SilfurbergSilfurberg

Silfurberg er gistihús, hannað á smekklegan og hugmyndaríkan hátt, á bænum Þorgrímsstöðum, innst í sveitinni Breiðdal á Suðaustur-Íslandi. Herbergin eru í endurinnréttaðri hlöðu og eru þau öll með sérbaðherbergi. Friðsælt umhverfi. Góð staðsetning til útivistar og dagsferða um Austurland. Opið frá 1. júní til 31. ágúst.

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver nótt á herbergi
Bóka núna
Loading...

Þjónusta

 • Sér baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Hefðbundinn búskapur
 • Frítt netsamband
 • Heitur pottur
 • Gufubað
 • Vínveitingar
 • Máltíðir í boði
 • Kreditkort
 • Tómstundaherbergi

Í nágrenni

 • Hestaleiga 6 km
 • Breiðdalsvík 30 km
 • Steinasafn Petru á Stöðvarfirði 47 km
 • Hallormsstaðaskógur 57 km (hjólaleiga og veitingastaður)
 • Bátaleiga í Atlavík við Lagarfljót 58 km
 • Egilsstaðir 55 km
 • Skriðuklaustur 70 km (miðstöð menningar og sögu)
 • Snæfellsstofa 70 km (gestastofa og upplýsingamiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs)
 • Hengifoss við Lagarfljót
 • Víknaslóðir göngusvæði (Borgarfjörður eystri/Seyðisfjörður)

Gistiaðstaða

Hlaða með 2ja manna herbergjum:  4x2 manna herbergi á efri hæð, ýmist búin tvíbreiðu hjónarúmi eða tveimur einstaklingsrúmum. Sérbaðherbergi með sturtu með hverju herbergi. Fallegt útsýni úr öllum herbergjum. Á neðri hæð eru borðstofa og setustofa. Sérstakir sturtuklefar fyrir heitan pott og gufubað sem eru til sameiginlegra nota fyrir alla gesti.

Gistiaðstaða á tveimur hæðum í hlöðu:  Á efri hæð er opið rými með tvíbreiðum svefnsófa og 2 einstaklingsrúmum, borði, stólum og eldhúskrók. Stórir gluggar og stórbrotið útsýni. Á neðri hæð er baðherbergi með sturtu.
  
Ókeypis þráðlaust netsamband á öllum herbergjum og í sameiginlegu rými.

  
Veitingar/máltíðir

Á Silfurbergi er lítill veitingastaður með vínveitingaleyfi. Hádegis- og kvöldverður í boði ef pantað er fyrirfram. Sé óskað eftir að fá kvöldverð í lok komudags eru gestir beðnir að panta hann með 24 klst. fyrirvara. Í boði er matur úr fyrsta flokks hráefni úr heimabyggð, fiskur, lambakjöt, hreindýrakjöt og grænmeti úr nærsveitum. Barinn er opinn á kvöldin eftir samkomulagi.

 
Þjónusta/afþreying

Aðstaða til íþróttaiðkunar. Heitir pottar. Gufubað. Völlur fyrir kúluspil. Skemmtilegar gönguleiðir í nágrenninu. Hestaleiga (6 km). Silungsveiði, hreindýraveiði, gæsaveiði. Dagsferðir til áhugaverðra staða á Austurlandi. Næsta þéttbýli er þorpið Breiðdalsvík (30 km) þar sem er m.a. lítil sundlaug með heitum potti, verslun með helstu nauðsynjavörur, bensínstöð, bifreiðaverkstæði, banki og póstafgreiðsla. Í þéttbýlinu á Egilsstöðum (55 km) eru stærri matvöruverslanir, góð sundlaug, ýmis þjónustufyrirtæki og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Reglulegt áætlunarflug á hverjum degi milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Til Seyðisfjarðar, þar sem ferjan Norræna leggur að bryggju, eru 80 km.

 
Hvíld og endurnæring fjarri ys borgarlífsins

Gistihúsið Silfurberg á Þorgrímsstöðum er kjörinn áningarstaður fyrir fagurkera, útivistarfólk og veiðimenn. Þorgrímsstaðir, bærinn þar sem listfengir gestgjafar taka á móti ferðamönnum, stendur innst í Suðurdal í Breiðdal, miðsvæðis á Austurlandi, stuttan spöl þaðan sem þjóðvegur 1 hlykkjast upp á heiðina sem skilur á milli Breiðdals og Fljótsdalshéraðs. Frá bænum er fallegt útsýni yfir dalinn þar sem Breiðdalsá bugðast niður dalinn milli tignarlegra fjalla með stórskornum giljum og fágætum litbrigðum. Margar skemmtilegar gönguleiðir eru í dalnum og nágrenni hans. Fuglalíf og dýralíf er fjölskrúðugt. Silungsveiði er í vatni uppi á Breiðdalsheiði og í næsta nágrenni eru gjöfular hreindýra- og gæsaveiðilendur.

 
Áhugaverðir staðir á Fljótsdalshéraði – Borgarfjörður eystri

Breiðdalur, miðsvæðis á Austurlandi, er kjörin bækistöð fyrir þá sem vilja kynnast mannlífi, menningu og stórbrotinni náttúru þessa landshluta. Á Fljótsdalshéraði má nefna staði eins og Hallormsstaðaskóg (57 km) og Atlavík (reiðhjóla- og bátaleiga), vinsælt útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna með gönguleiðum og leiksvæðum. Skammt frá Hallormsstað (17 km) eru Fræðslu-, mennta- og fornleifasetrið á Skriðuklaustri (17 km) og Snæfellsstofa, upplýsingamiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Hengifoss, næsthæsti foss á Íslandi, er einnig stuttan spöl (12 km) frá Hallormsstað. Frá Egilsstöðum eru 67 km til Borgarfjarðar eystri sem er sannkölluð náttúruperla.

 
Steinsafn á Stöðvarfirði, franskir skútusjómenn, Papey

Frá Silfurbergi er tilvalið að bregða sér í dagsferðir um næstu firði Norðan við Breiðdalsvík er Stöðvarfjörður, en frá þorpinu við fjörðinn er einhver stórfenglegasta fjallasýn á byggðu bóli á Íslandi. Á Stöðarfirði er stórt og gott steinasafn, Steinasafn Petru. Sé haldið áfram í norður er komið í Fáskrúðsfjörð. Þorpið við botn fjarðarins er einkar hlýlegt og þar er m.a. gott safn og aðrar menjar um franska skútusjómenn sem höfðu hér bækistöð fyrir rúmri öld. Til Djúpavogs, við mynni Berufjarðar, næsta fjarðar sunnan við Breiðdalsvík, eru 48 km um fjallveginn Öxi en 92 km meðfram ströndinni. Þar eru í boði m.a. skoðunarsiglingar út í eyna Papey þar sem hafa fundist menjar um byggð allt frá landnámsöld.

Gestgjafar: Guðrún og Jón. 

 

í nágrenni