Hrosshagi 2 í BláskógabyggðHrosshagi 2 í Bláskógabyggð

Sumarhús fyrir 4, tilvalin gisting fyrir fjölskyldu. Sumarhúsið er í göngufæri við bæinn Hrosshaga í Biskupstungum á Suðurlandi og staðurinn hentar vel fyrir skoðunarferðir til allra þeirra staða sem hafa mest aðdráttarafl fyrir ferðamenn í þessum landshluta. Fallegt útsýni yfir grösugar sveitir til fjalla. Á jörðinni er stunduð skógrækt. Gönguleiðir og auðugt fuglalíf. Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:16.000 kr.
hver nótt á herbergi
Senda fyrirspurn

Þjónusta

 • Bústaður
 • Hefðbundinn búskapur
 • Heitur pottur
 • Eldunaraðstaða
 • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

 • Jarðhitasundlaug og veitingastaður á Reykholti 5 km
 • Skálholt 8 km
 • Flúðasigling á Hvítá 14 km
 • Geysir 23 km
 • Kerið 26 km 
 • Laugarvatn Fontana Spa heilsulind 27 km
 • Gullfoss 33 km
 • Þingvellir 43 km

Gistiaðastaða

Sumarhúsið er hlýlegt og vel búið. Eitt svefnherbergi með hjónarúmi og koju. Svefnsófi í dagstofu og hægt að fá aukarúm. Baðherbergi með sturtu. Eldhúskrókur. Verönd með heitum potti.

 
Máltíðir/veitingar

Gestir sjá sjálfir um alla matseld. Hægt að fá léttar veitingar í Reykholti (5 km), matsölustaðir eru á Flúðum (16 km), á Geysi (24 km) og Laugarvatni (27 km).

 
Þjónusta/afþreying

Næstu verslanir eru í Reykholti (5 km) og á Flúðum (16 km). Fleiri og stærri verslanir með meira vöruúrvali eru á Selfossi (40 km). Nýtt grænmeti er hægt að kaupa á garðyrkjustöðvum í nágrenninu. Næsta sundlaug er í Reykholti (5 km). Önnur en minni sundlaug er í Úthlíð (15 km). Laugarvatn Fontana Spa, heilsulind með heitum pottum, gufubaði og sundlaug, er á Laugarvatni (20 km).

Golfvellir eru hjá Úthlíð (15 km), Geysi (25 km), í Efra-Seli hjá Flúðum (16 km) og í Miðdal, skammt frá Laugarvatni (20 km). Flúðasiglingar og kanósiglingar á Hvítá (10 km). Hestaleiga á nokkrum stöðum. Hefðbundinn búskapur er stundaður í Hrosshaga og gestir eru velkomnir í fjósið. Í Efsta-Dal (15 km) er ferðamannafjós þar sem hægt er að fylgjast með kúnum og bústörfum í gegnum gler. Í Íshlöðunni við fjósið er hægt að fá kaffi og heimtilbúinn ís og á efri hæðinni er veitingastaður með mat beint frá býli.

 
„Höfuðstaður Íslands“ í Skálholti

Skálholt (8 km) er staður sem gegndi ekki síðra hlutverki í sögu Íslendinga en þingstaðurinn á Þingvöllum. Skálholt var í reynd „höfuðstaður“ Íslands í margar aldar. Þar var biskupssetur frá 1056 til 1796 og mikið fræða- og menntasetur í kaþólskum og lúterskum sið. Í Skálholti var stærsta kirkja sem reist hefur verið á Íslandi (17 öld) og var hún miklu stærri en núverandi kirkja þar sem reist var 1963. Í Skálholti er fagurt um að litast yfir landið á sólbjörtum degi.

 
Geysir, Strokkur og Gullfoss

Hversvæðið við Geysi í Haukadal (23 km) er einn kunnasti áfangastaður ferðamanna til Íslands og hefur verið svo í meira en tvær aldir. Frægasti goshver í heimi, Gamli Geysir, bærir nú ekki lengur á sér en skammt frá honum er Strokkur sem gýs myndarlega á 10 til 15 mín. fresti. Frá Geysi eru svo 10 km að kunnasta og að flestra dómi fallegasta fossi á Íslandi, Gullfossi.

 
Kerið og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Kerið í Grímnesi (26 km) er alldjúpur gígur með tjörn í botni, staður sem lætur ekki mikið yfir sér fyrr en staðið er á gígbarminum. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum (43 km) er þjóðargersemi og við brugðið fyrir náttúrufegurð. Þar var þingstaður Íslendinga í nær 9 aldir og þar var íslenska lýðveldið formlega stofnað 17. júní 1944. Þingvellir eru víðkunnur staður í heimi jarðfræðinnar því að að þar má sjá á þurru landi skilin milli Ameríku- og Evrasíu-flekans.

Gestgjafar: Sigríður og Gunnar. 

 

í nágrenni