Hótel Búrfell í Mýrdal



Hótel Búrfell í Mýrdal

Hótel Búrfell er hlýlegt gistihús á bænum Steig í Mýrdal, undir brekkurótum með útsýni til hafs og jökla, 1,5 km frá þjóðvegi 1 skammt frá suðurströnd Íslands undir Mýrdals- og Eyjafjallajökli. Öll herbergi eru með sérbaðherbergi. Kvöldverður í boði á sumrin. Merktar gönguleiðir og fjölbreyttir útvistarmöguleikar. Góð staðsetning til skoðunarferða í Mýrdal og undir Eyjafjöllum.

Opið frá 15. janúar til 30. september. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

  • Sér baðherbergi
  • Wi-Fi
  • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
  • Golfvöllur í nágrenni
  • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

  • Mýrdalsjökull 
  • Dyrhólaey 10 km
  • Jarðhitasundlaug og golf í Vík 14 km
  • Snjósleðaferðir á Sólheimajökul, jöklagöngur og ísklifur 17 km
  • Reynisfjara 18 km
  • Skógafoss 20 km
  • Skógar byggðasafn 20 km

Gistiaðstaða

20 x 2ja manna herbergi með sérbaðherbergi. Hægt er að bæta við aukarúmi og/eða barnarúmi. Eitt herbergi með aðgengi fyrir hreyfihamlaða.

 
Veitingar/máltíðir

Morgunverður er innifalinn í gistiverði. Kvöldverður í boði á sumrin ef pantað er fyrirfram. Næsta matvöruverslun í þorpinu Vík í Mýrdal (16 km). Nokkrir matsölu- og veitingastaðir eru á svæðinu.

 
Þjónusta/afþreying

Gönguleiðir í grennd við Hótel Búrfell og víðar í Mýrdal. Hestaferðir frá tveimur bæjum í sveitinni, Völlum (6 km) og Mið-Hvoli (6 km). Vélsleðaferðir á Sólheimajökul, jöklagöngur og ísklifur (17 km). Skógafoss og fróðlegt og skemmtilegt byggðasafn á Skógum (20 km). Næsta þéttbýli með sundlaug, verslun og matsölustöðum: Vík í Mýrdal (16 km). Hjá Vík er 9 holu golfvöllur. 

 
Paradís göngufólks, leiðir við allra hæfi

Hjá Steig lá áður alfaraleið svo öldum skipti upp frá bænum um byggðirnar á milli sandanna sem jökulár frá Mýrdalsjökli hafa myndað og eru enn að bæta við. Leiðin var af lögð í upphafi bílaaldar en enn má sjá móta fyrir sneiðingum upp hálsinn ofan við Steig. Hér er freistandi að setja á sig gönguskó og kanna heiðalöndin, hálsa, gil og dalskvompur á Steigarhálsi og upp frá honum. Í norður frá bænum rís Búrfell sem fjallgöngufólki þykir verðugt að reyna sig við. Af öðrum gönguslóðum í Mýrdal má nefna svæðið upp frá Höfðabrekku (5 km austur af Vík), ævintýraheim fyrir þá sem vilja njóta hlýlegrar og um leið stórbrotinnar íslenskrar náttúru.

 
Lundabyggð í Dyrhólaey, Reynisfjara

Dyrhólaey (10 km), friðlýstur höfði með standbjörgum sjávarmegin og auðugu fuglalífi á sumrin, er einn helsti viðkomustaður ferðamanna í Mýrdal. Eilítið austar með ströndinni er Reynisfjara (18 km) þar sem úthafsalda fellur á svartan sand undir sérstæðum stuðlabergsmyndunum og hellisskútum; staður sem býr yfir miklu seiðmagni.

 
Sólheimajökull, ferðir á Mýrdalsjökul

Sólheimajökull, lengsti skriðjökull á Íslandi, ryður sér leið frá ísskildi Mýrdalsjökuls niður á láglendið (17 km að jökulrótum frá Steig). Ferðaþjónustan á Ytri-Sólheimum (10 km) býður vélsleðaferðir og ferðir á sérbúnum jeppum á Mýrdalsjökul. Einnig eru í boði jökulgöngur með leiðsögumanni og ísklifur fyrir fótliðuga og handsterka fullhuga.

 
Skógafoss, Seljalandsfoss, áhugavert byggðasafn

Jökullinn, sem lét flugfarþega finna fyrir mætti sínum vorið 2010, Eyjafjallajökull, blasir við frá Steig. Við austurrætur hans er Skógafoss (20 km), undurfagur og frægur að verðleikum. Seljalandsfoss, annar kunnur foss, er 28 km vestar og liggur leiðin um hrífandi og stórbrotið landslag. Á Skógum (20 km) er fjölbreytt minja- og byggðasafn sem öll fjölskyldan hefur ánægju af að skoða.

Gestgjafi: Marinó Freyr Steinþórsson

 

í nágrenni