GeirshlíðGeirshlíð

Gisting með sameiginlegum baðherbergjum í hlýlegu sérhúsi á dæmigerðum íslenskum bóndabæ í Borgarfirði á suðvestur-Íslandi. Tilvalið fyrir barnafjölskyldur og þá sem vilja komast í kynni við húsdýr í íslenskri sveit. Fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar í nágrenninu, gönguleiðir við byggðina eða upp til fjalla, sund, golf, frægar náttúruperlur og vinsælir ferðamannastaðir á vestanverðu landinu. Opið 1. júní - 31. ágúst 2017 fyrir herbergi með uppbúin rúm og morgunverði.  Á veturna er húsið leigt út í heilu lagi.

Veldu dagsetningar
Frá:14.622 kr.
hver nótt á herbergi
Senda fyrirspurn

Þjónusta

 • Sameiginlegt baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Hefðbundinn búskapur
 • Wi-Fi
 • Máltíðir í boði
 • Eldunaraðstaða

Í nágrenni

 • Veitingahús 7 km
 • Sundlaug 7 km
 • Deildartunguhver 8 km
 • Golf 9 km
 • Reykholt 12 km
 • Hestaleiga 22 km
 • Húsafell 30 km
 • Hraunfossar 30 km
 • Borgarnes 33 km
 • Surtshellir 44 km

Gistiaðstaða

5 herbergi deila saman 3 baðherbergjum með sturtu. Gistihúsið er íbúðarhús sem var reist árið 1948 en allt gert upp árið 2011. Reynt var að halda í gamla stílinn með húsgögnum og innréttingum. Viður úr gamla torfbænum var notaður í gólfið, klæðningu og hurð þegar efsta hæðin var innréttuð. Húsið er á þremur hæðum. Vel búið eldhús og gistirýmin eru á fyrstu og annarri hæð en dagstofa á jarðhæð.

Á veturna er möguleiki á að leigja húsið út í heilu lagi, tilvalið fyrir fjölskyldur og minni vinahópa.

Máltíðir/veitingar

Morgunverður er innifalinn í gistiverði. Kvöldverð þarf að panta fyrirfram. Við matreiðslu er einkum notast við hráefni frá bænum og úr sveitinni. Á morgunverðarhlaðborði er töluvert af heimatilbúnum mat, t.d. brauð, kökur, sultur, mjólk og egg. Einstaklega ferskt grænmeti sem er tínt daglega á nálægu garðyrkjubýli.

 
Þjónusta

Í Geirshlíð er búið með kýr, sauðfé, hesta, endur, hænur, ketti, hunda og fleiri gæludýr. Gestum er velkomið að fylgjast með dýrunum og kynnast þeim betur.
Ókeypis þráðlaust netsamband í eldhúsi og stofu.
Þvottaaðstaða. Heitur pottur fyrir utan húsið.

 
Afþreying

Skemmtilegar gönguleiðir í dalnum og í grennd við hann. Skoðunarferðir um Borgarfjörð. Hestaleiga á Ölvaldsstöðum (25 km) og á Giljum í Hálsasveit (22 km). Geitfjársetrið í Háafelli (30 km). Tröllagarðurinn í Fossatúni (11 km). Veitingastaðurinn Byrgishóll í Nesi í Reykholtsdal (9 km). Steðji brugghús í Flókadal (5 km). Næsta sundlaug á Kleppjárnsreykjum (7 km). 9 holu golfvöllur í Nesi (9 km) og 18 holu golfvöllur (Hamarsvöllur) við Borgarnes (33 km). Næsta þéttbýli: Borgarnes (33 km); verslanir, matsölu- og veitingastaðir, söfn, sundlaug og ýmis þjónusta við ferðafólk.

 
Náttúruupplifun í byggð og í heiðanna kyrrð

Landslag í Borgarfirði er margbreytilegt. Á láglendinu er að finna ýmsar náttúrugersemar og undurfagra staði og á heiðum, fjöllum og jöklum ofan sveitarinnar eru freistandi slóðir fyrir göngugarpa og fjallamenn.

 
Hverir, fossar, hellar og jökull

Deildartunguhver (8 km) er vatnsmesti hver í Evrópu (180 l/sek.). Hraunfossar (29 km) eru einstæð náttúrusmíð þar sem tært bergvatn fossar undan kjarri vöxnu hrauni og út í jökulfljótið Hvítá. Skammt frá Hraunfossum (5 km) er Húsafell, vinsæll útivistar- og ferðamannastaður við jaðar hálendisins. Þar er m.a. sundlaug, golfvöllur og veitingastaður og skemmtilegar gönguleiðir. Frá Fljótstungu (12 km frá Húsafelli) eru í boði daglegar, klukkustundarferðir með leiðsögumanni í stærsta hraunhelli á Íslandi, Víðgelmi. Frá þessum slóðum er ekki langt upp að rótum Langjökuls; ferðir á jökulinn eru í boði nokkurra ferðaþjónustuaðila.

 
Hérað sem geymir sögur og minningar um fornar kempur

Í Borgarfirði hefur margt borið sögulegt til tíðinda síðan á landnámsöld og þar er sögusvið ýmissa kunnra Íslendingasagna. Í Reykholti (12 km) er miðaldasetur og safn, Snorrastofa, tileinkað kunnasta rithöfundi Íslendinga fyrr og síðar, Snorra Sturlusyni (1179-1241). Þar er einnig heit laug, kennd við Snorra, og má sjá göngin að lauginni þar sem hann var veginn árið 1241. Í Borgarnesi (34 km) er Landnámssetrið þar sem er sýning um landnám Íslands á 9. og 10. öld og um skáldið og víkinginn Egil Skallagrímsson.

 
Hlýlegur dalur, dýrleg norðurljós og útsýn yfir landið

Bærinn Geirshlíð er norðan megin í Flókadal, litlum og grunnum dal sem gengur inn í heiðarnar ofan við Borgarfjörð. Beggja megin dalsins eru fremur lágir hálsar; hér nýtur sólar allt árið og á veturna gefast oft tækifæri til að horfa á sjónarspil norðurljósanna. Hálsinn fyrir ofan bæinn er grösugur og auðveldur uppgöngu; þaðan er fallegt útsýni um Borgarfjörð og vestur á Snæfellsnes. Sama ætt hefur búið í Geirshlíð síðan árið 1791. Bæjarstæðið hefur verið á sama stað svo öldum skiptir; hér var búið í torfbæ til ársins 1948 þegar flutt var í húsið sem nú er gistiheimili.

Gestgjafar: Hulda og Pétur

 

í nágrenni