Gistihúsið EgilsstöðumGistihúsið Egilsstöðum

Hlýlegt sveitahótel á bökkum Lagarfljóts á Fljótsdalshéraði, í næsta nágrenni við þéttbýlið Egilsstaði á norð-austur Íslandi. Herbergi með sérbaðherbergi. Veitingastaður sem gott orð fer af fyrir ljúffenga rétti m.a. úr hráefni úr heimabyggð. Rómantískt andrúmsloft og fyrsta flokks þjónusta í fallegu umhverfi. Góð staðsetning fyrir skoðunarferðir um Hérað og Austfirði. Opið allt árið.

Frá:17.990kr
hver nótt
Veldu dagsetningar
Senda fyrirspurn

Þjónusta

 • Sér baðherbergi, sjónvarp og veitingarstaður
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Hefðbundinn búskapur
 • Frítt netsamband
 • Aðgangur að nettengdri tölvu
 • Veitingastaður
 • Vínveitingar
 • Máltíðir í boði
 • Fundar- / Ráðstefnuherbergi
 • Kreditkort
 • Opnir miðar

Í nágrenni

 • Egilsstaðir 300 m (sundlaug, golf, upplýsingamiðstöð ferðamanna)
 • Hestaleiga 8 km
 • Hallormsstaðaskógur 28 km (gönguferðir, bátaleiga)
 • Seyðisfjörður 35 km
 • Skriðuklaustur, miðstöð menningar og sögu 39 km

Gistiaðstaða

15x2 manna, 2x3manna og 1x1 manns björt og vel búin herbergi með sérbaðherbergi, sjónvarpi, ókeypis þráðlausu netsambandi og aðstöðu til að laga kaffi og te. Herbergin eru á 2. og 3. hæð með útsýni til fjalla eða yfir lygnt Lagarfljót. Þau eru flest í gömlum stíl með húsgögnum sem minna á liðinn tíma. Þvottaaðstaða fyrir gesti. Gistihús hefur verið rekið á búinu Egilsstöðum frá árinu 1884 en byggingin, sem hýsir hótelið nú, er að stofni til frá fyrstu áratugum 20. aldar, var reist í tveimur áföngum árin 1904 og 1914.

 
Veitingar/máltíðir

Veitingasalur gistihússins tekur 50 manns í sæti. Þar er vandað til verka og veitingastaðurinn er kunnur fyrir listilega tilreidda rétti m.a. úr nauta- og lambakjöti úr heimabyggð, bleikju og reyktum laxi. Gott morgunverðarhlaðborð. Á hlýjum sumardögum geta gestir snætt úti á verönd við veitingastaðinn og notið útsýnis yfir fljótið. Hlýlegur bar og setustofa með arni.

 
Þjónusta/afþreying

Á Egilsstaðabúinu er rekið kúabú og gestum er velkomið að heimsækja kýrnar í fjósinu sem er stuttan spöl frá gistihúsinu. Gistihúsið er í aðeins 5 mín. gang frá þéttbýlinu á Egilsstöðum. Þar eru verslanir, veitingastaðir, góð sundlaug og ýmis almenn þjónustufyrirtæki, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn þar sem má fá m.a. góð gönguleiðakort af Austurlandi. Hestaleiga á Skipalæk (3,5 km) og Útnyrðingsstöðum (7 km). 9 holu golfvöllur, par 35, á Ekkjufelli (4,5 km). Reglulegar áætlunarferðir í innanlandsflugi (flugtími 1 klst.) milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Til Seyðisfjarðar, þar sem ferjan Norræna leggur að bryggju, eru 28 km.

 
Fljótsdalshérað, frítt og blómlegt

Gistihúsið Egilsstöðum er vel staðsett fyrir skoðunarferðir um Fljótsdalshérað sem er víðlent, fjölbreytt að landslagi og hefur margt að bjóða ferðamönnum. Fjölmargir kostir eru í boði fyrir göngufólk og fjallamenn og náttúruunnendum bendum við sérstaklega á Hallormsstaðaskóg, Hengifoss (næsthæsta foss á Íslandi) og náttúrusmíðina Stórurð undir Dyrfjöllum. Eftir viðdvöl í Hallormsstaðaskógi er fróðlegt að heimsækja menningar- og fræðslusetrið Skriðuklaustur, en þar er einnig Snæfellsstofa, upplýsinga- og fræðslusetur um eystri hluta Vatnajökulsþjóðgarðs.

 
Borgarfjörður eystri

Frá Egilsstöðum er tilvalið að fara í dagsferðir til fjarðanna sunnan við Fljótsdalshérað. Borgafjörður eystri (67 km) er víðkunnur staður fyrir tignarlega fjallaumgjörð og einstæða náttúrufegurð. Ökuleiðin þangað liggur út með héraðinu, í norður frá Egilsstöðum, þar sem landið breytir smám saman um svip þegar nær dregur úthafinu. Af Vatnsskarði, á leið yfir til Borgarfjarðar eystri, er fagurt útsýni. Þegar hallar niður af skarðinu sunnan megin er komið yfir í töfrandi heim Njarðvíkur og síðan Borgarfjarðar eystri þar sem hlýlegt Bakkagerðisþorp tekur á móti ferðamönnum.

 
Stórbrotið landslag og hlýlegir útvegsbæir

Yfir til Seyðisfjarðar, sem er fallegt sjávarpláss í þröngum faðmi hárra fjalla, eru aðeins 28 km frá Egilsstöðum um Fjarðarheiði. Um Fagradal liggur leiðin til Reyðarfjarðar (33 km), og þaðan eru aðeins 15 km til Eskifjarðar; í báðum þessum bæjum eru t.d. áhugaverð söfn. Frá Eskifirði eru 20 km til Neskaupsstaðar, sem er dæmigerður, blómlegur, íslenskur sjávarútvegsbær. Frá Reyðarfirði er ekið um göng til Fáskrúðsfjarðar (17 km), smábæjar við fagran fjörð þar sem er einstakt safn og margt til minja um franska skútusjómenn sem höfðu þar bækistöð á síðari hluta 19. aldar og fram á þá 20.

Gestgjafar: Gunnlaugur og Hulda.

 

In the area