Félag ferðaþjónustubændaFélag ferðaþjónustubænda

 
Félag ferðaþjónustubænda er félag yfir 180 ferðaþjónustuaðila í sveitum landsins og vinnur félagið að ýmsum hagsmunamálum félagsmanna sinna. 

Græni burstabærinn

Gæðamerkið 'Ferðaþjónusta bænda' og græni burstabærinn er vöru- og gæðamerki félaga í Félagi ferðaþjónustubænda. Ennfremur er 'Hey Iceland' vörumerki sem notað er við markaðssetningu erlendis.

Flokkunar- og gæðaeftirlitskerfi

Hey Iceland notar sitt eigið flokkunar- og gæðaeftirlitskerfi þar sem aðbúnaður er flokkaður og metinn. Kerfið er viðurkennt af Ferðamálastofu.

Reglur um félagsaðild - PDF 
Flokkunarkerfi Hey Iceland 
Nánari upplýsingar fyrir þá sem hafa áhuga á aðild að félagsskapnum


Samþykktir Félags ferðaþjónustubænda

1. gr.
Heiti félagsins er Félag ferðaþjónustubænda, skammstafað FFB, og merki félagsins er burstarbær og/eða nafnið
Hey Iceland”.

2. gr.
Heimili og varnarþing félagsins er heimili formanns hverju sinni. Starfssvæði þess er landið allt.

3. gr.
Tilgangur félagsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunum þeirra, er selja hvers konar ferðaþjónustu í dreifbýli einkum á lögbýlum og vinna að þróun ferðamála í anda sjálfbærrar þróunar. Markmið félagsins er að skjóta styrkum stoðum undir að virðisauki af rekstri ferðaþjónustufyrirtækisins haldist heima í héraði.

4. gr.
Allir sem eiga lögheimili á lögbýlum og ætla sér að stunda ferðaþjónustu geta gerst félagar í FFB með samþykki stjórnar þess. Auk þess er stjórn heimilt að veita öðrum aðilum aðgang að félaginu enda falli starfsemi þeirra að ímyndHey Iceland. Til þess að fá kynningu á þjónustu sinni undir merkjum félagsins verður að framvísa fullgildum rekstrarleyfum og hafa fengið aðstöðuna viðurkennda af stjórn FFB. Forsenda félagsaðildar er að viðkomandi félagi standist þær kröfur og ímynd sem aðalfundur hefur ákveðið. Í vafamálum er hægt að vísa ágreiningsefnum til úrskurðarnefndar.

5. gr.
Aðalfundur kýs 5 manna stjórn og 5 til vara og skal hver sitja í 2 ár í senn. Ganga tveir út fyrsta árið þrír næsta ár og svo til skiptis. Stjórnarmenn skipta með sér verkum eftir hvern aðalfund. Þá kýs fundurinn 2 skoðunarmenn reikninga til eins árs í senn, og varamenn þeirra. Reikningar félagsins skuli skoðaðir af löggiltum endurskoðenda áður en þeir eru skoðaðir af skoðunarmönnum reikninga. Kjósa skal einn fulltrúa til Búnaðarþings og einn til vara til þriggja ára það ár sem búnaðarþingskosningar fara fram.

6. gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins, og skal hann haldinn fyrir 15. apríl ár hvert. Á aðalfundi skal stjórnin leggja fram starfsskýrslu og endurskoðaða reikninga síðasta starfsárs. Aðalfundur ákveður árgjald til félagsins til eins árs í senn. Hverju árgjaldi geta fylgt 2 atkvæði séu 2 aðilar skráðir fyrir þjónustunni. Hver aðili umfram 2 atkvæði greiðir ½ árgjald. Til aðalfundar skal boðað bréflega með þriggja vikna fyrirvara til allra félaga FFB. Aðalfundur er löglegur sé honum ekki mótmælt skriflega af minnst helmingi félagsmanna innan mánaðar. Aukafundi skal halda ef meirihluti þeirra er þar eiga rétt á sæti, krefst þess.

7. gr.
Atkvæðisrétt hafa allir félagsmenn er greitt hafa áfallin árgjöld sín til félagsins.

8. gr.
Burstabæjarmerkið og nafnið ”Ferðaþjónusta bænda” er merki Félags ferðaþjónustubænda og þeirra einstaklinga sem eru félagar í FFB.
a) Hver félagsmaður hefur rétt til að auglýsa undir þessu merki, enda hafi þeir greitt áfallin félagsgjöld.
b) Stjórn FFB er heimilt að fela FB h.f. umboð til að fara með eftirlit og framkvæmd um notkun
gæðamerkis í umboði FFB.
c) Telji stjórn FFB eða FB h.f., sem fer með notkun gæðamerkis í umboði FFB,að aðili (þ.m.t.
félagsmaður í FFB) noti merki og/eða nafn Ferðaþjónustu bænda” á þann hátt að það stríði gegn
hagsmunum annarra félagsmanna, félagsins í heild sinni eða FB h.f., sem fer með notkun
gæðamerkisins í umboði FFB, mega stjórn FFB og FB h.f. banna slíka notkun. FFB og FB h.f. geri
nánari samning um notkun gæðamerkisins.

9. gr.
Samþykktum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi. Skal þess getið í fundarboði og þarf til þess 2/3 hluta atkvæða. Efni tillagna til lagabreytinga skal kynna í fundarboði.

Síðast breytt á aðalfundi félagsins 25. mars 2010