Bjarnargil í FljótumBjarnargil í Fljótum

Gisting á bóndabæ í hlýlegum dal í faðmi fjalla í sveitinni Fljótum, nær því nyrst á skaganum á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Þrjú herbergi með sameiginlegu baðherbergi og svefnpoka¬pláss á svefnlofti. Góðar gönguleiðir, hvort sem er á láglendi eða upp til fjalla. Skoðunarferðir í næstu byggðarlög, til Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Ýmis afþreying í boði á og í grennd við Siglufjörð (24 km). Opið frá 20. júní til 15. september.

Frá:16.500kr
hver nótt
Veldu dagsetningar
Senda fyrirspurn

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Máltíðir í boði
  • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

  • Tröllaskagi
  • Siglufjörður 27 km
  • Síldarminjasafnið Siglufirði
  • Þjóðlagasetur Siglufirði
  • Vesturfarasetrið Hofsósi 38 km
  • Sundlaug á Siglufirði og Hofsósi

Gistiaðstaða

2x2 manna herbergi og 1x1 manns herbergi á neðri hæð íbúðarhússins með aðgangi að tveimur sameiginlegum baðherbergjum, setustofa með sjónvarpi. Viðarklætt svefnloft með svefnpokaplássi á þakhæð.

 
Veitingar/máltíðir

Morgunverður er innifalinn í gistiverði en kvöldverð verður að panta fyrirfram.

 
Þjónusta/afþreying

Góðar gönguleiðir í nágrenninu. Fjallgöngur fyrir hópa með leiðsögu-manni eru í boði ef pantað er með góðum fyrirvara. Sundlaug (7,5 km). Hraundúnn, handverksgallerí (7,5 km). Golf: „Golfvöllurinn á 66. breiddargráðu“ í Lónkoti í Skagafirði (22 km) og Hólsvöllur á Siglufirði (24 km). Hestaleiga, Fjallahestar á Sauðanesi (22 km). Skíðsvæði á Siglufirði. Næsta þéttbýli með sundlaug, verslunum, veitingastöðum, söfnum og ýmissi þjónustu við ferðamenn: Siglufjörður (24 km).

 
Dalakyrrð og fjallaheimur

Sveitin Fljót er fallegur staður í góðviðri á sumrin og hér gefast mörg tækifæri til að njóta náttúrunnar á göngu um dalinn eða úti við ströndina. Fyrir fjallafólk er þetta svæði með nær óþrjótandi möguleika. Á Tröllaskaga, þ.e. skaganum á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar eru hæstu fjöll á Íslandi utan við miðhálendið, mörg þeirra með hvössum eggjum og sundur skorin af giljum og þröngum dölum. Þetta er eitt af vinsælustu göngusvæðum fjallamanna á Íslandi.

 
„Síldarbærinn“ Siglufjörður

Til bæjarins Siglufjarðar eru aðeins 24 km, út með ströndinni í norður um Strákagöng. Siglufjörður var afskekkt, lítið þorp allt fram undir 1900 þegar Norðmenn tóku að veiða síld við Ísland og settu upp síldarstöðvar á Siglufirði. Þá varð hér til á nokkrum árum fjölmennur bær, miðstöð síldveiða á Íslandi allan fyrri hluta 20. aldar, stundum nefnd „Klondyke Atlantshafsins“. Nú er síldarævintýrinu lokið en Siglufjörður er á sínum stað við ysta haf, líflegur bær sem tekur vel á móti ferðamönnum. Þar er sjálfsagt að skoða Síldarminjasafnið og áhugafólk um þjóðlagatónist ætti að heimsækja Þjóðlagasetrið.

 
Siglufjörður – Ólafsfjörður - Svarfaðardalur

Frá Siglufirði er ekið um Héðinsfjarðargöng til Ólafsfjarðar sem er dæmigerður íslenskur bær þar sem sjávarútvegur er aðalatvinngrein. Frá Ólafsfirði er svo opinn akvegur á sumrin um Lágheiði til baka í Fljótin. Áður en þangað er haldið er vel þess virði að aka í suður um Ólafsfjarðargöng til þorpins Dalvíkur og njóta náttúrufegurðar í dalnum sem þar opnast til vesturs, Svarfaðardal.

 
Vesturfarasetrið á Hofsós, Hólar í Hjaltadal

Frá Fljótum er tilvalið að bregða sér í dagsferðir um Skagafjörð. Af áhugaverðum áfangastöðum má nefna þorpið Hofsós (36 km), þar sem er Vesturfarasetrið, safn um sögu og örlög þeirra Íslendinga sem fluttust til Kanada og Bandaríkjanna á seinni hluta 19. aldar. Nokkru sunnar eru Hólar í Hjaltadal (62 km), biskups- og menntasetur í sjö aldir, frá 1106-1798. Á Hólum er steinkirkja, vígð árið 1763, og Auðunarstofa, endurgerð timburstofu sem stóð á Hólum frá 1316 til 1810.

Gestgjafar: Sigurbjörg og Trausti

 

In the area