Skarð í BreiðdalSkarð í Breiðdal

Gisting í sérhúsnæði á bóndabæ í Norðurdal, inn af Breiðdal, miðsvæðis á Austfjörðum. Breiðdalur er víðlend sveit þar sem ár liðast til sjávar um gróið sléttlendi og yfir gnæfa bláir tindar með hamrastöllum og hvössum hornum. Náttúrufegurð er við brugðið og svæðið laðar til sín göngu- og útivistarfólk. Skarð er um 10 km frá vegamótum við veg nr. 95 sem liggur um Breiðdalsheiði yfir til Fljótdalshéraðs. Opið frá 1. maí til 30. september. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver nótt á herbergi
Bóka núna
Loading...

Þjónusta

 • Sameiginlegt baðherbergi
 • Sér baðherbergi
 • Hefðbundinn búskapur
 • Wi-Fi

Í nágrenni

 • Góðar gönguleiðir
 • Hestaleiga 25 km
 • Breiðdalsvík 20 km
 • Steinasafn Petru á Stöðvarfirði 38 km
 • Egilsstaðir 83 km
 • Hallormsstaðaskógur (hjólaleiga og veitingastaður) 87 km
 • Bátaleiga í Atlavík við Lagarfljót 89 km
 • Hengifoss við Lagarfljót 94 km
 • Skriðuklaustur (miðstöð menningar og sögu) 99 km
 • Snæfellsstofa (gestastofa og upplýsingamiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs) 99 km

Gistiaðstaða

1x2 manna herbergi með sérbaðherbergi og 3x1 manns herbergi með sameiginlegu baði. Herbergin ásamt rúmgóðri setustofu/borðstofu eru í sérálmu á bóndabænum, aðskilin frá hýbýlum ábúenda í Skarði. Ókeypis þráðlaust netsamband.

 
Máltíðir

Morgunverður er innifalinn í gistiverði.

 
Þjónusta, afþreying

Gönguferðir með leiðsögn og einnig stendur gestum til boða að ekið sé með eða náð í þá fyrir og eftir gönguferðir. Þessa þjónustu verður að panta fyrirfram. Á bænum eru til sölu hefðbundnar íslenskar lopapeysur sem húsfreyjan á Skarði prjónar í höndunum. Næsta þéttbýli með verslun, útimarkaði, sundlaug með heitum potti, bifreiðaverkstæði og banka er á Breiðdalsvík (20 km). Til Egilsstaða á Fljótsdalshéraði eru 83 km. Til Seyðisfjarðar, þar sem ferjan Norræna leggur að bryggju, eru 110 km um Breiðdalsheiði.

 
Fossar, sandfjörur og sjaldséðir steinar

Í Breiðdal er margt sem gleður augu ferðamannsins. Fossinn Beljandi er í Breiðdalsá og Flögufoss, 60 m hár, í Flöguá, utarlega í Suðurdal (stutt og létt gönguleið að fossinum frá vegi). Meleyri, ströndin fyrir innan þorpið Breiðdalsvík, auðug að fuglalífi, er freistandi til gönguferða með alla fjölskylduna. Kambanes, á milli Breiðdalsvíkur og næsta fjarðar fyrir norðan, Stöðvarfjarðar, er tilvalið til útivistar í fögru veðri. Á Stöðvarfirði (38 km) er Steinasafn Petru, sjálfsagður áfangastaður ferðamanna og ekki síst þeirra sem hafa áhuga á sjaldséðum og fallegum steinum.

 
Óskaland fjallgöngufólks

Fjöllin í Breiðdal, heiðar og skörð, eru undraheimur fyrir göngufólk og fjallamenn. Rétt hjá Skarði er gönguleið um Jórvíkurskarð (426 m) yfir til Suðurdals, allbrött upp á skarðið (11/2 klst.). Skammt frá bænum hefst einnig gönguleið yfir til Stöðvarfjarðar. Gengið er um stórbrotið landslag á Reindalsheiði og um Reindalsheiðarskarð (881 m) þar sem komið er að ruddri leið með vörðum niður í dalinn inn af Stöðvarfirði (4-5 klst.). Húsráðendur á Skarði bjóðast til að ná í göngumenn að lokinni gönguferð; panta verður með fyrirvara.

 
Á fjörðum og Héraði

Breiðdalur er miðsvæðis á Austfjörðum og liggja þaðan vegir til ýmissa áhugaverðra staða í næstu byggðarlögum. Skemmtileg og falleg ökuleið er til næstu fjarða í norðri, Stöðvarfjarðar, Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar (um Fáskrúðsfjarðargöng). Til Hallormsstaðar eru 87 km um Breiðdalsheiði. Þar er einn gróskumesti skógur á Íslandi, fallegt útivistarsvæði (reiðhjólaleiga, bátaleiga í Atlavík, veitingastaður). Menningar- og sögusetur er á Skriðuklaustri (99 km). Á Skriðuklaustri er einnig Snæfellsstofa, þjónustumiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

Gestgjafar: Ásdís og Sigurður 

 

í nágrenni