Gistiaðstaða
Fallega innréttaðar íbúðir fyrir tvo gesti en möguleiki er að bæta við barnarúmi eða bedda fyrir börn ef óskað er eftir.
Veitingar/máltíðir
Ekki eru máltíðir í boði á staðnum, en allur búnaður er fyrir gesti til að elda sjálfir. Næsta verslun er að Freysnesi sem er í 3 km fjarlægð.
Þjónusta/afþreying
Merktar gönguleiðir í þjóðgarðinum í Skaftafelli; þar eru einnig í boði, göngu-, fjalla- og jöklaferðir með leiðsögn. Bátsigling eru á Fjallsárlóni (ca 40 km) og á Jökulsárlóni (ca 50 km). Á sumrin eru daglegar ferðir frá Hofsnesi í Ingólfshöfða með heyvagni aftan í dráttarvél. Sundlaug er á Kirkjubæjarklaustri (76 km) og á Höfn (125 km). Söluskáli er í Freysnesi (3 km) þar sem hægt er að fá ýmsa matvöru og eldsneyti. Næsta stærri matvöruverslun, með fjölbreyttara úrvali er á Kirkjubæjarklaustri.
Einstæð náttúruupplifun í stórfenglegu umhverfi
Yfir Svínafelli gnæfir Öræfajökull með hæsta tindi landsins, Hvannadalshnúk (2.110 m). Frá honum ganga margir skriðjöklar og að einum þeirra, Skaftafellsjökli, er auðveld gönguleið við allra hæfi frá Skaftafelli.
Skaftafell – ein af gersemum íslenskrar náttúru
Frá Svínafelli er stuttur akstur að þjóðgarðinum í Skaftafelli (friðlýstur árið 1967) sem nú er hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Hér taka á móti okkur kjarri grónar hlíðar, tröllslegir fjallatindar, glitrandi íshamrar, kolgrá jökulfljót og svartir sandar: náttúrufegurð sem á fáa sína líka. Góð veðurskilyrði og úrval gönguleiða gera Skaftafell að kjöráfangastað þeirra sem vilja ganga á vit ævintýra. Hér eru merktar gönguleiðir við allra hæfi. Stuttar og auðveldar leiðir að Svartafossi og Skaftafellsjökli en lengri leiðir t.d. í Morsárdal, á Skaftafellsheiði og Kristínartinda. Vatnajökulsþjóðgarður rekur gestastofu í Skaftafelli.
Auðugt fuglalíf og hrífandi útsýni af Ingólfshöfða
Beggja vegna Svínafells eru miklir jökulsandar. Til vesturs er Skeiðarársandur og Breiðamerkursandur fyrir austan. Þar renna til sjávar nokkur jökulfljót í mörgum farvegum, álum og lænum. Ingólfshöfði, sem kenndur er við fyrsta landnámsmanninn, er sunnan við Fagurhólsmýri og Hofsnes. Ingólfshöfði er friðlýstur. Í höfðanum er fjölskrúðugt fuglalíf, gullnáma fyrir fuglaáhugmenn, og mikið útsýni til landsins og með ströndinni til beggja átta. Það er sérstæð upplifun að fara í traktorskerruferð frá Hofsnesi (4 km) út í Ingólfshöfða.
Gestgjafar: Regína og Klaus