GeirakotGeirakot

Fjölskyldurekið, vinalegt gistiheimili á bænum Geirakoti á sléttlendinu skammt sunnan við þéttbýlið á Selfossi, aðeins 10 mín. akstur frá suðurströndinni. Herbergi í sérhúsi þar sem gestir deila 2 baðherbergjum, eldhúsi, rúmgóðri setustofu og matstofu. Hentugur gististaður fyrir þá sem hafa hug á að heimsækja marga kunnustu ferðamannastaði á sunnanverðu landinu. Opið frá 1. apríl til 10. september. 

Veldu dagsetningar
Frá:8.400 kr.
hver nótt á herbergi
Senda fyrirspurn

Þjónusta

 • Sameiginlegt baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Hefðbundinn búskapur
 • Wi-Fi
 • Eldunaraðstaða

Í nágrenni

 • Jarðhitasundlaug á Selfossi 5 km
 • Flói fugla- og náttúrusvæði 8 km
 • Húsið byggðasafn á Eyrarbakka 8 km
 • Icelandic Wonders Museum á Stokkseyri 9 km
 • Kajakferðir á Stokkseyri 9 km
 • Hestaleiga 11 km
 • Þingvellir 48 km
 • Geysir 65 km

Gistiaðstaða

Gistiheimilið er í gömlu en hlýlegu húsi á bæjarhlaðinu. Þrjú herbergi eru á efri hæðinni og 2 á jarðhæðinni. Eldhús, stofa, borðstofa og tvö baðherbergi eru á jarðhæðinni. Sjónvarp er í stofunni og frítt þráðlaust netsamband er í öllu rýminu.

 
Veitingar/máltíðir

Morgunverður er innifalinn í gistiverði. Góð eldunaraðstaða í sameiginlegu eldhúsi. Næstu veitingastaðir og matsöluverslanir eru á Selfossi (4 km). Bendum einnig á veitingastaðina Rauða húsið í þorpinu Eyrarbakka og Fjöruborðið í þorpinu Stokkseyri; þorpin eru bæði við ströndina, í um 10 mín. akstur frá Geirakoti.

 
Þjónusta/afþreying

Leiksvæði fyrir börn. Í Geirakoti er rekinn hefðbundinn búskapur og gestum er velkomið að líta inn í fjósið og kynnast daglegu lífi á íslenskum sveitabæ. Á bænum eru seldar handprjónaðar lopapeysur. Hestaferðir í boði á nokkrum stöðum í héraðinu, t.d. hjá Sólhestum í Ölfusi (11 km) og Eldhestum í Ölfusi (14 km). Safn um álfa, tröll og norðurljós (Icelandic Wonders Museum) og kajakasiglingar á Stokkseyri (11 km). Húsið, byggðasafn á Eyrarbakka (9 km). Flúða-siglingar á jökulánni Hvítá (56 km). Hveragarðurinn í gróðurhúsaþorpinu Hveragerði (15 km). Sögusetrið á Hvolsvelli (52 km). Á Selfossi (4 km) er góð sundlaug með barnasundlaug, rennibraut og leiktækjum. Við Selfoss er 9 holu golfvöllur og hjá Hveragerði (15 km) er 9 holu golfvöllur í fallegu umhverfi þar sem eru m.a. rjúkandi hverir. Næsta þéttbýli með verslunum, veitingastöðum og allri almennri þjónustu: Selfoss (4 km).

 
Þorpin við ströndina, hraunfjara og brimniður

Geirakot er skammt frá þjóðbrautinni sem liggur frá Selfossi, fjölmennasta þéttbýli á Suðurlandi, niður að ströndinni þar sem öldur Atlantshafs falla að fallegri fjöru og brotna með þungum dyn á fjölbreyttum hraunmyndunum og úfnum skerjagarði. Við ströndina eru tvö þorp, Stokkseyri og Eyrarbakki, sem er vel þess virði að heimsækja á meðan dvalið er í Geirakoti. Þegar herðir vind og þungt er í sjóinn er tilkomumikið að ganga þar niður í fjöruna og fylgjast með og hlusta á brimgarðinn undan ströndinni.

 
Geysir, Gullfoss, Þjórsárdalur, Seljalandsfoss, Vestmannaeyjar

Allar kunnustu náttúruperlur á Suður-Íslandi eru innan seilingar í hæfilegum dagsferðum frá Geirakoti. Inn til landsins, í uppsveitum héraðsins, þar sem mikið ber á hinu alræmda og heimsfræga eldfjalli Heklu, bíða okkar staðir eins og jarðhitasvæðið við Geysi, Gullfoss og heillandi útivistar- og göngusvæði í Þjórsárdal, við rætur Heklu við suðurjaðar miðhálendisins. Í austri frá Geirakoti blasir við í fjarska ísskjöldur Eyjafjallajökuls. Í undirhlíðum jökulsins, suðvestanmegin, er hinn kunni Seljalandsfoss (73 km). Undan ströndinni rísa Vestmannaeyjar úr sæ en þangað eru daglegar ferjusiglingar (35 mín) frá Landeyjahöfn (83 km).

 
Náttúrulaugar, Þingvellir, Reykjavík, Bláa lónið

Fyrir innan gróðurhúsabæinn Hveragerði (15 km) er Reykjadalur, vinsælt göngusvæði þar sem er talsverður jarðhiti og má finna náttúrulegar laugar þar sem jarðhitavatn blandast saman við tæra fjallalæki og er engu líkt að bregða sér í bað. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum (48 km) er undurfallegur staður; enginn ætti að láta hjá líða að eiga þar dagstund og njóta stórbrotinnar náttúrufegurðar á þessum sögufrægu slóðum þar sem hið forna Alþingi var sett í fyrsta skipti árið 930 og íslenska lýðveldið var stofnað árið 1944. Til höfuðborgarinnar, Reykjavíkur, eru svo aðeins 48 km. Í Bláa lónið [Blue Lagoon Geothermal Spa] eru um 90 km (ekið um veg nr. 427, Suðurstrandarveg).

Gestgjafar: María og Ólafur. 

 

í nágrenni