með sundlaug, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, verslun og matsölustöðum: Vík í Mýrdal (24 km). Hjá Vík er 9 holu golfvöllur.

 
Dyrhólaey, Reynisfjara

Dyrhólaey (16 km) er friðlýstur höfði sem rís upp af svartri sandströndinni og snýr voldugum hamraveggjum til hafs og víðfrægu kennileiti, gatklettinum. Í höfðanum er auðugt fuglalífi á sumrin þar sem gefst færi á t.d. eiga stefnumót við lundann. Eilítið austar með ströndinni er Reynisfjara (23 km) undir Reynisfjalli. Þar má líta formfagrar stuðlabergsmyndanir og hellisskúta í klettum við fjörusandinn en skammt undan landi eru tröll, sem urðu að steini við sólarupprás, hamrastaparnir Reynisdrangar.

 
Sólheimajökull

Lengsti skriðjökull á Íslandi (12 km) ryður sér leið frá ísskildi Mýrdalsjökuls niður á láglendið (9 km að jökultungunni frá Sólheimahjáleigu). Vegur liggur frá þjóðvegi 1 að bílastæði nærri jöklinum. Frá nágrannabænum Ytri-Sólheimum eru í boði vélsleðaferðir og ferðir á sérbúnum jeppum á Mýrdalsjökul. Einnig eru í boði gönguferðir á jökli með tilheyrandi búnaði og leiðsögumanni.

 
Gönguleiðir í Mýrdal

Fjöll, dalir og heiðar upp af byggðinni í Mýrdal eru kjörið svæði til lengri eða styttri gönguferða við allra hæfi. Auk gönguleiða í nágrenni við Sólheimahjáleigu má benda t.d. á gönguleið upp á Reynisfjall, fyrir ofan þorpið Vík, og á svæðið sem opnast inn af Höfðabrekku (5 km austur af Vík). Auðvelt er að komast inn á þetta svæði þar sem áður lá þjóðvegur milli Mýrdals og sveitanna í austri. Hér má þræða fjölmargar áhugaverðar gönguleiðir allt inn að Þakgili og jökli þar sem eldstöðin Katla hvílir undir íshellunni.

 
Skógafoss, gos í Eyjafjallajökli, byggðasafnið á Skógum

Sá víðfrægi Eyjafjallajökull blasir við frá Sóheimahjáleigu. Við austurrætur hans er Skógafoss (10 km), ein af fossaperlum íslenskrar náttúru. Seljalandsfoss, þar sem hægt er að ganga á bak við fossbununa, er 28 km vestar. Leiðin þangað liggur um hrífandi fallega sveit undir suðurhlíðum jökulsins, byggðina sem mátti þola mesta öskufallið í gosinu árið 2010. Í Gestastofu á Þorvaldseyri [Eyjafjallajokull Visitor Centre] (20 km) er brugðið upp myndum frá þessum örlagaríku dögum vorið og sumarið 2010 og rakin saga eldgosa á Suðurlandi. Á Skógum (10 km) er fjölbreytt minja- og byggðasafn, m.a. nokkur gömul hús, sem öll fjölskyldan getur notið þess að skoða saman.

Gestgjafar:  Elín og Einar

 

í nágrenni