Syðri-Vík í VopnafirðiSyðri-Vík í Vopnafirði

Gistiheimili með sex herbergjum og sumarhús á bóndabæ upp frá fjarðarbotni við sunnanverðan Vopnafjörði, 8 km frá þorpinu sem dregur nafn af firðinum. Merktar gönguleiðir í nágrenninu og víðar í sveitinni. Góð staðsetning til kynnisferða um héraðið og til næstu byggða fyrir norðan Vopnafjörð. Opið frá 01. mars til 31. nóvember. 

Veldu dagsetningar
Frá:12.000 kr.
hver nótt á herbergi
Senda fyrirspurn

Þjónusta

 • Sameiginlegt baðherbergi
 • Sér baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Bústaður
 • Hefðbundinn búskapur
 • Eldunaraðstaða

Í nágrenni

 • Merktar gönguleiðir og veiðileyfi
 • Vopnafjörður 8 km
 • Bustarfell minjasafn 25 km
 • Selárdalur sundlaug 35 km
 • Egilsstaðir 132 km

Gistiaðastaða

Gistiheimili: 6x2 manna herbergi með 2 sameiginlegum baðherbergjum, fullbúnu eldhúsi, borðstofu og setustofu með sjónvarpi. Gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Þvottaaðstaða. Í sömu byggingu er einnig lítil íbúð með sérinngangi þar sem er svefnpláss fyrir 4. Verönd með gasgrilli.

Sumarhús:  1x6 manna sumarhús með 4 svefnherbergi; eitt hjónaherbergi, annað með þremur rúmum og tvö lítil kojuherbergi. Við húsið er verönd með gasgrilli.

 
Veitingar/máltíðir

Morgunverður er innifalinn í gistiverði á gistiheimilinu. Að öðru leyti sjá gestir um mat sinn og máltíðir sjálfir. Næsta matvöruverslun og matsölustaður á Vopnafirði (8 km) og veitingastaður, opinn kl. 18:00-22:00, á Síreksstöðum (17 km).

 
Þjónusta/afþreying

Seld veiðileyfi á silungasvæðinu í Hofsá, einni af kunnustu laxveiðiám landsins, sem rennur til sjávar skammt frá Syðri-Vík (vissara að panta fyrirfram). Gönguleiðir við allra hæfi í grennd við bæinn og víða í sveitinni, margar þeirra merktar. Minjsafn í íslenska torfbænum á Burstarfelli (25 km) þar sem er einnig opið kaffihús á sumrin. 9 holu golfvöllur rétt innan við þorpið á Vopnafirði (6,5 km). Sundlaug í Selárdal með heitum potti (35 km). Næsta þéttbýli með verslunum, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og almennri þjónustu: Vopnafjörður (8 km).

 
Gönguleiðir við allra hæfi

Syðri-Vík, jörð þar sem búið hefur verið síðan á landsnámsöld, stendur undir brekkurótum Krossavíkurfjalls. Það er nærri 800 m hátt og víðsýnt af hæsta kolli þangað sem vanir fjallgöngumenn ættu að leggja leið sína. Þeim sem kjósa fremur land, auðveldara yfirferðar á göngu, má benda á leiðir út með ströndinni, gönguleiðir um tangann utan við þorpið á Vopnafirði, í fjörunni fyrir botni fjarðarins og fram til heiðadalanna, t.d. í Sunnudal. Kort af gönguleiðum í Vopnafirði fást á uppýsingamiðstöðinni fyrir ferðamenn í Kaupvangskaffi á Vopnafirði (opið á sumrin).

 
Íslenski torfbærinn í Burstarfelli

Reisulegur torfbærinn í Burstarfelli (25 km), frá síðari hluta 19. aldar, þykir vera einn af fallegustu íslensku torfbæjunum. Búið var í bænum til ársins 1966. Þar er nú fjölbreytt minjasafn í húsakynnum sem þóttu höfðingleg á sínum tíma og heilsa enn gestum með hlýju andrúmslofti liðins tíma. Eftir að gestir hafa skoðað sig um í safninu geta þeir notið veitinga á kaffihúsinu „Hjáleigunni“.

 
Sundlaugin í Selárdal

Sundlaugin í Selárdal, reist árið 1949, er við heita uppsprettu í dalnum sem er eilítið út með ströndinni norðan þorpsins á Vopnafirði (12 km). , Laugin er þarna ein út af fyrir sig í friðsælu umhverfi undir aflíðandi móabrekkum og að heita má fast við bakkann á tærri laxveiðiá. Lauginni er vel við haldið og aðstaða góð enda laugin nýtt m.a. til sundkennslu fyrir skólabörn á Vopnafirði. Hún er að jafnaði um 33°C heit og við hana er heitur pottur. Ekkert rafmagn er í Selárdalslaug.

 
Dagsferðir um næstu byggðir

Syðri-Vík hentar vel sem dvalarstaður fyrir þá sem hafa hug á að skoða sig um út með ströndinni í norður frá Vopnafirði, um sveitinar upp af Bakkaflóa og Þistilfirði þar sem nábýli við norðrið og ólgandi haf hefur mótað náttúru sem býr yfir sínum sérstöku töfrum. Frá Syðri-Vík eru 132 km til Egilsstaða á Fljótsdalshéraði, sunnan Vopnafjarðar.


Gestgjafi: Kristín.

 

í nágrenni