Félag ferðaþjónustubændaFélag ferðaþjónustubænda

Félag ferðaþjónustubænda

 
Félag ferðaþjónustubænda er félag yfir 120 ferðaþjónustuaðila í sveitum landsins og vinnur félagið að ýmsum hagsmunamálum félagsmanna sinna. 

 
Græni burstabærinnHey Iceland logo

Græni burstabærinn hefur fylgt Félagi ferðaþjónustubænda (FFB) allt frá því að hagsmunafélagið var stofnað árið 1980.  Samhliða lógói FFB hefur græni burstabærinn verið vörumerki Ferðaþjónustu bænda / Icelandic Farm Holidays allt til haustsins 2016.  Þá var tekin sú ákvörðun að undangenginni ítarlegri grunnvinnu að taka upp nýtt vörumerki, þ.e. Hey Iceland sem hefur breiðari skýrskotun miðað við það breytta umhverfi sem félagar okkar í sveitum landsins standa fyrir í dag.  

 
Nánari upplýsingar fyrir þá sem hafa áhuga á aðild að félagsskapnum


Samþykktir Félags ferðaþjónustubænda

1. gr.
Heiti félagsins er Félag ferðaþjónustubænda, skammstafað FFB.

2. gr.
Heimili og varnarþing félagsins er skrifstofa Hey Iceland. Starfssvæði þess er landið allt.

3. gr.
Tilgangur félagsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunum þeirra er selja hvers konar ferðaþjónustu á landsbyggðinni með ábyrga ferðaþjónustu að leiðarljósi, sbr. „Reglur um félagsaðild að Hey Iceland“.

4. gr.
Félagsmerki félagsins er grænn burstabær sem stendur á hvítum grunni. Fyrir neðan merkið stendur Félag ferðaþjónustubænda í svörtu letri. Vörumerki félagsins er ,,Hey Iceland“. Litur vörumerkisins stendur á grænum grunni með hvítu letri. „Hey Iceland“ er vörumerki í sameiginlegri eigu FFB og FB hf.“ FB hf. fer með eftirlit og framkvæmd um notkun á vörumerkinu ,,Hey Iceland, sbr. „Reglur um notkun á vörumerkinu“.

5. gr.
Forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni sem hafa gert samstarfssamning við Ferðaþjónustu bænda hf. um aðild að Hey Iceland eru fullgildir félagar í Félagi ferðaþjónustubænda. Forsenda aðildar byggist á því að viðkomandi fyrirtæki vinni eftir „Reglum um félagsaðild að Hey Iceland“ og greiði árgjald til Félags ferðaþjónustubænda.

6. gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda árlega og eigi síðar en 15 apríl ár hvert. Til aðalfundar skal boða með rafrænum hætti og með minnst þriggja vikna fyrirvara. Aðalfundur er löglegur sé honum ekki mótmælt rafrænt af minnst helmingi félagsmanna innan mánaðar. Rétt til setu á aðalfundi með atkvæðisrétt, málfrelsi og tillögurétt hafa allir félagar sem greitt hafa árgjald síðasta árs. Á aðalfundi skal stjórnin leggja fram starfsskýrslu og endurskoðaða reikninga síðasta starfsárs. Aðalfundur ákveður árgjald til félagsins til eins árs í senn. Stjórn félagsins skal halda aukafund ef meirihluti þeirra er þar eiga rétt á sæti, krefst þess.

7. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum og til vara tveim félagsmönnum, kjörnum á aðalfundi félagsins til þriggja ára. Við val á stjórn skal leitast við að hafa kynjahlutfall sem jafnast. Skal stjórnarkjöri hagað þannig að á fyrsta ári skal kjósa einn stjórnarmann til eins árs, tvo til tveggja ára og tvo til þriggja ára. Þegar kjörtímabili þeirra lýkur verða svo kjörnir stjórnarmenn í þeirra stað til þriggja ára. Þannig koma stjórnarmenn mismunandi margir til kjörs á aðalfundi og er kjörtímabilið 3 ár. Enginn stjórnarmaður skal þó sitja lengur en þrjú kjörtímabil í röð. Varamenn skulu kjörnir til þriggja ára. Stjórnin skiptir með sér verkum.

Kjósa skal einn trúnaðarmann og einn til vara til tveggja ára í senn. Trúnaðarmaður er fulltrúi félaga í úrskurðarnefnd í ágreiningsmálum milli félaga og gæðanefndar FFB. Trúnaðarmaður má ekki sitja í stjórn á meðan hann gegnir hlutverki sínu.

Á Búnaðarþing sem haldið er annað hvert ár, skal kjósa einn fulltrúa og annan til vara. Heimilt er að ákveða að formaður hverju sinni sé sjálfkjörinn. Hitt árið er haldinn ársfundur Bændasamtaka Ísland og með atkvæðisrétt þar fara búnaðarþingsfulltrúar.

8. gr.
Hverju árgjaldi fylgja 2 atkvæði. Félagsmenn geta veitt öðrum aðilum sem tengjast rekstri þeirra umboð til að mæta fyrir sína hönd og greiða atkvæði. Umboðsmaður skal leggja fram umboð sitt á fundinum og skal það vera skriflegt og dagsett. Slíkt umboð gildir aldrei lengur en eitt ár.

9. gr.
Komi til ákvörðunar um slit á félaginu skal tillaga um það tekin fyrir á aðalfundi og skal þess getið í fundarboði. Ákvörðun er því aðeins lögmæt ef 2/3 hlutar fundarmanna samþykkja tillöguna.

10. gr.
Samþykktum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi. Skal þess getið í fundarboði og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða. Efni tillagna til lagabreytinga skal kynna í fundarboði.


Síðast breytt á aðalfundi félagsins 5. apríl 2019