Gistiaðstaða
Gisting í íbúðarhúsi fyrir ofan hlaðið á bænum í Stekkjardal. Húsið er rúmgott, á tveimur hæðum, 4 svefnherbergi, 2 stofur og eldhús. Sjónvarp, þvottavél, þurrkari og frystir. Þráðlaust netsamband. Í afgirtum sérgarði á bak við húsið er útigrill. Húsið er leigt út í heilu lagi. Tilvalið fyrir fjölskyldur eða vinahópa.
Afþreying
Í Svínavatni er töluverð silungsveiði og veiðileyfi í vatninu er innifalið í gistingu sumar og vetur. Í nágrenninu eru margar helstu veiðiár og vötn landsins sem bjóða uppá fjölbreytta veiðimöguleika. Á Blönduósi er frábær sundlaug með vatnsrennibrautum, heitum pottum og gufubaði (25 km). Fjár- og stóðréttir eru í Auðkúlurétt á haustin (200 m). Landið í kring er þægilegt til styttri gönguferða. Næsta verslun er á Blönduósi (25 km). Skíðasvæðið í Tindastóli við Sauðárkrók er í innan við klukkutíma akstursfjarlægð. Boðið er uppá flúðasiglingar við hæfi hvers og eins í nágrenninu. Golfvöllur er við Blönduós og þar er einnig starfrækt hestaleigan Galsi. Á Blönduósi eru einnig áhugaverð söfn s.s. Laxasetur Íslands, Eyvindarstofa, Heimilisiðnaðarsafnið og Hafíssetrið.
Íslensk sveit að sumri og vetri
Sléttárdalur er grösugur dalur sem gengur fram á heiðalönd upp af einu blómlegasta landbúnaðarhéraði á Íslandi. Frá Stekkjardal liggja leiðir til allra átta um þessar sagnaríku slóðir. Víða eru áhugaverðir staðir fyrir ferðamenn og landslag hlýlegt í dölum milli gróinna hálsa og fjalla þar sem glitrandi laxveiðiár renna til sjávar. Á vetrum fær landið annað svipmót. Á heiðskírum vetrarkvöldum gefst oft tækifæri til að sjá norðurljósin dansa yfir snævi þöktum tindum.
Áhugaverðir staðir í nágrenninu
Af kunnum stöðum innan hæfilegrar ökuseilingar frá Stekkjardal má nefna Vatnsnes, milli Miðfjarðar og Húnafjarðar, þar sem eru ein stærstu selalátur á Íslandi. Við hringleiðina um Vatnsnes má einnig sjá Hvítserk, eitt af kunnustu kennileitum íslenskrar náttúru, brimsorfinn klett í fjöruborði. Í Vatnsdal eru Vatnsdalshólar sem mynduðust í miklu berghlaupi áður en land byggðist.
Hveravellir er jarðhitasvæði norðan undir Kjalhrauni, eitt af stærstu hverasvæðum landsins. Frægasti útilegumaður Íslands, Fjalla Eyvindur, dvaldist þar um skeið ásamt Höllu konu sinni. Á Hveravöllum er að finna náttúrulegan heitan pott.
Hrútey er skrautfjöður í hatti Blönduóssbæjar, umlukin jökulánni Blöndu og skartar fjölbreyttum gróðri og fuglalífi. Á Þingeyrum stendur ákaflega sérstök og fögur kirkja byggð úr steini, vígð 1877.
Kálfshamarsvík er lítil vík á norðanverðum Skaga. Þar eru sjávarhamrar úr fallega formuðu stuðlabergi er myndaðist fyrir u.þ.b. tveimur milljónum ára, sérkennileg náttúrusmíð.
Gestgjafar: Ægir og Gerður