Gistiaðstaða
4x4 manna smáhýsi (35 m2) með tvíbreiðu rúmi og koju og 4x2 manna smáhýsi (22 m2) með tvíbreiðu rúmi. Eldhúskrókur, baðherbergi með sturtu, sjónvarp, DVD-spilari og útvarp/geislaspilari í hverju húsi. Við hvert hús er lítil verönd með heitum potti og grilli. Lágmarksdvöl: 2 nætur.
Máltíðir/veitingar
Gestir sjá um allar máltíðir sjálfir. Næstu matvöruverslanir og veitingastaðir í Hveragerði (3 km). Einnig eru veitingastaðir t.d. á Hótel Eldhestum (4 km) og á Selfossi (15 km).
Þjónusta/afþreying
Áhugaverðar gönguleiðir um dali og fjalllendi inn af gróðurhúsaþorpinu Hveragerði. Skipulagðar gönguferðir með leiðsögumanni í boði hjá Iceland Activities í Hveragerði, hjólaleiga og brimbrettaleiga. Hestaferðir hjá Eldhestum (4 km). Safn um álfa, tröll og norðurljós (Icelandic Wonders Museum) á Stokkseyri (30 km) þar sem einnig er kajakaleiga. Húsið, byggðasafn á Eyrarbakka (26 km). Hveragarðurinn [Geothermal Park] í Hveragerði (3 km). 9 holu golfvöllur í fallegu umhverfi í grennd við jarðhitasvæði fyrir innan Hveragerði (5 km). Góð jarðhitasundlaug í Hveragerði (Laugaskarð). Næstu þéttbýli með verslunum, veitingastöðum og ýmissi almennri þjónustu við ferðamenn: Hveragerði (3 km) og Selfoss (15 km). Til höfuðborgarsvæðisins eru 36 km. frá Núpum.
Gróðurhúsaþorpið, gönguleiðir, náttúrulaugar
Þorpið Hveragerði er sérstakt að því leyti að það stendur nánast á jarðhitasvæði og varð reyndar til laust fyrir miðja síðustu öld í kringum umfangsmikla grænmetis- og blómarækt í gróðurhúsum. Fyrir innan þorpið er Reykjadalur, vinsælt göngusvæði og útivistarsvæði. Hér er víða hiti í jörðu og má finna náttúrulegar laugar þar sem jarðhitavatn blandast saman við tæra fjallalæki í grasi grónum hvömmum og litríkum giljum. Flestum er það ógleymanleg upplifun að slaka á í þessum laugum úti í kyrrlátri og óspilltri náttúrunni.
Geysir, Gullfoss, þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Frá Núpum má bregða sér í dagsferðir um sveitirnar á undirlendi Suðurlands og heimsækja margar af kunnustu náttúruperlum á Íslandi. Inn til landsins, þar sem eldfjallið Hekla trónir yfir sveitunum, eru heimskunnir staðir eins og jarðhitasvæðið við Geysi (66 km) og fossinn Gullfoss (76 km), fegursti foss á Íslandi. Til þjóðgarðsins á Þingvöllum, sem á sér fáa líka að náttúrufegurð, eru 48 km frá Núpum. Þingvellir eru nánast helgur staður í augum Íslendinga; þar var hið forna Alþingi sett í fyrsta skipti árið 930 og íslenska lýðveldið var stofnað á Þingvöllum 17. júní árið 1944.
Reykjanesskagi, Krýsuvík, Bláa lónið
Núpar standa við veg nr. 380/427, Suðurstrandarveg, en hann liggur meðfram suðurströnd Reykjanesskaga í gegnum útvegsþorpið Þorlákshöfn til útgerðarbæjarins Grindavíkur (74 km). Landslag á Reykjanesskaga er mótað af eldsumbrotum og jarðhita og býr yfir sérstæðri fegurð. Þar er áhugavert t.d. að skoða jarðhitasvæðið í Krýsuvík (53 km), en flestir ferðamenn leggja þó leið sína í hið heimskunna Bláa lón, jarðhitabaðstað umlukinn úfnu hrauni (6 km frá Grindavík). Frá Núpum eru 100 km til Keflavíkurflugvallar eftir Suðurstrandarvegi.
Gestgjafar: Dagbjört og Jóhann.